19.10.1983
Neðri deild: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

11. mál, launamál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar þessi ríkisstj. tók við völdum í maí s.l. var allri þjóðinni ljóst að efnahagsvandinn var hrikalegur og grípa þyrfti hið skjótasta til aðgerða. Í stjórnarmyndunarviðræðunum s.l. vor var því ekki tekist á um hvort grípa þyrfti til aðgerða, heldur hvers konar aðgerða. Ég segi þetta hér vegna þess að í umfjöllun ríkisstj. um þessar aðgerðir og m.a. það frv. sem við fjöllum um, sem virðist eiga að vera burðarásinn í efnahagsstjórn þessarar ríkisstj., er ávallt látið í það skína að þessar aðgerðir ríkisstj. hafi verið eini valkosturinn í stöðunni til að forða 100 til 130% verðbólgu.

Hæstv. forsrh. hefur viðurkennt að það séu launþegarnir sem hafi verið látnir bera byrðarnar í efnahagsaðgerðum ríkisstj. og það er raunar ekkert nýtt. Það hefur hver ríkisstjórnin á fætur annarri velt vandanum yfir á launþegana, yfir á heimilin í landinu, og allar aðgerðir undanfarinna ára hafa að meira eða minna leyti verið einhliða aðgerðir sem beinast að launum fólksins í landinu.

Einstæð móðir ritaði í Dagblaðinu nýlega hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni bréf þar sem þessi einstæða móðir sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Er ekki kominn tími til þess að þú hættir að ávarpa mig og aðra þegna þessa lands af fjálgleik og biðja um aðstoð og samstarf okkar? Við erum fyrir löngu búin að rétta þér höndina. Við finnum bara ekki þína“.

Sú kennslustund sem fjmrh. landsins var tekinn í af þessari einstæðu móður var tímabær og rétt. Hún er í hnotskurn einnig lýsing á því hvers vegna við höfum ekki náð árangri í viðureigninni við verðbólguna. Hún er lýsing á því hvernig haldið hefur verið á málunum undanfarin ár og þess vegna er nú komið sem komið er. Lýsing þessarar einstæðu móður á því hvernig launþegar þessa lands hafa hvað eftir annað rétt stjórnarherrunum hönd sína til þjóðarsáttar, til að ná einingu og samstöðu sem skilar árangri, en samt aldrei fundið hönd stjórnarherranna, er táknræn og sönn. Það er einmitt þetta sem við Alþfl.-menn höfum gagnrýnt — þessar aðferðir að ráðast ávallt einhliða að launþegunum í landinu til þess að reyna að ná niður verðbólgunni. Það er þess vegna sem við Alþfl.-menn töldum okkur ekki eiga samleið lengur með ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar á sínum tíma né heldur þessari leiftursóknarríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, því reynslan sýnir að launaskerðing ein og sér skilar engum árangri.

Það var gagnrýnt hér í umr. fyrir helgi að þessi ríkisstj. hefði ekki kallað saman Alþingi í sumar. Hvað hefur ríkisstj. verið að gera í sumar sem hún taldi bæði réttara og gagnlegra að gera en að kalla saman Alþingi? Var hún að beita sér fyrir einhverjum aðgerðum sem brýna nauðsyn bar til að setja um brbl. sem ekki gæfist tími til að kalla Alþingi saman til þess að fjalla um? Ég fæ ekki séð það.

Hvað var ríkisstj. að glíma við í sumar sem var svo brýnt og knýjandi að ekki gafst tími til að kalla saman Alþingi? Jú, brbl. um kjaraskerðinguna sem við fjöllum nú um. Jú, ráðh. voru í tíðum utanferðum, ef marka má fregnir blaðanna, hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson stóð í bílakaupum og hæstv. fjmrh. í að fella niður söluskatt af aðgöngumiðum í tívolí, og brýna nauðsyn bar líka til að setja brbl. um að lækka tolla á þurrkuðum fíkjum, ávöxtum og aspas, makkarónum, kaffidufti og maís til þess að létta á láglaunaheimilunum í landinu. Þau brbl. voru líka um að lækka tolla af borðbúnaði, en ég spyr: Hvað gagnar það láglaunaheimilum í landinu að hæstv. fjmrh. lækki tolla af borðbúnaði, hnífum og göfflum, rafmagnskaffikönnum eða geymum í hitabrúsa, þegar fólk á ekki fyrir mat út mánuðinn?

Í sumar hafa ráðh. líka verið með yfirlýsingar um sitthvað í húsnæðismálum, sem vöktu vonir húsbyggjenda, sem nú er að koma í ljós að ekki verður staðið við.

Hæstv. fjmrh. taldi brýna nauðsyn bera til þess að létta róðurinn hjá þeim sem efni hafa á utanlandsferðum með því að fella niður skatt á ferðamannagjaldeyri. Varla kemur það láglaunaheimilunum til góða.

Til þess bar brýna nauðsyn að setja brbl. og svo upptekin var ríkisstj. við sína brbl.-setningu að ekki mátti hæstv. ríkisstj. vera að því að kalla saman Alþingi til að fjalla um þessa eða aðra mikilvægari hluti.

Herra forseti. Það er auðvitað brýnt að fjalla um aðra þætti efnahagsaðgerða ríkisstj. þegar við fjöllum um þessi brbl. um launamál, því allt tengist það því hvort launafólk megi vænta þess að þær fórnir sem á það eru lagðar með þessum brbl. skili árangri og það hlýtur að móta viðhorf hv. alþm. til þeirra aðgerða sem frv. þetta felur í sér. Tökum sem dæmi kerfisbreytingu: Hvað hefur þessi ríkisstj. gert í kerfisbreytingu? Jú, nefndir hafa verið skipaðar. Ég spyr: Búast menn við því að starfsemi Framkvæmdastofnunar eða Byggðasjóðs verði breytt þegar hv. alþm. Tómasi Árnasyni er falið að rannsaka Framkvæmdastofnun, sem er undir forustu Tómasar Árnasonar kommissars sömu stofnunar? Samkv. upplýsingum hv. þm. Ellerts Schram — og skipstjóra að eigin sögn — í Helgarpóstinum nýlega hefur nefnd kommissarsins ekki verið kölluð saman enn þá. Nei, hefði nú ekki verið nær að kalla alþm. til starfa í sumar í stað þessa yfirklórs hæstv. ríkisstj. í sumar í efnahagsmálum, sem svo til eingöngu hefur beinst að laununum og launafólki í landinu? — Spyrja má líka að því, hvort það sé skynsemi í þeim afrekum ríkisstj. í sumar eða nokkur réttsýni að byrja sparnaðarviðleitni í ríkisrekstrinum með því að ráðast að Sóknarkonunum og skapa þeim óöryggi um atvinnu sína á næstu vikum.

Hér eru flest upptalin afrek ríkisstj. frá því í sumar. Hæstv. ríkisstj. er samt einstaklega ánægð með gjörðir sínar, bendir á að verðbólgan sé á dúndrandi niðurleið og vextir hafi lækkað, en þessar verðbólgutölur, sem hægt er að sýna fram á á pappírnum, standa örugglega ekki á traustum grunni ef uppistaðan á eingöngu að vera launaskerðingar eins og við fjöllum um í þessu frv. Það getur enginn byggt upp traust efnahagslíf með því að halda aðeins niðri laununum. Slíkar verðbólgutölur, slíkar verðbólguspár munu hrynja líkt og spilaborg og fjúka út í veður og vind fyrr en varir ef launaskerðingar eiga að vera burðarásinn í efnahagsaðgerðunum. Og því miður er hvergi fast land undir fótum annars staðar hjá þessari ríkisstj.

Það er vissulega virðingarvert hjá hæstv. forsrh. að viðurkenna að kostnaðinn af þrotabúi hans og Alþb. beri launþegar nær eingöngu. Ég á ekki von á því að launþegar eða heimilin í landinu hafi fundið fyrir því að sú lækkun verðbólgunnar, sem ríkisstj. talar um, hafi haft áhrif á og komi fram í lækkandi rekstrarkostnaði heimilanna. Þvert á móti! Og það þarf varla að rifja upp fyrir hv. þm. hvernig verðlag hefur fengið að leika lausum hala í sumar og æða upp úr öllu valdi, bæði verð á nauðsynjavörum og allri þjónustu, á meðan launafólk fékk 1. júní 8% í sinn hlut og síðan 4% núna 1. október. En hæstv. ríkisstj. hafði skýringar á reiðum höndum. Það er svo mikið í pípunum sem verður að leiðrétta til að fyrirtækin fari ekki á hausinn, sagði hæstv. ríkisstj. Og hvernig var dæmið leyst? Vandinn sem losa þurfti úr pípunum, eins og það var orðað, var að leyfa hækkun á opinberri þjónustu og á vöruverði um tugi prósenta. M.ö.o.: vandinn var fluttur yfir í pípur heimilanna sem nú eru að bresta með þeim afleiðingum að nú eru heimilin á hausnum og bág staða margra þeirra er hrikalegri en nokkru sinni fyrr.

Ég held að hæstv. ríkisstj. ætti að gera sér far um að skilja hvað það getur kostað ríkiskassann þegar búið er að setja heimilin á hausinn. Fyrir utan samdrátt á ýmsum sviðum atvinnulífsins getur það haft í för með sér margs konar félagslegar afleiðingar ef hart er sótt að láglaunaheimilunum og þau hafa varla fyrir brýnustu nauðsynjum í mat þegar nauðsynleg útgjöld, eins og húsaleiga, rafmagn og hiti, hafa verið af þeim tekin. Og það mun vissulega kosta ríkissjóð sitt ef upplausn heimila og félagslegar afleiðingar af ýmsum toga fylgja þessum aðgerðum ríkisstj. Það getur orðið þjóðfélaginu dýrt þegar upp er staðið.

En hæstv. forsrh. er hvergi smeykur og segir við launafólk að það verði hvergi gefið eftir. Við ætlum að stjórna af hörku, segir hæstv. forsrh. En hann hefur engu stjórnað af hörku nema halda niðri kjörum fólksins, og ég spyr: Finna láglaunaheimilin í landinu að aðhald hafi verið í hækkunum á vöru og þjónustu? Ég held varla. Á sama tíma og stórhýsi Rafmagnsveitu Reykjavíkur er að rísa er verðhækkun á rafmagni 92% á árinu. Hitaveita Reykjavíkur byggir líka, en taxti hitaveitunnar hefur hækkað um 125% í ár. Seðlabankinn hefur sitt á þurru og heldur áfram að byggja seðlabankahöll eins og ekkert hafi í skorist og bankaútibúin þjóta upp eins og gorkúlur. Engin kreppa virðist vera hjá milliliðunum í landbúnaði, hvorki hjá Osta- og smjörsölu eða Mjólkursamsölunni, sem stækkar við sig húsnæði á krepputímum.

Hvernig væri að hæstv. forsrh. stjórnaði þarna einnig af hörku?

Nei, allir hafa allt sitt á þurru nema launþegar. Þeim má blæða þó neyð þeirra sé mikil. Þessi ríkisstj. og reyndar hin fyrri líka hafa gengið svo hart að fjölda heimila í landinu að þau eiga ekki fyrir nauðþurftum þegar líða tekur á mánuðinn — eða hvaða sögu segir okkur stórfelld fjölgun nauðungaruppboða og vaxandi þungi á Félagsmálastofnun eða um 20% fjölgun þeirra sem aðstoðar þurfa þangað að leita?

Hverjar hafa hækkanir á nauðþurftum heimilanna orðið? Gerir hæstv. forsrh. eða ríkisstj. sér grein fyrir því? Frá 1. febr. til 1. ágúst hækkaði matarreikningur vísitölufjölskyldunnar um 57%, en laun um 8%. Opinber þjónusta hækkaði á sama tíma um 47%, en laun um 8%. Lánskjaravísitala hækkaði frá mars til sept. um 46%.

En hver eru mánaðarútgjöld vísitölufjölskyldunnar samkvæmt útreikningum Verðlagsstofnunar? Jú, í júlí 1983 voru þau 40 700 kr. Og hver voru þá lágmarkslaunin í landinu? Jú, 10 539 kr. Hvar var harka hæstv. forsrh. gagnvart aðhaldinu í verðlagsmálum? Ég spyr eins og sú einstæða móðir sem sendi hæstv. fjmrh. bréf í Dagblaðinu nýlega. Hafa láglaunaheimilin fundið styrk þar í hönd ríkisstj.? Ég held ekki. Þessi einstæða móðir fann hana ekki heldur.

Í þessu frv., sem við fjöllum um, er ekki einu sinni tíu þúsund króna laununum hlíft, jafnvel þó allir viti að þau duga ekki fyrir framfærslu heimilanna. Verðlagsstofnun hefur upplýst að einungis matur og hreinlætisvörur kosti meðalfjölskyldu um 118 þús. kr. á ári. Samkvæmt þessu á fólk á lágmarkslaunum einungis eftir þúsund kr. fyrir öðrum útgjöldum. Með þessum þúsund krónum er því ætlað að greiða húsaleigu, hita, rafmagn, síma, klæða fjölskylduna o.s.frv. Valkostirnir eru nánast engir hjá þessu fólki og því er hreinlega ætlað að sitja á götunni með þessa matarkörfu Verðlagsstofnunar.

Þegar laun margra hrökkva ekki einu sinni fyrir mat hlýtur það að vera umhugsunarefni, þegar svo er komið, hvort ekki eigi að lögfesta lágmarkslaun í landinu, og það hlýtur að koma til skoðunar við afgreiðslu þessa frv. nú á hv. Alþingi að það verði gert. Þetta hlýtur einnig að leiða hugann að tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu almennt og hve nauðsynlegt er að fá upp á borðið úttekt á hinni raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og að endurmat fari fram á störfum láglaunahópanna, eins og frv. liggur fyrir um hér á hv. Alþingi. Meðan margar stéttir í þjóðfélaginu eru í aðstöðu til að skammta sér laun sjálfar, meðan atvinnurekendur hafa tök á ekki einungis að skammta sér launin, heldur hvað þeir greiða í skatta, eins og skattaframtöl margra þeirra gefa tilefni til að ætla að þeir geri, á meðan atvinnurekendur ráða sífellt einhliða meira og meira hvernig tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu er háttað með yfirborgunum og kaupaukum til hinna betur settu, þá verða láglaunahóparnir alltaf út undan — þeir hópar sem í raun verða að lifa af þeim hungurtöxtum sem samið er um við samningaborðið.

Óréttlætið í tekjuskiptingunni og aðstöðumunurinn er orðið svo gífurlegt að það þolir enga bið að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og tekjuskiptingunni verði komið í réttlátara horf. Þó efnahagsvandinn í þjóðfélaginu sé alvarlegur er ástandið á heimilunum sem framfleyta þurfa sér af þessum lægstu launum svo alvarlegt og svo bágborið að það er ekki hægt að leggja á þau heimili þær byrðar sem þetta frv. felur í sér.

Það þarf varla að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann treysti sér til að lifa af 10–12 þús. kr. launum, eins og margir verða að gera í dag, og það á sama tíma og upplýst er af Verðlagsstofnun að framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar hafi verið um 40 þús. kr. á mánuði.

Hæstv. forsrh. bliknar ekki einu sinni í sjónvarpinu þegar hann réttlætir bílakaup sín og segist bara fylgja lögum og reglum og gera það til hins ýtrasta. Hæstv. forsrh. datt ekki í hug að afnema þessar reglur, sem auðvitað væri liður í sparnaði og almennu siðgæði ráðh. sem brýna fyrir láglaunafólkinu sparnað og aðhald. Nei, fyrst notar hann reglurnar og segir síðan í sjónvarpi að allt í lagi sé að endurskoða þær.

En það voru önnur lög sem hæstv. forsrh. taldi sig ekki þurfa að fylgja til hins ýtrasta eins og lögunum um ráðherrabílana. Það eru lög og reglur sem giltu um samningsrétt og samningsfrelsi launafólks sem ráðh. telur sig ekki þurfa að fylgja, hvað þá til hins ýtrasta. Þessar reglur, þessi mannréttindi hafa verið fótum troðin. Í 3. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir: „Stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf.“ — Þessi mannréttindi hefur þessi ríkisstj. tekið af verkalýðsfélögunum í landinu. Hún hefur hneppt þau í fjötra, svo að þau ráða ekki málefnum sínum sjálf. Og þegar ráðh. er spurður um hvort það sé ekki vafasamt siðgæði að vera að auka sinn eigin hagnað og bæta sína lífsafkomu á sama tíma og hann krefur láglaunafólk um fórnir, þá segir ráðh. bara að hann fylgi lögum og reglum til hins ýtrasta. En þegar kemur að lögunum um að vernda eigi samningsrétt og frelsi launafólks og verkalýðsfélaga í landinu þarf ekki að fylgja neinum lögum.

En hefur launafólk ekki vanist því að það sé samræmi í orðum og gjörðum Framsfl. eða hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar-eða hvað segja yfirlýsingar forsrh. frá 1979, þegar Sjálfstfl. boðaði sína leiftursókn? Það er fróðlegt að rifja það upp því að leiftursóknin frá 1979 fölnar í samanburði við þá leiftursókn sem Framsfl. stendur nú í forsvari fyrir.

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að rifja upp nokkur þessara ummæla hæstv. forsrh. í tengslum við það frv. sem við nú fjöllum um, sem m.a. felur í sér afnám samningsréttar. Ekki síst, herra forseti, tel ég nauðsynlegt að upplýsa hér einnig hvílík stefnubreyting hefur átt sér stað í Framsfl. viðvíkjandi þeim þætti sem snýr að launamálum, kjaraskerðingu ríkisstj. sem gerð er í tengslum við efnahagsaðgerðir.

Framsfl. réðst nefnilega harkalega gegn áformum Sjálfstfl. um leiftursókn á sínum tíma, sem voru af svipuðum toga og þessar aðgerðir. En til viðbótar leiftursókn íhaldsins frá 1979 hafa nú mannréttindi launafólks og verkalýðshreyfingar, sem er samningsrétturinn, verið fótum troðin af ríkisvaldinu líkt og í Póllandi.

En hvað sagði Steingrímur Hermannsson 1979 um frelsi verkalýðshreyfingarinnar þegar leiftursókn íhaldsins var boðuð? Jú, hæstv. forsrh. sagði þá, með leyfi forseta:

„Framsóknarstjórn miðar störf sín við frjálsa einstaklinga, sem njóta frelsis til orða og athafna í lýðræðisþjóðfélagi. Við viljum að hinu sameiginlega átaki sé lyft á grundvelli samvinnu og samtaka fólksins í anda samvinnuhreyfingar og launþegasamtaka.“

Þetta segir sá maður sem nú stendur í forsvari fyrir því að samningarétturinn, frelsi til að ráða málum sínum, er tekið af fólkinu í landinu.

Hæstv. forsrh. sagði einnig í nóv. 1979: „Framsóknarstjórn vinnur með alþýðu manna.“ — Og áfram, með leyfi forseta: „Ég hygg að það þurfi að stórbæta þær aðferðir sem við höfum verið að móta til að koma á náinni samvinnu ríkisvalds við almannasamtök og atvinnulífið“, sagði hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson.

Og hvað hefur Steingrímur Hermannsson lært síðan þá? Ekkert. Nákvæmlega ekkert. Minna en ekkert. Hvernig hefur Steingrímur Hermannsson stórbætt aðferðina til að koma á náinni samvinnu ríkisvalds við almannasamtök, eins og hann sagði 1979? Jú, með því að afnema samningsréttinn. Hver á að trúa manni sem segir eitt í dag og annað á morgun, að ekki sé talað um þegar það er sjálfur forsrh.?

Leiftursókn íhaldsins lýsti hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson með þeim orðum að Sjálfstfl. ætlaði ekki að leita neinna sátta á vinnumarkaðinum. heldur vildi breiða upp fyrir haus og virkja vinnuveitendur til að herja á launafólkið í landinu. Og hæstv. forsrh. sagði einnig 1979:

„Þetta þýðir vitanlega alveg gífurleg átök á vinnumarkaðinum þegar í stað ef farið verður að framkvæma tillögurnar með því að taka vísitöluna einhliða úr sambandi. Af þessu munu hljótast fleiri vikna verkföll“, sagði hæstv. forsrh.

En ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað nú? Óttast hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson ekki verkföll? Þegar borin eru saman orð hæstv. forsrh. 1979 og gerðir nú á árinu 1983 verða menn að muna að á árinu 1979 var um að ræða að taka vísitöluna úr sambandi en ekki svipta fólk samningsrétti. Skyldi hæstv. forsrh. ekki hafa neinar áhyggjur af verkföllum eða kreppu nú eins og 1979, þegar hann hefur líka svipt fólk samningsrétti?

Og hæstv. forsrh. bætir við í nóv. 1979, með leyti forseta:

„Þessum tillögum lætur Sjálfstfl. fylgja mikinn samdrátt í framkvæmdum. Þeir vilja skera og skera og skera, eins og þeir segja. Þessu mun fylgja atvinnuleysi, en við framsóknarmenn vísum því algjörlega á bug að komið verði á atvinnuleysi til þess að ná einhverjum áfanga í stríðinu við verðbólguna.“

Af aðgerðum hæstv. forsrh. nú má sjá að hann er algjörlega ósammála þeim Steingrími sem þetta sagði 1979 því nú á að skera og skera og skera og svipta fólkið launum og samningsrétti til að ná verðbólgunni niður í heljarstökki. Auðvitað þýðir það samdrátt og atvinnuleysi þegar kaupmáttur fólksins er skorinn svo hrikalega niður sem raun ber vitni, enda er það svo að Verslunarráð Íslands hefur í ályktun tekið undir það að stefna ríkisstj. hafi leitt til samdráttar á vissum sviðum atvinnulífsins og kunni að leiða til atvinnuleysis. Það segir sig sjálft að þegar laun fólks eru skert um 30% í einni svipan, þá hlýtur það að koma fram í samdrætti einnig í atvinnulífinu, ef fólk getur ekki lengur keypt þær vörur og þá þjónustu sem þar eru á boðstólum. Að slá verðbólguna niður á þennan hátt með einhliða kaupskerðingu launafólks er bæði ósanngjarnt og hættulegt atvinnuöryggi. Öllu tali um að aðgerðir ríkisstj. forði atvinnuleysi verður því að taka með fullri varúð.

Hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson endar með því að segja að mikilvægt sé að Framsfl. fái við kosningar 1979 nægilegan styrk til að koma í veg fyrir þvílíka leiftursókn hægri aflanna. En nú á árinu 1983 stendur þessi sami Steingrímur, þótt ótrúlegt sé, í forsvari fyrir slíkri leiftursókn og í stafni þjóðarskútunnar stjórnar hann með harðri hendi og segist hvergi gefa eftir, leiftursóknarmennirnir frá 1979 eru nú aðeins hásetar um borð hjá hæstv. forsrh. Er nema von að stjórnmál séu ekki hátt skrifuð á Íslandi í augum almennings? Er nema von að fólki blöskri þessi tvískinningur, þessi hamskipti hæstv. forsrh. á þremur árum?

Og málgagn forsrh. stendur honum ekki að baki. Dag eftir dag í allt sumar og haust hafa launþegar mátt lesa í því málgagni hve skynsamlegar aðgerðir séu hér á ferðinni, bæði afnám vísitölubóta, bann við grunnkaupshækkunum og svipting samningsréttar.

1979 sagði þetta málgagn forsrh.:

„Ein helsta rjómabollan í leiftursókn íhaldsins er skyndileg lækkun ríkisútgjalda um hvorki meira né minna en 35 milljarða gamalla króna þegar á næsta ári.“

En nú er komið árið 1983 og hver er rjómabolla Framsfl. í þeirri leiftursókn sem Framsókn hefur forustu fyrir? Jú, niðurskurður á öllum sviðum, líka í heilbrigðis- og félagsmálum — ekki um 35 milljarða gamalla króna, nei, heldur um 200 milljarða gamalla króna.

Herra forseti. Ég mun nú fara að ljúka máli mínu. Hæstv. forsrh. og ríkisstj. hafa réttlætt þessar aðgerðir sínar með því að verið sé að ná verðbólgunni niður og verðbólgan sé nú á dúndrandi niðurleið. En er þetta rétt? Er þetta varanlegur árangur sem launþegar geta treyst á? Í því sambandi vil ég, með leyfi forseta, vitna í grein Björns Björnssonar hagfræðings ASÍ í Dagblaðinu nýlega, en þar segir hann:

„Fram hefur komið að ríkisstj. telur að forsenda þess að verðbólgan haldi áfram að lækka sé að launafólk haldi áfram að greiða hana niður. Drög ríkisstj. að þjóðhagsáætlun fyrir 1984 sýna að ríkisstj. ætlar launafólki ekki kjarabætur á næsta ári. H'vað verður árið 1985 eða 1986? Það veit enginn. Ríkisstj. staðfestir með þessu að árangur hennar er ekki varanlegur. Hann stendur einungis á meðan launafólk er reiðubúið til þess að inna niðurgreiðslurnar af hendi. Dýrtíðin vex enn. Svo lengi sem einhver verðbólga er og laun hækka ekki mun kaupmáttur fara lækkandi. Dýrtíðin endurspeglar raunverulega vanda sem í bili hefur verið velt yfir á launafólk.“

Ég tel að þessi orð Björns Björnssonar sýni vel fram á að launafólk getur ekki treyst á að fórnir þess muni skila nokkrum varanlegum árangri. Það greiðir verðbólgu einungis tímabundið niður með launum sínum og skertum kaupmætti. Hún mun blossa upp aftur verði ekkert annað að gert. Hér er enn um að ræða krukk í launin úr samhengi við allar nauðsynlegar efnahagsaðgerðir, úr samhengi við það að ríkisstj. taki með festu á þeim hagstjórnartækjum sem hún hefur yfir að ráða til að við getum treyst á bætt lífskjör, atvinnuöryggi og viðunandi búsetu í þessu landi.