06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

113. mál, Námsgagnastofnun

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Skólar eru meðal stærstu og fjölmennustu vinnustaða í landi okkar sem kunnugt er. Þar stunda nú um 65 þús. nemendur nám hjá um 5 þús. kennurum. Þar af eru nemendur grunnskóla röskur helmingur eða um 37 þús. og þar af 33 þúsund í skyldunámi. Ramma skólastarfsins myndar húsnæði og þau námsgögn sem kennarar og nemendur hafa við að styðjast. Í lögum um Námsgagnastofnun frá 16. maí 1979 segir m.a. í 1. gr.:

„Hlutverk Námsgagnastofnunar er að sjá grunnskólum fyrir sem bestum og fullkomnustum náms- og kennslugögnum. Uppeldis- og kennslufræðileg markmið Námsgagnastofnunar eru í samræmi við 2. gr. laga nr. 63/1974 um grunnskóla.“

Í þeirri grein grunnskólalaganna, sem hér er vitnað til, segir m.a.

„Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð, sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.“

Í 2. gr. laga um Námsgagnastofnun segir: „Námsgagnastofnun annast framleiðslu, útgáfu og miðlun hvers konar námsgagna og kennslutækja, fylgist með nýjungum á því sviði og kynnir þær.

Stofnunin skal hafa samstarf við þá aðila sem vinna að endurskoðun námsefnis og nýjungum í skólastarfi á vegum menntmrn., við fræðsluskrifstofur, svo og Kennaraháskóla Íslands og aðrar stofnanir sem veita kennaramenntun.“

Þá gera lögin samkvæmt 8. gr. ráð fyrir að Námsgagnastofnun geri áætlun til allt að fimm ára um útgáfu náms- og kennslugagna og endurskoðist hún árlega.

Nú er fjárhagsstaða Námsgagnastofnunar þannig, að stefnir í algert óefni með tilliti til fyrirhugaðra fjárveitinga samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Í fréttabréfi Námsgagnastofnunar, sem út kom í síðasta mánuði og sent hefur verið þingflokkum, er að finna samþykkt stjórnar stofnunarinnar frá 29. sept. s.l. þar sem vakin er athygli á þeirri afar alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá skólunum sem stofnunin á að þjóna lögum samkvæmt. Áætlun Námsgagnastofnunar fyrir yfirstandandi ár gerði ráð fyrir útgáfu á 295 námsgögnum eða titlum, en þar af var frestað útgáfu á 139 verkum til næsta árs. Orðrétt segir í bókun stjórnar Námsgagnastofnunar frá 29. sept. s.l.:

„Í lok september voru u.þ.b. 150 titlar ekki til á lager af þeim 750 sem eru nafngreindir í kynningarskrá stofnunarinnar og þá lágu fyrir pantanir á u.þ.b. 50 þúsund eintökum af þessum titlum. Allt það efni sem ólokið er mun bætast á útgáfuáætlun 1984. Að mati námsgagnastjórnar eru hér að gerast alvarlegir hlutir, sem þegar hafa haft neikvæð áhrif á starfið í grunnskólum landsins, því skólastarfið byggist fyrst og fremst á þeim gögnum sem nemendur og kennarar hafa handa á milli á hverjum tíma. Nýtt námsefni á undir högg að sækja og stofnunin getur ekki nægilega endurnýjað lager sinn af efni sem skólarnir þurfa á að halda. Vandanum er velt áfram, verkefni hlaðast upp og gerð langtímaáætlana um útgáfu námsgagna er óframkvæmanleg í þeirri óvissu sem stofnunin býr við.“

Einnig segir: „Það er skoðun námsgagnastjórnar, að þær fjárhæðir sem á vantar til að gera útgáfu námsgagna sæmileg skil séu lágar í samanburði við heildarútgjöld til fræðslumála. Á lokafundi fyrstu stjórnar Námsgagnastofnunar vill hún með bókun þessari koma á framfæri áhyggjum sínum af þróun mála og beinir þeirri eindregnu áskorun til menntmrh. að fundin verði frambúðarlausn á fjárhagsvanda Námsgagnastofnunar svo tryggt verði að hún geti sinnt verkefnum sínum lögum samkvæmt.“

Áætlun Námsgagnastofnunar fyrir árið 1984 gerir ráð fyrir um 56 millj. kr. útgjöldum á næsta ári, en talan í fjárlagafrv. er tæpar 30 milljónir eða næstum helmingi lægri en áætlun stofnunarinnar gerir ráð fyrir. Þessi upphæð svarar aðeins til um 800 til 900 kr. á hvern nemanda í grunnskóla og skyldunámi, en þyrfti að vera 1 600 til 1 700 kr. á nemanda ef standa ætti við áætlun stofnunarinnar og beiðni um fjárveitingar.

Í fréttabréfi Námsgagnastofnunar segir Ásgeir Guðmundsson námsgagnastjóri eftirfarandi varðandi fjárlagafrv., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef afgreiðsla Alþingis á frv. verður með þeim hætti, sem þar er lagt til, fer ekki milli mála að útgáfa Námsgagnastofnunar mun miðast að mestu við endurprentanir og nýtt námsefni verður látið bíða.“

Skólamálaráð Kennarasambands Íslands hefur með bréfi þann 17. nóvember s.l. til fjvn. og þingflokka tekið undir áhyggjur og erindi stjórnar og forstjóra Námsgagnastofnunar. Í bréfi skólamálaráðs kemur fram að ráðið telur ljóst að stórminnkuð framlög til stofnunarinnar muni hafa afgerandi áhrif á skólastarf í landinu og því skorar skólamálaráð kennarasambandsins á fjvn. og þingflokka að taka þessi mál til endurskoðunar þannig að úrbætur fáist við afgreiðslu fjárlaga.

Herra forseti. Lög um Námsgagnastofnun voru framfaraspor í framhaldi af setningu laga um grunnskóta. Starfsmenn stofnunarinnar hafa unnið mikið og að því er virðist mjög gott starf við á ýmsa lund erfiðar aðstæður og starfsemi kennslumiðstöðvar Námsgagnastofnunar nýtur mikillar og verðskuldaðrar viðurkenningar skólamanna. Hið sama gildir um þá aðila er vinna að undirbúningi námsefnis og námsskrárgerð fyrir grunnskóla á vegum menntmrn. Það skiptir sköpum fyrir skólastarfið í landinu að hægt sé að hafa fyrirliggjandi fjölbreytt námsgögn, er svari kröfum nútíðar, og það skiptir meginmáli að skólarnir geti treyst á áætlanir um að útgáfa námsgagnanna standist. Vöntun á námsgögnum í byrjun skólaárs leiðir ekki aðeins til óvissu og tímasóunar í starfi skólanna, heldur skapast af því mikill kostnaðarauki þar sem reynt er að bjarga í horn með fjölföldun efnis í skólanum sjálfum. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

Nemendur skólanna, börnin, svo og kennarar þeirra eru þolendur þessara aðstæðna. Það er Alþingis sem fjárveitingavalds að tryggja að Námsgagnastofnun geti rækt lögboðið hlutverk sitt, en stefnumörkunin er í höndum rn. og ríkisstj. á hverjum tíma. Því hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvaða horfur eru á að Námsgagnastofnun geti fullnægt þörfum skólanna fyrir námsgögn á næstunni og sinnt lögboðnu hlutverki sínu með tilliti til fjárveitinga samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1984?“