06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé marklaust að vera að tala hér um fræðslu um ávana- og fíkniefni ef flokksbróðir minn, hv. 2. þm. Austurl., og skoðanabræður hans koma þar nærri. Hér hefur hann sett öll ávanaefni undir sama hatt og ég hlýt að vekja athygli á því að ég held að það sé ekki farsælt að ræða t.d. áfengt öl og heróín eins og þetta séu svipuð efni.

Varðandi það, sem hann sagði um stuðning minn við ölauðvaldið, þá eigum við það sameiginlegt að við erum á móti öllu auðvaldi. Ég er líka á móti auðvaldinu sem selur kanel og pipar. Umræða af þessu tagi um ávana- og fíkniefni er jafnvel hættulegri en efnin sjálf. Og ég held að við ættum að fella þetta tal ef svona fjarstæðu er haldið hér fram.

Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um umræddan sjónvarpsþátt sem sýndur var ekki alls fyrir löngu. Víst var hann sorglegur en ég held að hefði öl komið þar við sögu hefði hann ekki verið nærri eins sorglegur og hann var. Og ég held að við eigum að reyna, foreldrar í landinu og hv. þm., að ræða um þessa hluti af einhverri skynsami. Ég held ekki að unglingar landsins hlusti á ofstæki af þessu tagi.