06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

402. mál, tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Á þskj. 140 hef ég borið fram fsp. til hæstv. félmrh. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hvað líður athugun á að flytja verkefni og tekjustofna í áföngum frá ríki til sveitarfélaga svo sem greint er frá í aths. með frv. til fjárlaga fyrir árið 1984?

2. Hverjir vinna að athuguninni?

3. Hvaða tekjustofna er um að ræða?

4. Hvaða verkefni er um að ræða?

5. Liggja fyrir upplýsingar um:

a) tekjuauka sveitarfélaganna af nýjum tekjustofnum;

b) útgjaldaaukningu sveitarfélaganna vegna nýrra verkefna?

6. Liggja fyrir upplýsingar um hvernig fyrirhuguð tekju- og verkefnatilfærsla kemur við sveitarfélögin eftir gerð þeirra:

a) stór þéttbýlissveitarfélög;

b) lítil þéttbýlissveitarfélög;

c) sveitarfélög í dreifbýli?

7. Hvenær má búast við að athuguninni ljúki?“

Hér er um ákaflega viðamikið mál að ræða, sem sveitarstjórnamenn og samtök sveitarfélaga hafa lengi knúið á um að tekið yrði til endurskoðunar. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að nú sé greint frá því hvernig þessari athugun miðar. Jafnframt tel ég þýðingarmikið að upplýst sé hverjir vinni að athuguninni, ekki síst fyrir sveitarstjórnarmenn og samtök þeirra, þannig að þessir aðilar, sem þessi breyting varðar mest, hafi atveg frá upphafi tækifæri til að koma sínum hugmyndum og tillögum á framfæri, þannig að þar fari ekkert á milli mála.

Ef sú tilfærsla sem um er rætt hefur verið markmið ríkisstj. frá upphafi þess er hún var mynduð í vor, þá er dálítið undarlegt að nefnd sú er fyrrv. félmrh. Svavar Gestsson skipaði sumarið 1982 til að endurskoða verka- og tekjuskiptinguna skuli hafa verið leyst frá störfum af núv. félmrh. án þess að nefndin hafi lokið störfum. Þessi nefnd var skipuð fulltrúum ríkisstj. og fulltrúum tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í sjálfu sér getur vel verið að núv. félmrh. hafi haft einhverjar efasemdir um störf þessarar nefndar eða einstaka nm. En með tilliti til þess að nefndin hefur ekki lokið störfum og að umrædd athugun skuli nú í gangi er óeðlilegt að ekki skuli skipuð ný nefnd í stað þess að vinna nú að þessari athugun í kyrrþey.

Sveitarfélögin hafa afar slæma reynslu af þannig vinnubrögðum. Nægir þar að nefna lagasetningu frá 1975, svonefnd bandormslög. Með þeim lagabálki voru einhliða og án alls samráðs við sveitarfélögin og gegn vilja þeirra flutt kostnaðarsöm verkefni frá ríki til sveitarfélaga án þess að þau fengju eðlilegar tekjur á móti. Afdrifaríkast hefur þó orðið það ákvæði laganna að færa rekstrarkostnað og viðhald skólamannvirkja á sveitarfélögin. Á það sérstaklega við í sveitum. Fjárhagsvandi sveitarfélaganna kemur nú m.a. fram í því, að þau geta ekki lengur fjármagnað ógreidd ríkisframlög til skólaaksturs þannig að farið er að loka skólum á Norðurlandi.

Við undirbúning fjárlaga í sumar mun hafa komið fram hugmynd um að færa einhliða verkefni frá ríki til sveitarfélaga án þess að tekjur kæmu þar á móti. Þessu tókst að afstýra og ég vil þakka núv. félmrh. fyrir hlut hans að því. Þá má geta þess að þeir eru ófáir lagabálkarnir, sem hér hafa verið samþykktir á allra síðustu árum, sem leggja þungar fjárhagslegar byrðar á sveitarfélögin án þess að tekjur hafi komið þar á móti. Þannig ber þessi mál allt of einhliða að. Því er endurskoðun þessara mála nauðsynleg.

Hér er um margslungin mál að ræða, sem þurfa ítarlega umfjöllun. Því er nauðsynlegt að fram bornum spurningum sé öllum ítarlega svarað áður en að gengið er til athafna á þessu sviði. Sérstaklega er nauðsynlegt að huga vel að því hvernig allar breytingar koma við sveitarfélögin eftir gerð þeirra. Núverandi tekju- og verkaskipting mismunar sveitarfélögunum hrapallega. Megintilgangurinn með endurskoðuninni nú verður að vera sá að draga úr þeirri mismunun eftir því sem hægt er þannig að sveitarfélögin geti veitt íbúum sínum sem líkasta aðstöðu og þjónustu.