06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á frekar að harma það eða fagna því að orð mín um tvískinnunginn hittu svo í hjartastað hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur hér áðan. Í staðinn fyrir ofstækið þar talaði rödd skynseminnar. Þá skynsemi má m.a. lesa í grg. flm. till. sem ég vitnaði til um áfengt öl af því hún var með samjöfnuð hér áðan. Þar er nefnilega líkt saman magnyli og morfíni og eðlilegt að þar sé skynsemin rík á ferðinni.

Nei, ég held nefnilega að einmitt tvískinnungurinn í þessum málum sé eitt höfuðvandamálið. Og þess vegna kom að því áðan að ég gat ekki stillt mig, vegna þess að þarna var annað dagskrármál á ferðinni sem var á seinni fundinum, að víkja að því. Og auðvitað tók hv. þm. þetta réttilega til sín.

Ég held hins vegar að ræður okkar beggja hér áðan hafi alveg skorið úr um það hvort okkar er ofstækisfullra í þessum efnum. En nú veit ég hins vegar hvers Óvitarnir eru skrifaðir af svo nærfærinni þekkingu.