06.12.1983
Sameinað þing: 28. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

404. mál, átak gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin og fagna því að hann hafði góð orð um það að átak yrði gert í þessum málum. Fsp. mín hljóðaði um það hvað dómsmrh. hygðist gera í þessum málum, en hæstv. dómsmrh. las hér upp till. lögreglustjóraembættisins, sem ég náði nú að nokkru leyti niður, en mér var ómögulegt að ná niður till., sem hann las einnig upp, frá aðilum sem starfa við fíkniefnadómstólinn. Hann las þetta svo hratt upp. En ég lagði nú meira upp úr því í minni spurningu að fá fram álit hæstv. dómsmrh., hvað hann teldi heppilegast í þessu máli, en þær till. sem hann las upp hér frá embættismönnunum.

Varðandi það sem ég náði hér á blað af því sem fram kemur hjá lögreglustjóraembættinu finnst mér nú að allar þær till. sem þeir leggja fram miðist meira og minna að því að efla löggæsluna hér á höfuðborgarsvæðinu. En ég tel ekki síður brýnt að við eflum alla toll- og löggæslu um land allt og samhæfum alla þá starfskrafta sem að þessum málum vinna, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land. Við þurfum í raun að koma upp neti allt í kringum landið til þess að fyrirbyggja eins og kostur er að fíkniefni berist til landsins.

Þess vegna vil ég nú leggja áherslu á það, hæstv. dómsmrh., að í því sem ofan á verður að gera í þessum málum verði lögð áhersla á að við tökum á þessum málum ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu heldur allt í kringum landið, að því miðar sú þáltill. sem 12 þm. úr öllum flokkum hafa flutt og lagt hér fram, um að samhæfa alla þá starfskrafa sem að þessum málum vinna.

Hæstv. ráðh. talaði um að hann mundi beita sér fyrir því að hrinda í framkvæmd þessum skipulagsbreytingum. En nú veit ég ekki alveg hvað hæstv. dómsmrh. átti við þegar hann talar um að koma í framkvæmd þessum skipulagsbreytingum. Mér heyrðist á þessari upptalningu, sem var löng og mikil frá báðum þessum embættum, að um væri að ræða margar og margvíslegar skipulagsbreytingar. Ég vildi því óska eftir því að hæstv. dómsmrh. gerði okkur nánari grein fyrir hverjum af þessum till. hann hyggst beita sér fyrir að hrinda í framkvæmd, sem fram komu í hans máli, og hvort hann gæti t.d. fallist á þær till. sem fram koma í þeirri þáltill. sem ég hér nefndi. Mér heyrðist á upptalningunni að ein till. frá lögreglustjóraembættinu væri um það að komið yrði á samstarfsnefnd lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu, a.m.k. til að byrja með og síðan yrði fikrað sig eitthvað lengra áfram. Ég legg höfuðáherslu á að við reynum að nýta okkur líka þá starfskrafta sem unnið hafa að þessum málum úti á landi. Hvað með Norðurland og Austurland? Við hljótum að þurfa að huga að því hvort fíkniefni berist ekki þar til landsins. Þess vegna hef ég lagt áherslu á þetta, að allir starfskraftar yrðu samhæfðir í þessu máli.

Það hefur komið hér fram að það sem virðist vera gert upptækt er aðeins smábrot af því sem fróðustu menn telja að sé í umferð. Í þessu riti heilbr.- og trmrn. kemur fram að það er talað um að allt að 2.9 tonn séu í umferð. Hér er því um stórt mál að tefla sem við verðum virkilega að leggjast á eitt um að eitthvað verði gert í. Ég óska því eftir að það komi eitthvað nánar fram hjá hæstv. dómsmrh. hvaða skipulagsbreytingar það eru sem hann hyggst beita sér fyrir. Ég hef ekki trú á að þetta sé dýrt, t.d. þær hugmyndir sem fram koma í þáltill., og það er auðvitað engin skynsemi í því að spara á þessu sviði. Við verðum að leggja fram það fé sem þarf til þess að efla toll- og löggæslu. Þetta er fyrst og fremst spurning um vilja og sameiginlegt átak stjórnvalda og þeirra sem vinna að þessum málum, um það eins og ég segi að leggjast á eitt til þess að fyrirbyggja frekari útbreiðslu þessara efna hér á landi. Það kom fram hér fyrr í dag að hv. þm. Gunnar G. Schram dró í efa að það væri vilji hjá þjóðinni eða hér á Alþingi að gera átak í þessu máli, ef ég skildi hann rétt. Ég held þvert á móti að það sé mikill vilji úti á meðal þjóðarinnar og hér á hv. Alþingi til að gera átak í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég tel það koma fram í þeirri þáltill. sem hefur verið lögð hér fram á síðustu dögum. En ég ítreka þá ósk að fá fram nánar hjá ráðh. hvaða skipulagsbreytingar það eru sem hann hyggst beita sér fyrir.