06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

69. mál, nauðsyn afvopnunar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Um nauðsyn afvopnunar og stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna ætti ekki að þurfa að fjölyrða mjög, svo mikil ógn sem stendur af því sífellda vígbúnaðarkapphlaupi sem við búum við í veröldinni. Það hefur komið fram hjá okkur fulltrúum Alþfl. áður að við teljum að Íslendingar eigi að leggja mjög mikla áherslu á að unnið sé að þessum málum, stöðvun vígbúnaðar og afvopnun og eftirliti með vopnabúnaði, eftir því sem við frekast höfum tök á.

Í þeirri till. sem hér er til umfjöllunar eru í rauninni tvö efnisatriði. Annars vegar sú ályktun Alþingis að hvetja kjarnorkuveldin til að stöðva þegar framleiðslu á kjarnorkuvopnum og tilraunir þar að lútandi. Í annan stað að hvetja til samnings um alhliða afvopnun undir alþjóðlegu eftirliti. Innan þess ramma yrði mynduð alþjóðleg eftirlitsstofnun og stofnaður þróunarsjóður sem veitti fjármagni sem áður fór til hernaðar til að hjálpa í staðinn fátækum ríkjum.

Ég held að við Íslendingar stöndum frammi fyrir því og Alþingi þá sérstaklega að átta okkur á því með hvaða hætti Ísland geti best beitt áhrifum sínum til að þrýsta á um árangur í þessum efnum. Að vísu eru á þessu máli tvær hliðar. Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á að þegar fjallað er um þessi mál á erlendum vettvangi er í rauninni skilið á milli þess sem er annars vegar takmörkun vígbúnaðar, afvopnun og eftirlit með að slíkt sé haldið og hins vegar eftirlitsþáttur sem gjarnan er nefndur „arms control“ sem felst kannske fyrst og fremst í að auka samskipti milli þeirra sem búa yfir þessum vopnum í þeim tilgangi að hindra að þeir misskilji hver annan. Þessum þætti, hinum síðarnefnda, „arms control“ í þessum skilningi, hefur því miður verið tiltölulega lítið sinnt á undanförnum árum og hefði kannske verið ástæða til að gera hann enn frekar að umræðuefni en gert hefur verið hér í þeim umr. sem átt hafa sér stað til þessa. Ég vek einungis eftirtekt á þessu vegna þess að ég tel mikilvægt að þessi þáttur verði ekki útundan með þeim hætti sem hann hefur í rauninni gert að undanförnu.

Það hefur komið fram í umfjöllun hér á þinginu fyrr að siðferðilega sé óbærilegt að verja sífellt stórum fjárhæðum til aukins vígbúnaðar og þá sérstaklega í kjarnorkuvopn meðan við búum við mikið hungur og fátækt í heiminum. Líka hefur verið bent á það fyrir þá sem trúa að ógnarjafnvægið hafi tryggt okkur frið, og það getur vel verið, ég skal ekki fullyrða um það, að komið væri mörgum sinnum nóg af þessum vopnum til að tortíma mannkyninu margsinnis. Þannig að þegar af þeirri ástæðu ætti að vera óhætt fyrir stórveldin að hætta að vígbúast frekar á þessu sviði, þau hefðu yfir þeim vopnum að ráða sem tryggðu það ógnarjafnvægi sem um væri rætt. Hitt er það að hin sífellda fjölgun kjarnavopnanna fjölgar í rauninni möguleikunum á mistökum og þess vegna eykst hættan á að styrjöld brjótist út fyrir mistök eða slys eigi sér stað, sem óbætanlegt yrði.

Þetta vígbúnaðarkapphlaup sem byggir á hugtakinu um ógnarjafnvægi hefur staðið óslitið frá því fyrir 1950. Ég held að óhætt sé að segja að stórveldin og allur hinn þróaði heimur standi í rauninni frammi fyrir því að endurskoða afstöðu sína með tilliti til þess hvernig staðan er núna og líta á að um sameiginlegt öryggi og sameiginlega hagsmuni er að ræða. Það þarf að finna leiðir til að auka traust og trúnað milli stórveldanna og milli ríkja í Evrópu þar sem hættan er mest og finna þann grundvöll sem gæti talist sameiginlegt öryggi. Um þetta hefur líka verið rætt hér á undangengnum þingum.

Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir að þegar verði stöðvuð framleiðsla á kjarnorkuvopnum og allar tilraunir með þau. Þetta er góð tillaga. En hún gengur í rauninni of skammt. Það virðist fyllsta ástæða til aðætlast til þess af stórveldunum að þau stórfækki kjarnavopnum sínum. Það virðast vera fullkomnar forsendur fyrir því að stórveldin ættu að geta náð samkomulagi um mikla fækkun kjarnorkuvopnanna.

Stundum hefur t.d. verið bent á það í þeim umr. sem farið hafa fram á opinberum vettvangi og kemur fram í tilsvörum erlendis að Sovétríkin hafi stóraukið fjölda kjarnorkuflauga hjá sér á undanförnum árum allar götur síðan 1977. Það kom m.a. fram í umr. hér í gær í þinginu utan dagskrár hjá hæstv. utanrrh. Hann nefndi að árið 1979 höfðu Sovétmenn haft 140 eldflaugar af þessu tagi, en þær væru nú komnar upp í 360 og væru þríodda hver. Þetta hefði gerst á undanförnum 4 árum. Þess vegna hefði maður haldið að stórkostlegur niðurskurður af hálfu Sovétríkjanna ætti að vera mögulegur.

Ef menn hafa fylgst með því sem gerðist í Genfarviðræðunum varðandi einmitt þessar flaugar kemur fram að Sovétríkin hafa þar gert tillögu um að fara niður í 120 flaugar. Sem sagt lægri tölu en hæstv. utanrrh. miðaði við hér í gær. Manni finnst að þarna hafi verið tækifæri sem menn hefðu getað gripið sem væri betra en sú frysting sem menn tala gjarnan um núna. Hefði ekki verið betra að stíga þetta skref og frysta þar og nota svo tímann? Eftir lestur í erlendum tímaritum um þennan gang viðræðnanna verð ég að segja eins og haft er eftir Helmut Schmidt að það valdi honum vonbrigðum að bandamenn okkar, Bandaríkin, hafi ekki haldið betur á málum en raun ber vitni, hafi ekki verið fúsari til samninga og ekki lagt meira að sér til að ná samningum en raun ber vitni.

Í margvíslegum ályktunum hefur einmitt komið fram það viðhorf að þannig vildu Evrópuþjóðirnar standa að þessu. Ég get vitnað til ályktunar frá Skandilux-löndunum svonefndu, þ.e. Skandinavíu, Luxemburg, Belgíu og Hollandi, þar sem fulltrúar þessara landa lögðu sérstaka áherslu á að leiðin í þessum efnum væri að Sovétríkin skæru niður SS-20 flaugar sínar í mjög ríkum mæli gegn því að Pershing-2 og Cruise-flaugarnar yrðu ekki settar upp. Manni finnst að þarna hafi verið á leiðinni grundvöllur sem slæmt hafi verið að ekki skyldi reynt að byggja á og frysta þá frekar á því stigi.

Mér sýnist líka að ef Allandshafsbandalagið hefði veitt frest af þessu tagi að því er varðaði sínar flaugar upp á þann niðurskurð sem hér var um að ræða hefði það sýnt ákveðinn sáttavilja. Þannig hefði í rauninni getað unnist mikið en ekkert tapast á að grípa það tækifæri. Ég læt þessa getið hér af því að mér finnst að í umfjöllun um þessi mál geti menn ekki horft fram hjá því hvað hafi akkúrat verið að gerast í þessum samningaumleitunum síðustu dagana. Hins vegar er auðvitað ljóst að nota verður hvert tækifæri til að sýna stórveldunum hver alvara býr að baki kröfunni um að kjarnorkuvopnakapphlaupinu linni og afvopnun hefjist. Tillagan um Freeze er í sjálfu sér flutt í þeim anda og þess vegna góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. En ég flokka hana sem nr. 2 í þeim möguleikum sem menn hafa eða virðast hafa haft á hendi sér að undanförnu.

till. sem hér er til umfjöllunar er nokkuð í ætt við þessa Freeze-tillögu. Ég tel að hér sé reynt að setja fram með nokkuð skilmerkilegum hætti ákaflega einfalda skoðun í þessari till., þ.e. þá skoðun að ekki eigi að framleiða fleiri kjarnorkuvopn, það er meginefni till., og jafnframt þá skoðun að framvinda málanna í þessum efnum verði að byggjast á samningum þar sem stórveldin eru náttúrlega aðalpólarnir, samningum um afvopnun og að slík afvopnun skuti vera gagnkvæm og undir alþjóðlegu eftirliti. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun að ef þau skilyrði tvö eru ekki framkvæmd sé líklega ekki vinningur í spilunum, þá mundi það sem menn ætluðu sér að ná líklegast ekki halda. En ef þau tvö skilyrði eru uppfyllt um eftirlit og gagnkvæmni í þessum efnum ætti skrefið að vera stigið, það skref sem menn hafa í rauninni beðið eftir mjög lengi.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þessa till. Ég taldi rétt að láta þegar á þessu stigi koma fram viðhorfin varðandi þetta mál í grófum dráttum og tel, eins og ég hef látið koma fram í máli mínu, að ákaflega mikilvægt sé að Íslendingar sýni hug sinn í þessum efnum. Það getur gerst með samþykkt ályktunar hér á þinginu. Það getur líka gerst á alþjóðlegum vettvangi, t.d. með því að greiða atkv. með réttum hætti á vettvangi sameinuðu þjóðanna þegar tillögur sem þessar sem ég hef gert hér að umræðuefni koma þar til umfjöllunar, að styðja alla slíka viðleitni hverju nafni sem nefnist.