06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að læða nokkrum orðum inn í þessa umr. um nauðsyn á fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum á þessu sviði eins og svo mörgum. Mig langar til þess að tengja þetta náttúrlega að menn hafa talað um að í þetta þurfi peninga og mönnum hefur á þessu þingi orðið sérlega tíðrætt um arðsemi. Ég held að það sé einmitt óvíða kannske meiri arðsemi. Þó menn verði að líta til dálítið langs tíma þá er óvíða meiri arðsemi en einmitt í fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum á svona sviði eins og sviði vímuefna. Það má nefna til miklu miklu fleiri svið, umferðarmenningu, heilsugæslu o.fl.

En ég held að það sé mjög mikilvægt að gæta þess að þó að það sé stórt atriði að efla menntun kennara, byggja upp skólakerfið, koma þessu inn í skólana og þar fram eftir götunum ber náttúrlega líka að líta á hinn bráða vanda. Það er hætt við því að meðan menn semja námsskrár og bæklinga muni ansi margir stíga sín fyrstu „feilspor“ á þessum ógæfubrautum. Ég held að umrædd mynd í sjónvarpi sem menn hafa minnst hérna á í nokkrum ræðum sýni okkur einmitt hverju hægt er að koma til leiðar stundum án kannske langs aðdraganda, án mikillar nefndavinnu, bara með því að þar sýni menn frumkvæði og vilja til þess að koma þessum málum í sviðsljósið. Ég bendi á að fyrir utan skólana höfum við miðla eins og við köllum það, við höfum nýja rás í útvarpinu, við höfum sjónvarp, við höfum dagblöðin, og ég held að við ættum að nýta þessar rásir til þess að koma þessum áróðri á framfæri vegna þess að ég tel að óvíða verði peningunum betur varið.