06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

113. mál, Námsgagnastofnun

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. sá vandi sem hér er spurt um er árviss í sölum Alþingis. Að þessu sinni lítur málið svo út, að samkvæmt frv. til fjárlaga ársins 1984 eru liðlega 28 milljónir ætlaðar til Námsgagnastofnunar. Sú fjárhæð er eingöngu framreiknuð fjárveiting fyrra árs eða um 50% hækkun. Með þeirri fjárveitingu er ljóst að Námsgagnastofnun getur ekki nema að takmörkuðu leyti sinnt lögboðnu hlutverki sínu. Námsgagnastofnun hefur óskað eftir allt að helmingi hærri fjárveitingu en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. næsta árs, en í þeirri beiðni er óskað eftir verulegri aukningu í starfsmannahaldi, auknu fjármagni til útgáfu og til stofnkostnaðar framkvæmda í því skyni að koma á aukinni hagræðingu í rekstri stofnunarinnar þegar til lengri tíma er litið, en mestu veldur þó uppsafnaður vandi stofnunarinnar sem stafar af ónógum fjárveitingum á síðustu árum.

Ég vil um þessi tvö atriði fara nokkrum orðum nánar. Þegar talað er um aukna hagræðingu í rekstri stofnunarinnar ef til lengri tíma er litið, þá vil ég geta þess að nú er u.þ.b. að ljúka störfum nefnd sem sérstaklega hefur unnið að tillögugerð um lausn á fjárhagsvanda Námsgagnastofnunar. Tillögur hennar munu liggja fyrir nú á næstu dögum. Samkv. þeim er m.a. gert ráð fyrir auknum verkefnum Námsgagnastofnunar, sem er fyrst og fremst fólgið í því að námsefnisgerð flyst í verulegum mæli frá skólarannsóknadeild í Námsgagnastofnun. Það þýðir vitanlega aukna þörf á húsnæði og annað skiputag á mannafla. Enn fremur eru í þessu sambandi enn á ný uppi till. um að flýta frágangi húsnæðisins að Laugavegi 166, í Víðishúsinu, og það er einn liður í lausn þessa vanda.

Mestu valda um þennan vanda þær uppsöfnuðu skuldbindingar sem stafa af ónógum fjárveitingum liðinna ára. Til þess að veita hv. þm. innsýn í það vil ég leyfa mér að lesa lítið bréf til eins af forverum mínum, sem námsgagnastjóri sendi mér fyrir nokkrum dögum, en þar segir m.a., í bréfi sem dagsett er 10. september 1980, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég leyfi mér að benda á nokkur grundvallaratriði, ef takast á að hrinda verkefnum stofnunarinnar í framkvæmd.

1. Tryggja verður fjárhag stofnunarinnar, en áður hefur verið gerð ítarleg grein fyrir fjárhagsstöðu.

2. Stefnt hefur verið að því undanfarin ár að stofnunin fengi til afnota hluta af húsinu Laugavegur 166, en vegna óvissu um húseignina hafa stjórnvöld stöðvað framkvæmdir við lagfæringu á húsinu og frágang.

Ég tel að nú þegar verði að taka endanlega ákvörðun um framtíð hússins svo hægt sé að hefjast handa um uppbyggingu Námsgagnastofnunar.“

Hér lýkur tilvitnun, herra forseti, en segja má að málið standi þannig í dag að nákvæmlega sams konar yfirlýsingar eigi við nú og settar voru fram 1980.

Það þarf því verulegt átak til að koma þessum málum í það lag sem þarf. Það er nú unnið að áætlun um húsnæði og mannaflaþörf, jafnframt því sem unnið er að hagkvæmnisathugun í tengslum við aukna tæknivæðingu, svo sem tölvunotkun í þágu stofnunarinnar, úttekt á lager og fleira. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði að mestu lokið einnig nú á næstu dögum.

Öllum aðilum sem um þetta mál hafa fjallað er ljóst að úrbóta er þörf í fjármálum stofnunarinnar, en sá vandi er tvíþættur. Það verður annars vegar að leysa þann vanda til skamms tíma, gera stofnuninni kleift að sinna útgáfu nauðsynlegra námsgagna næsta ár, þannig að hið langvarandi fjársvelti bitni ekki á almennu skólastarfi í landinu. Mér er kunnugt um að á þessu er fullur skilningur í fjvn. og ég er þess fullviss að fjárveiting til stofnunarinnar mun hækka nokkuð í meðförum Alþingis. Hins vegar stendur eftir sá vandi sem snýr að áframhaldandi uppbyggingu stofnunarinnar og því að tryggja henni öruggan fjárhagsgrundvöll. Um þau mál tel ég ekki rétt að fjölyrða á þessu stigi málsins, en ekki er ólíklegt að þau komi til frekari umfjöllunar síðar.

Ég tel að á þessu stigi sé ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta mál, sem þó er stórt og viðamikið og fyllsta ástæða til að taka til nánari athugunar fljótlega og ekki síst þegar nál., sem ég hef getið um, liggja fyrir með formlegum hætti.