06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja tvö lítil atriði til þessarar umr. Hér hefur verið rætt um fræðslu. Það er auðvitað hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði: framtíð þessa lands liggur í börnum en ekki bönkum. Það eru foreldrar sem ala upp börn og ég vil benda á nauðsyn þess að fræðslu verði einnig beint til foreldra þannig að foreldrar viti hvernig þeir geta tekið á þessum vandamálum þegar þau koma upp og geti heima fyrir haft uppi fyrirbyggjandi aðgerðir ef svo má segja, geti alið börn sín upp í ákveðnu hugarfari gagnvart þeim vágesti sem hér er um að ræða.

Annað atriði sem mig langaði til þess að minnast á og hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á áðan: það kostar peninga að framkvæma lög og það kostar peninga að halda uppi tollgæslu hér. Nú er það þannig að tollgæslan hefur ekki nokkra einustu möguleika til þess að halda uppi kerfisbundnu eftirliti með þeim förum sem til landsins koma þannig að hægt sé að finna út hvort um innflutning á þessum efnum sé að ræða. Allt, sem hefur fundist til þessa, er fundið með „stikkprufum“. Ég vil aðeins koma þessu hér á framfæri. Þetta eru allt saman „stikkprufur“, þetta eru skyndiskoðanir eins og hjá Bifreiðaeftirlitinu, sem hafa leitt til þess að þessi efni hafa fundist.

Getum við látið það viðgangast lengur að tollgæslan sé ekki betur útbúin en svo að hún geti ekki framkvæmt reglubundið eftirlit með þessum hlutum?