06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

113. mál, Námsgagnastofnun

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það hefur orðið vart við gagnrýni á námsefni í skólum um árabil. Slík gagnrýni kemur reglulega upp í þjóðfélaginu. Ég býst við því, að þegar grannt er skoðað sé nokkuð ruglað saman námsefni fyrir grunnskóla og námsefni fyrir framhaldsskóla því þegar að er gáð og kannað er hvað gagnrýnt er á sú gagnrýni ekki við það námsefni sem Námsgagnastofnun sinnir útgáfu á fyrir grunnskólana. Það er mun meira gagnrýnt námsefni framhaldsskólanna. Mér þótti rétt að þetta kæmi fram hér.

Það er ástæða til að taka undir þá umr. sem hér hefur átt sér stað í þá átt að styrkja stöðu Námsgagnastofnunar. Það þarf að rétta hennar hlut. Af 24 starfsmönnum Námsgagnastofnunar er gert ráð fyrir 11 í fjárlögum. Svo hefur verið um árabil. Það hefur þýtt að stofnunin hefur orðið að taka af rekstrarkostnaði sínum, útgáfukostnaði, til þess að greiða laun starfsmanna. Þetta hefur komið niður á útgáfu og eðlilegu og nauðsynlegu starfi Námsgagnastofnunar. Það má nefna það hér sem dæmi, að á þessu ári eru u.þ.b. 295 titlar á útgáfuskrá hjá Námsgagnastofnun, en það eru 150 gefnir út. Það er því u.þ.b. helmingur af því sem er á skrá. Meðalverð á hverri bók til skóla er 60 til 70 kr. Og þegar menn skoða þau gögn sem stofnunin vinnur er augljóst að þar er vel að verki staðið. Þar er hugsað um nýtingu og augsýnilega skynsamlega unnið.

Það má einnig nefna að endurnýting á námsgögnum grunnskóla er orðin föst venja og er það annað en áður var. Nú er miðað við að gögnin nýtist a.m.k. í 3 til 4 ár. Það er því ástæða til þess, herra forseti, að hvetja til þess í lokaorðum að hagkvæmum rekstri Námsgagnastofnunar sé sýnd sú virðing að rétta hlut stofnunarinnar sem fyrst.