06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins að skjóta hér inn örfáum staðreyndum sem einhvern veginn hafa farið hér utan við umr. Hér er nefnilega ekkert um að ræða hvort hæstv. ráðh. hefur góðan, vondan eða engan vilja til að sjá um að fram fari kennsla og fræðsla um ávana- og fíkniefni. Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt lagabreyting hér á hinu háa Alþingi þar sem hæstv. ráðh. er gert að láta þessa kennslu fara fram. Það eru lög í landinu. Flytjendur þessa frv. voru hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir Jóhanna Sigurðardóttir, Alexander Stefánsson, Guðrún Helgadóttir, Pétur Sigurðsson og Birgir Ísl. Gunnarsson. Með þessari lagabreytingu var sett inn í grunnskótalögin sú kvöð að fram skuli fara kennsla um áhrif ávana- og fíkniefna af öllu tagi. Áður hafði grunnskólanum að vísu verið gert að annast þessa kennslu, en það ákvæði var í áfengislögum og nauðsynlegt þótti að herða á þessari kvöð með því að flytja hana inn í sjálf grunnskólalögin. Það er þess vegna engin spurning um hvort einhver er vinsamlega eða óvinsamlega stemmdur. Ráðh. ber að gera þetta.

Ekki alls fyrir löngu — ég skal reyna að stytta mál mitt, herra forseti — var viðtal í sjónvarpi við annan þeirra starfsmanna sem sendur var til Bretlands til að kynna sér og læra þessi fræði. Hann sagði laun sín renna út um áramót. Hann kvaðst vera að vinna að kennsluefnum í þessum fræðum, en allsendis væri óvíst hvert yrði framhald þess starfs. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðh., vegna þess einfaldlega að ég get ekki fundið í frv. til fjárlaga grænan eyri til þess: Á að halda þessu starfi áfram? Ég vil fá einfaldlega já eða nei, vegna þess að við skulum horfast í augu við að við heyrum allt of oft hér á Alþingi viljayfirlýsingar af þessu og hinu tagi, og ég vitna til spurningar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan um námsgögn handa börnum með sérþarfir. Við höfum öll ósköp góðan vilja, en þessi vilji kostar peninga til þess að eitthvað verði gert. Þetta er einfaldlega spurning um það, hvort til séu peningar fyrir þessu eða ekki. Auðvitað eru þeir til. Spurningin er um hvort á það verður lögð áhersla eða ekki. Ég vildi aðeins koma þessu að vegna þess að ég held að við tölum stundum hér eins og það sé eitthvert vafamál hvort lög beri að framkvæma. Til hvers erum við að setja þau? Auðvitað á að framkvæma þau. En það kostar peninga, hæstv. ráðh.