06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

69. mál, nauðsyn afvopnunar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðstu kjarnorkuvopna, en hún er borin fram af þm. úr fimm þingflokkum hér á Alþingi.

Áður en ég vík nánar að efni till. ætla ég að varpa nokkru ljósi á þá umr. sem heyrist nú af vaxandi þunga úr öllum heimshornum um stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vitna til bókar, sem út kom fyrir hálfu öðru ári, en upphaf hennar er svohljóðandi:

„Það er ógnvekjandi að sú hugmynd að hægt sé að lifa af og sigra í kjarnorkustyrjöld hefur átt vaxandi fylgi að fagna meðal ákveðins hóps herfræðinga og embættismanna, jafnt í stjórnartíð Carters sem Reagans. Þessir sérfræðingar hafna kjarnorkustöðvun vegna þess að þeir telja að aukið kjarnorkuvopnakapphlaup sé nauðsynlegt og að hægt sé að heyja árangursríka kjarnorkustyrjöld. Án þess að þeir ætli sér að vera kaldhæðnir; þá taka þeir dæmi af því hversu vel Hiroshima og Nagasaki hafi tekist að græða sár sín og telja það sönnum þess að kjarnorkuátök séu ekki endilega af hinu illa. Skilgreining þeirra felur einnig í sér ómeðvitaða hliðstæðu, því Hiroshima gefur okkur ógnarlegt, en engu að síður takmarkað dæmi um það hve skelfilegar afleiðingar kjarnorkan muni hafa í næsta skipti sem henni verður beitt“.

Og síðar segir í sama verki: „Langdræg vopn Bandaríkjanna einna hafa meiri gjöreyðingarmátt en notaður hefur verið í allri styrjaldarsögu mannkyns. Herstyrkur Bandaríkjanna er bæði firnamikill og fjölbreyttur. Samanlagður fjöldi kjarnaodda Bandaríkjanna er 9400 og samanlögð megatonn 4100. Langdræg vopn Sovétmanna hafa svipaðan gjöreyðingarmátt. Samanlagður fjöldi kjarnaodda Sovétríkjanna er 7500 og samanlögð megatonn 7100.“

„Augljóst er“, segir þar áfram, „að með þessum vopnum er hægt að útrýma jarðarbúum mörgum sinnum. Þó að um ákveðið misvægi sé að ræða í einstökum vopnategundum, þá skiptir það engu sé litið til þeirrar staðreyndar að hvor aðilinn um sig hefur yfir að ráða langdrægum kjarnorkuvopnum sem hafa gjöreyðingarmátt hundraða þúsunda Hiroshimasprengja. Herskipuleggjendur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hafa lagt áherslu á ólíka þætti við uppbyggingu kjarnorkuvopnaherafla síns. Ein ástæðan fyrir mismiklum sprengjumætti í megatonnum talið er t.d. sú, að Sovétmenn, sem ekki ráða yfir jafnþróaðri tækni, hafa talið nauðsynlegt að framleiða þungar eldflaugar frekar en léttar og nákvæmar. Þeir sem stjórna bandarískum hermálum hafa kosið að framleiða ekki þungar eldflaugar, vegna þess að „smærri“ sprengjur (t.d. sú sem samsvarar 25 Hiroshimasprengjum) hafa jafnmikinn eyðingarmátt gagnvart ákveðnu skotmarki, ef þær eru nægilega nákvæmar. Ógnarjafnvægið er raunveruleiki árið 1982“, en þá er þetta ritað, „eins og það hefur verið síðustu tvo áratugi; vopnabirgðir beggja aðila eru nægilega miklar til að hræða annan aðilann frá því að gera kjarnorkuárás og báðir aðilar skilja að þeir gætu átt von á hefndaraðgerðum sem tryggja mundu gagnkvæma gjöreyðingu. Það sem máli skiptir er að báðar þjóðirnar búa yfir gjöreyðingarmætti sem nægir til að leggja andstæðinginn í rúst mörgum sinnum.

Stöðugar framfarir í kjarnorkuvísindum eru á góðri leið með að skapa heim fullan af eldflaugum, sem geta farið af stað hvenær sem er, og hugarfar sem segir að valið standi um að nota þau eða glata ella. Séu hafðar í huga þær deilur sem þegar eru fyrir hendi og sú tækniþróun sem átt hefur sér stað er ljóst að ekki má mikið út af bregða í samskiptum stórveldanna til þess að kjarnorkustríð brjótist út.

Líkurnar á því að stríð hefjist af misgáningi hafa aukist uggvænlega vegna tækniframfaranna. 147 sinnum á síðustu 20 mánuðum hafa bilanir í bandarískum tölvum leitt til þess, að þær sendu boð um að sovésk árás væri hafin. Í fjórum tilvikum náðu boðin svo langt að skipanir voru gefnar um að setja langdrægar eldflaugar í viðbragðsstöðu. Í eitt skipti var send út aðvörun um að sovéskir kjarnorkukafbátar hefðu hafið árás og stöfuðu mistökin af röngu forriti. Að sögn hermálaráðuneytisins tók það yfirstjórn bandaríska hersins sex mínútur að komast að því að um mistök hefði verið að ræða. Ef upplýsingarnar hefðu verið réttar hefði breiðfylking sovéskra eldflauga hæft borgirnar á ströndum Bandaríkjanna innan fárra mínútna. Öðru sinni hafði gervitungl mistúlkað tungluppkomuna, tekið tunglið fyrir sovéska eldflaug.

Sumir hernaðarsérfræðingar láta eins og tilgangurinn með vopnaeftirliti sé í mesta lagi fólginn í því að hafa hemil á vopnakapphlaupinu, en ólíklegt er að hægt sé að hafa hemil á því endalaust. Miklu líklegra er að það leiði til endanlegrar eyðingar mikils hluta siðmenningarinnar. Stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins og afvopnun í kjölfarið er ekki eina leiðin til að hafa eftirlit með hervæðingunni, en það er eina aðferðin til brjótast út úr vítahringnum án þess að hafna í endalausu málþófi um í hverju jafnvægið sé fólgið. Ef vilji væri fyrir hendi gætu stórveldin á örfáum mánuðum komið sér upp kerfi til eftirlits með því að stöðvuninni væri framfylgt“.

Þetta voru ekki mín orð, eins og ég hef tekið fram, og ekki ályktun frá Samtökum herstöðvaandstæðinga hérlendis. Þetta er tilvitnun í bókina „Freeze“ eða stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar eftir bandarísku þingmennina Edward M. Kennedy og Mark O. Hatfield, sem út kom í Bandaríkjunum í aprílmánuði 1982 og þýdd hefur verið og gefin út á íslensku. Þessa bók ættu allir hv. alþm. að kynna sér. Ég hef hér þrjú eintök frá bókasafni Alþingis, sem ég legg hjá ritara, ef menn vilja glugga í þessi eintök, og að þeim eiga þeir greiðan aðgang, fyrir utan það að bókin fæst í verslunum.

Í formála þessarar bókar segir Averetl Harrimann, einn þekktasti sérfræðingur Bandaríkjanna í alþjóðamálum allt frá dögum Franklíns Roosvelts forseta, m.a. þetta:

„Það er aðeins einn tilgangur með kjarnorkuvopnum — að hræða menn frá kjarnorkustríði. Séu þau notuð munu þau eyða jafnt þeim aðila sem hóf leikinn sem fórnarlömbunum.

Þess vegna er það brýnt að við hefjumst þegar handa. Það er boðskapur þessarar bókar og það er röksemdin á bak við kjarnorkustöðvun. Það eru 50 þús. kjarnaoddar í heiminum í dag og sá fjöldi fer vaxandi. Þess er skammt að bíða að komið verði fyrir vopnum sem munu neyða annan aðilann til þess að verða fyrri til ef tvísýnt ástand skapast. Þess er einnig skammt að bíða að öðrum vopnum verði komið fyrir sem erfitt verður að fá örugga vitneskju um og þess vegna sérstaklega erfitt að hafa hemil á“.

Sérstök ástæða er til að minnast þessara orða nú, þegar þáttaskil hafa orðið í vígbúnaðarkapphlaupinu með ákvörðun NATO og Bandaríkjanna um að koma fyrir 464 kjarnorkustýriflaugum og 108 Pershing II eldflaugum í fimm Evrópulöndum og viðræðuslitum stórveldanna í Genf, sem nú hafa fylgt í kjölfarið. Sovétríkin hafa þegar tilkynnt um andsvar með uppsetningu SS-20 flauga í Austur-Þýskalandi og Tékkóslóvakíu.

Engin ákvörðun hefur komið viðlíka róti á hugi manna í Evrópu og Norður-Ameríku á árunum sem liðin eru frá síðari heimstyrjöldinni og sú vitfirring sem nú er að verða staðreynd. Milljónir og aftur milljónir manna hafa skipað sér undir merki friðarhreyfinga á Vesturlöndum, fylkt liði á götum og torgum stórborga í mestu fjöldaaðgerðum sem sagan kann að greina frá. Tugþúsundir standa dögum og vikum saman við herstöðvar í Bretlandi og á meginlandinu til að mótmæla komu eldflauganna. Samtök lærðra og leikra fylkja liði og sameinast í ákalli til stjórnmálamanna um að stöðva feigðarflan áframhaldandi kjarnorkuvæðingar í austri og vestri. Samtök lækna benda á ógnir kjarnorkuhernaðar, einnig fyrir þá sem kynnu að komast lífs af úr fyrsta hildarleiknum. Samtök kvenna víða um heim hafa beitt sér gegn endurvígbúnaði og fyrir afvopnun. Fjórtán þúsund eðlisfræðingar hafa sent frá sér ákall til þjóðarleiðtoga um að taka sönsum. Kirkjunnar menn, einnig í Bandaríkjunum, hafa tekið heils hugar undir kröfuna um stöðvun eða frystingu kjarnorkuvígbúnaðar. Þingmenn í meira en 30 ríkjum hafa myndað með sér samtök til að beita sér fyrir afvopnun og að það fjármagn sem þannig sparast verði lagt í þróunarsjóð til hjálpar fátækum ríkjum. Í þessum fjöldahreyfingum og samtökum er sá þróttur og það afl sem hrífur æ fleiri með sér og helst er þess megnugt að stöðva vígbúnaðaræðið.

till. sem ég mæli hér fyrir um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna er borin fram af þm. úr fimm þingflokkum hér á Alþingi, eins og ég gat um áðan. Hún er liður í alþjóðlegu átaki þingmanna margra landa, sem tóku höndum saman fyrir nokkrum árum til að auka þátttöku þm. úr öllum heimshornum um afvopnunarmál. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi lýsir yfir stuðningi við áskoranir þm. frá fjölda þjóðþinga þar sem kjarnorkuveldin eru hvött til að stöðva þegar í stað framleiðslu á kjarnorkuvopnum og allar tilraunir með þau. Á þann hátt yrði stigið mikilvægt skref í áttina að því að stemma stigu við þeirri ógn sem kjarnorkuvopnin skapa framtíð mannkynsins. Nú þegar eru tugþúsundir kjarnorkuvopna til reiðu í vopnabúrum og gereyðingargeta þeirra jafngildir samtals 1 millj. af Hírósímasprengjum.

Alþingi hvetur til samninga um alhliða afvopnun undir alþjóðlegu eftirliti þar sem m.a. verði samið um eftirfarandi:

1) Myndun alþjóðlegrar eftirlitsstofnunar sem með nýtingu gervihnatta og reglubundnum eftirlitsferðum væri fær um að fylgjast með framkvæmd afvopnunar og upplýsa brot á hinu alþjóðlega samkomulagi.

2) Stofnun þróunarsjóðs sem veitti fjármagni, sem áður var ætlað til hernaðar, til að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja úr hungri á sama tíma og árleg heildarútgjöld til hernaðar í heiminum nema yfir 500 þús. millj. dollara.

Alþingi hvetur til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi þingmanna og atmannasamtaka þar sem kröfur um kjarnorkuafvopnun og útrýmingu fátæktar úr heiminum eru meginstefnumál“.

Í grg. eru rakin nokkur atriði varðandi þau alþjóðasamtök þingmanna sem kalla sig Parliamentarians for World Order og sem m.a. hafa beitt sér fyrir hliðstæðum kröfum og hér eru fram settar á mörgum þjóðþingum. Sjónarmið samtakanna eru nánar útfærð í ávarpi sem ber á ensku heitið „Call for Global Survival“ eða ákall um áframhaldandi líf á þessari jörð. Nú þegar hafa um eitt þús. þm. frá 55 löndum undirritað þetta stefnuávarp.

Till um sama efni og hér liggur fyrir var flutt á síðasta þingi, þá af alþm. Ólafi Ragnari Grímssyni, Guðmundi G. Þórarinssyni og Árna Gunnarssyni, en komst þá ekki til umr.

Kjarni till. er um stöðvun eða frystingu kjarnorkuvígbúnaðar risaveldanna sem fyrsta skref til að vinda ofan af vígbúnaðarkapphlaupinu. Ákallið um stöðvun eða frystingu kjarnorkuvígbúnaðar fékk byr undir vængi þegar till. um það efni var borin fram í báðum deildum Bandaríkjaþings á fyrri hluta árs 1982 og aðeins munaði hársbreidd að hún næði fram að ganga þar á þingi. Í öldungadeild þingsins var hún borin fram af demókratanum Edward Kennedy og repúblikanum Mark Hatfield og hefur síðan gengið undir heitinu Kennedy Hatfield-tillagan. Ég held að það sé fróðlegt fyrir hv. alþm. að heyra hvernig hún hljóðar. Hún er ekki löng:

„Þar sem mikilvægasta verkefni okkar í dag er að koma í veg fyrir að kjarnorkustyrjöld brjótist út, hvort sem er fyrir slysni eða af ásettu ráði;

Þar sem kjarnorkuvopnakapphlaupið eykur háskalega hættuna á gjöreyðingu, sem yrði hinsta styrjöld mannkyns; og Þar sem þörf er stöðvunar sem fylgt væri eftir með verulegri fækkun kjarnaodda, eldflauga og annarra árásartækja til að stöðva kjarnorkuvopnakapphlaupið og draga úr hættunni á kjarnorkustríði álykta Öldungadeild og Fulltrúadeild Bandaríkjanna á sameinuðu þjóðþingi;

1. Að í þágu eftirlits með langdrægum vopnum skuli Bandaríkin og Sovétríkin nú þegar:

a. stöðva kjarnorkuvopnakapphlaupið algjörlega.

b. ákvarða hvenær og hvernig framkvæmd skuli gagnkvæm og sannanleg stöðvun er nái til tilrauna, framleiðslu og frekari dreifingar kjarnaodda, eldflauga og annarra árásartækja og

c. athuga sérstaklega þá gerð vopna sem fyrir hefur verið komið og ætla mætti að gerðu stöðvun erfiðari en ella.

2. Í kjölfar þessarar stöðvunar skulu Bandaríkin og Sovétríkin gagnkvæmt og sannanlega fækka verulega kjarnaoddum, eldflaugum og öðrum árásartækjum. Miða skal við árlegan hundraðshluta eða aðra árangursríka tilhögun þannig að stöðugleiki aukist.“

Þessi till. um stöðvun eða frystingu hlaut 202 atkv. á sameinuðu þingi í Bandaríkjunum, en á móti voru 205. Till. þessi var m.a. andsvar við utanríkisstefnu Reagans forseta. Hún var rekin upp sem helsta veganesti sendinefndar þingmannasamtakanna Parliamentarians for World Order, sem heimsótti forustumenn í Moskvu og Washington í maí 1982. Undirtektir við hana voru að sögn sendinefndarinnar lakari á síðari staðnum, enda taldi Reagan forseti henni beint gegn stefnu sinni — stefnu sem sætt hefur mikilli og vaxandi gagnrýni, einnig úr röðum ýmissa af dyggustu bandamönnum Bandaríkjanna. Kennedy og Hatfield, flutningsmenn þessarar till., svara neikvæðum viðbrögðum Reaganstjórnarinnar við till. þeirra m.a. á eftirfarandi hátt:

„Þegar allt kemur til alls er því andófi sem haldið er uppi gegn stöðvun aðallega ætlað að dylja önnur og hættulegri markmið. Í fjárlagafrv. fyrir 1983“, og ég skýt því að að þetta er fjárlagafrv. Bandaríkjanna „er farið fram á fjárveitingu til þess að gera ríkinu kleift að heyja árangursríkt stríð, hvort sem er með kjarnorkuvopnum eða hefðbundnum vopnum. Þetta er í fyrsta sinn sem fjárveitingarbeiðni er rökstudd slíkum orðum. Við verðum að halda til streitu þeim skilningi að markmið Bandaríkjanna sé að koma í veg fyrir kjarnorkustríð, ekki að heyja það. Það verður að berjast gegn öllum hugmyndum um takmarkað kjarnorkustríð.“

Þeir andmæla ákveðið þeim skilningi að till. þeirra um frystingu, um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins í núverandi stöðu og síðan afvopnun, sé vatn á myllu Sovétmanna. Því mótmæla einnig andstæðingar þeirrar stigmögnunar vígbúnaðarkapphlaupsins sem hafin er með staðsetningu nýrra kjarnorkuflauga í Vestur-Evrópu þessa dagana, þeirra á meðal vestur-þýskir jafnaðarmenn undir forustu Willy Brandts. Undir þau sjónarmið taka útgefendur hinna virtu þýsku blaða Der Spiegel og. Die Zeit, þeir Rudolf Augstein og Theo Sommer. Hverjum dettur í hug að væna þá um þjónkun við hagsmuni risaveldisins í austri? Hinn síðarnefndi, Theo Sommer, er ómyrkur í máli í forsíðugrein í Die Zeit 18. nóvember s.l., þar sem hann segir:

„Það ber að harma að framkvæmd á tvíhliða ákvörðuninni,“ þ.e. um Cruise og Persing II eldflaugarnar í des. 1979, „er orðin að veruleika þannig að ekki verður snúið til baka. Herfræðingarnir vildu í reynd fremur hervæðingu í vestri en afvopnun í austri“, segir Theo Sommer og gagnrýnir feril Reagans forseta í afvopnunarmálum harðlega. „Hernaðarlega eru hin nýju vopn ekki nauðsynleg“, segir. hann. „Það hefur lokist upp fyrir mönnum að undanförnu. Þau miða ekki á nein skotmörk sem ekki voru þegar í skotmáli eldri vopna“.

Yfirgnæfandi meiri hluti Vestur-Þjóðverja er samkv. skoðanakönnunum andvígur staðsetningu hinna nýju vopna, meiri hluti í báðum stærstu stjórnmálaflokkum landsins, svo að ekki sé minnst á flokk Hinna grænu. Samt létu ráðandi öfl sér ekki segjast og bjóða þannig heim sundrungu og heiftarátökum í eigin landi.

Andstaðan í Vestur-Evrópu og Bandaríkjum Norður-Ameríku gegn kjarnorkuvígbúnaðinum og uppsetningu meðáldrægra eldflauga í Evrópu er þeim mun athyglisverðari sem Sovétríkin og fylgiríki þeirra hafa ekki rekið stefnu inn á við eða út á við sem fallin væri til að skapa tiltrú á utanríkisstefnu þeirra, hvað þá á það steinrunna kerfi sem grúfir yfir löndum Austur-Evrópu. Innrás Sovétríkjanna í Afganistan 1979 og grimmdarstríð þeirra þar auðveldaði andstæðingum SALT II samkomulagsins um takmörkun gereyðingarvopna að koma í veg fyrir staðfestingu þess á Bandaríkjaþingi undir lok valdaferils Carters forseta og greiddi jafnframt götu haukanna, sem komu Reagan í stólinn í Hvíta húsinu. Í sömu átt virkuðu atburðirnir og valdarán hersins í Póllandi. En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir bælingu alls félagafrelsis og friðarhreyfinga í löndum Austur-Evrópu hefur mikill fjöldi fólks í Vestur-Evrópu og sums staðar meiri hluti manna, eins og í Vestur-Þýskalandi, skynjað og séð í gegnum rökleysu áframhaldandi kjarnorkuvígbúnaðar. Hinn aldni og reyndi bandaríski diplomat, Averell Harrimann, sem rætt hefur við alla sovéska leiðtoga frá Stalín að telja til Bréshnefs, telur flest benda til að Sovétmenn muni fórna öllu til að geta haldið til jafns við Bandaríkjamenn í kjarnorkukapphlaupinu. Hernaðarmáttur risaveldanna sé um þessar mundir svipaður að hans dómi.

Í formála bókarinnar „Stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins“, sem hér hefur oft verið vitnað til, segir Averell Harrimann m.a.:

„Goðsögnin um yfirburði Sovétríkjanna hefur ekki einungis lamandi áhrif, hún endurspeglar líka ótta sem er ekki sæmandi sjálfsöruggustu þjóð heims. Það þarf einnig nokkra trúgirni til, því jafnvel eftir vel heppnaða og þrautskipulagða árás Sovétmanna sem kæmi Bandaríkjamönnum í opna skjöldu gætum við svarað með 45 þús. kjarnorkuvopnum. Þessi goðsögn dregur kjark úr vinum okkar, en það allra versta er þó, að hún leiðir til þess að andstæðingar okkar misreikna styrk vorn og telja okkur veika þegar við erum það ekki. Þetta er stórhættulegt og hjá þessu hefði auðveldlega mátt komast.“

Allt ber þetta að sama brunni. Hvaða augum sem menn líta risaveldin er kjarnorkuvígbúnaðurinn sú yfirþyrmandi hætta sem öllu máli skiptir að verði bægt frá mannkyninu, því að ella mun hún brenna það upp og eyða siðmenningu vorri. Uppsetning nýrra meðaldrægra eldflauga, sem nú er hafin í Vestur-Evrópu, mun stytta boðleið kjarnorkuskeytanna til Moskvu niður í sex mínútur. Samkv. frásögn Edwards Kennedys, sem ég vitnaði til áðan, tók það yfirstjórn bandaríska hersins á árinu 1981 einnig sex mínútur að leiðrétta tölvumistök, sem ollu því að bandarísku kjarnorkueldflaugarnar voru settar í viðbragðsstöðu til að svara ímyndaðri sovéskri árás.

Þau brjálæðislegu skref sem nú er verið að stíga með stigmögnun vopnakapphlaupsins og uppsetningu meðaldrægra kjarnorkueldflauga í Evrópu til viðbótar þeim sem fyrir voru eru að gera að engu þann örskamma tíma sem mennirnir að baki eldflaugaþyrpinganna hafa til að leiðrétta bilanir eða mistúlkanir í tölvunum, sem allt hvílir á. Niðurtalningin uns ýtt er á hnappinn vegna hins gagnkvæma ótta er að nálgast núll. Svigrúm til umhugsunar ekki teljandi í mínútum, áður en gereyðing yrði ráðin. Svo standa talsmenn endurvígbúnaðarins á þjóðþingum, eins og því miður mátti heyra hér í umr. utan dagskrár í gær, þar sem hæstv. utanrrh. mælti, þar sem þulin er gatslitin rulla um svokallað jafnvægi í vígbúnaði risaveldanna sem rök fyrir þeirri fráleitu afstöðu að Ísland sitji hjá á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem krafist er frystingar kjarnorkuvopnavígbúnaðarins. Slík afstaða á ekkert skylt við staðreyndir kjarnorkuógnarinnar, þar sem stórveldin hafa þegar margfaldar birgðir af helsprengjum til að þurrka allt mannlíf út, hvert á sínu svæði — ekki einu sinni, heldur mörgum sinnum, ef slíkt væri á annað borð unnt.

Það var hins vegar út af fyrir sig ánægjulegt að heyra í umr. hér um daginn um till. um afvopnun, till. sem borin var fram af hv. þm. Sjálfstfl., að þeir vildu ekki orðalaust vísa frá hugmyndinni um frystingu. Hv. þm. Gunnar G. Schram sagði í þeirri umr. m.a.: „Hér er vissulega um athyglisverða till. og nýjung að ræða, en því er ekki að neita, að tæknileg vandamál við slíka frystingu kjarnorkuvopna eru mikil.“ Þessi ummæli gefa þó von um, að þessir hv. þm. vilji líta á þessi mál svipað og lagt er til hér með flutningi þessarar till., og nauðsynlegt er að á það reyni.

Þá ber að minna á það hér, að þær risavöxnu upphæðir, 500 þús. millj. dollara, sem varið er til hernaðarútgjalda, mundu nægja margfaldlega til að útrýma hungri og fátækt úr heiminum og til að aðstoða þróunarríkin við að ná tökum á efnahagsmálum sínum, þ.e. að hjálpa til sjálfshjálpar. Það ætti að liggja í augum uppi, hvar við Íslendingar eigum að leggja lóð á vogarskál þessara meginmála mannkynsins. Samt er um fátt meira deilt í landi okkar en stefnuna í utanríkismálum. Þau öndverðu sjónarmið verða ekki gerð sérstaklega að umtalsefni hér, en þess verður að vænta, að Alþingi og hv. utanrmn. gefi sér tíma til að leita að samstöðu í þessum örlagaríku málum á núverandi þingi.

Það er hins vegar ákveðið sjónarmið flm. þessarar þáltill. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna, að Íslendingum beri að styðja alla viðleitni að því marki á alþjóðavettvangi. Ég tel að engin óvissa megi ríkja um afstöðu Íslands í þessu máli mála. Kjarni þeirrar till. til þál. sem ég hér hef mælt fyrir er um frystingu kjarnorkuvígbúnaðarins og með samþykkt þessarar till. væri verið að taka undir þær tillögur sem fyrir liggja um það efni, m.a. till. Mexíkó og Svíþjóðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægt er að afstaða Alþingis til hugmyndarinnar um frystingu liggi fyrir helst þegar á næstu dögum, svo og stuðningur sem flestra hv. alþm. við alþjóðlega baráttu þm. fyrir afvopnun og stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins. Árangur í því efni varðar ekki átök milli hugmyndakerfa og stórvelda, svonefndan kommúnisma eða kapítalisma, heldur er það spurningin um líf eða dauða, um framtíð mannkynsins til að geta haldið áfram göngu sinni í friði eða með ágreiningi eftir atvikum. Eftir kjarnorkustríð er hins vegar um ekkert að kljást. Einnig okkar þjóð á líf sitt undir að surtarlogi kjarnorkustyrjaldar nái aldrei að brenna.

Herra forseti. Ég legg til að að loknum fyrri hluta þessarar umr. verði þessari till. vísað til meðferðar hv. utanrmn.