06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

113. mál, Námsgagnastofnun

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég hef haft tækifæri til að kynna mér starfsemi og rekstur Námsgagnastofnunar og tel ég hvoru tveggja vera til fyrirmyndar. Í fáum ríkisstofnunum held ég að menn sinni störfum sínum af jafnmiklum áhuga og framsækni og í þeirri stofnun. Eins og hér hefur komið fram gegnir þessi stofnun undirstöðuhlutverki í íslensku samfélagi. Hún leggur uppvaxandi kynslóð til þau gögn sem skólun hennar byggir á. Starfsemi hennar er því veigamikill þáttur í aðbúnaði barna hér á landi, en fleira er aðbúnaður en fæði og húsaskjól, eins og hv. þm. er vitaskuld kunnugt um. Í börnunum okkar felst framtíð lands og þjóðar og það er undarleg þjóð sem sparar í aðbúnaði barna sinna því þar með er hún að vega að eigin lífsuppsprettu. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. menntmrh., hvort hún út frá þessu telji verjanlegt að skammta Námsgagnastofnun svo naumt að hún geti ekki gegnt hinu veigamikla hlutverki sínu, eins og nú eru horfur á.