06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

69. mál, nauðsyn afvopnunar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka að hér er verið að leggja til að íslenskir þingmenn sameinist starfsbræðrum sínum í öðrum löndum um að vinna annars vegar að stöðvun þess vitfirrta vígbúnaðarkapphlaups sem nú stefnir mannkyni öllu og þeirri veröld sem við þekkjum út á barm glötunar. Við búum ofan á sprengjutunnu eins og tíundað hefur verið hér. Ég vil aðeins í þessu samhengi minna þingheim á að ein lítil mannleg mistök eru nóg til að veröldin fuðri upp. Hins vegar er verið að hvetja til þess að þm. vinni með starfsbræðrum sínum að því að vinna bug á hungri og fátækt í veröldinni. Til þess duga hernaðarmilljarðarnir og vel það. Það fjármagn sem Vesturlöndin verja til þróunaraðstoðar er t.d. aðeins örlítið brot af þeim fjármunum sem varið er til hernaðarframkvæmda. Fjöldi manna hefur þegar sameinast um þessi efni og myndað með sér félög um þau. Þar má nefna presta, konur, lækna, listamenn, eðlisfræðinga og fleiri eins og fram hefur komið. Hér er lagt til að þm. sameinist líka á sínum starfsgrundvelli um þessi mál og hlýtur það að teljast verðugt verkefni íslenskra þm.