06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í beina efnislega umræðu í þessu máli. Reynsla mín á þingi er lítil. En ég fæ ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á þær umr., sem hér hafa farið fram, minnug þeirra umr. sem hér hafa áður farið fram á undanförnum vikum.

Það er rætt um fjárskort til framkvæmda og mér sýndist að forgangsröð fjármögnunar — þeirrar sem verið hefur og enn virðist vera — er þannig að mér dettur ekki í hug að þingheimur og stjórnvöld geti verið svona skammsýn og rangsýn. Hér hlýtur eiginlega fyrir löngu að hafa komist inn stafsetningarvilla sem gengur síðan aftur hér í þingsölum. Því vil ég vekja athygli þingheims á því sem mitt gestsauga segir mér og það er að framtíð þessa lands liggur í börnum — ekki í bönkum.