06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

116. mál, krabbameinslækningar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði hér áðan, að auðvitað hafa þær framkvæmdir sem ákveðnar hafa verið í heilbrigðismálum á liðnum árum, t.d. geðdeildarbyggingin og bygging 7 á Landspítalalóðinni, tekið til sín mjög verulega fjármuni og ýtt út af dagskránni öðrum verkefnum sem hafa verið og eru brýn. Mér finnst rétt að rifja það hér upp að þegar ákvörðun var tekin um byggingu 7 á sínum tíma á Landspítalalóðinni þá voru ekki allir alþm., sem að því stóðu, sammála um að rétt væri að taka þá byggingu fram yfir K-bygginguna. Hins vegar verða menn að horfast í augu við það, úr því að þessi ákvörðun var tekin um byggingu 7, að það hlaut að þýða seinkun K-byggingarinnar. Það hlaut að þýða seinkun K-byggingarinnar nema Alþingi væri tilbúið til þess að veita stórauknu fjármagni til framkvæmda á Landspítalalóðinni.

Ég held hins vegar að það sé um það mjög rík samstaða hér á hv. Alþingi, mér hefur skilist það á þessum umr. og á máli hæstv. heilbrrh., að næsta meginframkvæmd í heilbrigðismálum hér á landi hljóti að vera K-byggingin. Það er afstaða sem þegar liggur fyrir og var mörkuð af heilbrrn. fyrir nokkrum árum. Ég skildi hæstv. heilbrrh. svo að hann vilji fylgja þeirri stefnumótun. Hins vegar er nauðsynlegt, eins og hann benti á, að reyna að finna leið til að taka K-bygginguna á framkvæmdalistann í viðráðanlegum áföngum. Og mér skilst að sú hugmynd sem nú liggur fyrir heilbrrn. geri ráð fyrir því að þetta verði unnt með auðveldari hætti en virtist vera kleift á sínum tíma. Þá var hér um að ræða framkvæmd sem hefði tekið svo stóran hluta af framkvæmdafjármagni heilbrigðismála að fjvn. og Alþingi töldu það í rauninni útilokað að koma til móts við þær hugmyndir eins og þær lágu þá fyrir. Þess vegna fagna ég því ef mögulegt er að taka þetta í viðráðanlegri áföngum. Ég vil láta þá afstöðu mína koma fram að ég tel að K-byggingin eigi að vera næsta meginverkefni í heitbrigðismálum á Íslandi, næsta stórverkefni.