06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

114. mál, stöðvun uppsetningar kjarnaflugvopna

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt öðrum aðilum úr þingflokkum till. til þál. um stöðvun uppsetningar kjarnorkuvopna og framhald samningaviðræðna í Genf. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því á vettvangi Evrópuríkja að viðræðum um takmörkun kjarnavopna í Genf verði haldið áfram, að frekari uppsetning kjarnaflugvopna í löndum Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins verði stöðvuð og næstu 6 mánuðir notaðir til raunverulegra tilrauna til að ná samkomulagi um fækkun kjarnorkuvopna í Evrópu.“

Till. þessi er auðvitað að hluta til líka till. um virkari þátt Íslendinga í alþjóðlegri samræðu um málefni stríðs og friðar. Hér er lagt til að fresta fyrirhugaðri uppsetningu kjarnorkuvopna og nota frestunartímann til aukinnar samningaviðleitni með enn meiri þunga en áður. Ég geri mér vel grein fyrir að uppsetning títtnefndra kjarnaflugvopna gæti vel orðið þess valdandi að reka Sovétríkin að samningaborðinu því að þeir skilja það tungumál eins og sagt er. En með uppsetningunni er verið að leggja grundvöll að ákveðnu mynstri í samningaviðræðum sem ekki verður séð fyrir endann á. Leita verður nýrra leiða í samningavinnu kjarnorkuveldanna um gagnkvæma afvopnun. Við Íslendingar höfum sögulega sérstöðu í alþjóðlegum samskiptum og það skiptir okkur nokkru máli vegna eigin hagsmuna að vera sjálfum okkur samkvæm í afstöðu okkar til samskipta þjóða yfirleitt. Vegna smæðar hefur okkar leið alltaf verið samningaleið. Og þrátt fyrir stærð andstæðinganna og hernaðarlega yfirburði hefur okkur miðað þó nokkuð vel í rétta átt.

Öll vopn eru til víga. Varnir með vopnum gera ráð fyrir stríði, öll stríð eru háð í þeim tilgangi að ná fram sigri. Sá er munurinn á vopnum fyrr og nú að áður var enginn sigur alger og öll sár gréru með einhverjum hætti um síðir. Nú standa okkur til boða vopn sem lofa algjörum sigri. Þessi vopn eyða öllu kviku, gróðri, skepnum, fólki. Það verður ekki hægt að syngja „kyssir torfa náinn“ þegar þessum vopnum hefur verið beitt. Þessi vopn lofa friði, líflausum, algjörum friði. Hver vill slíkan sigur, hver vill þess konar frið?

Stríð voru áður háð til landvinninga, en sívaxandi viðskipti manna og þjóða í millum gera landvinninga í dag óþarfa. sigur með kjarnavopnum til landvinninga í dag er mögulegur. En þeim fer sífellt fjölgandi í dag sem ekki vilja þennan sigur, þ.e. sigur án lífs, þennan sigur efnisins yfir andanum.

Sá munur er nú á lýðræðisríkjum Vesturlanda og löndum austan tjalds að mikil umræða og almenn samstaða hefur myndast með friði á Vesturlöndum og gegn vígbúnaði. Fulltrúar Vesturlanda geta höfðað til þessa útbreidda friðarvilja sem fram kemur hjá frjálsum samtökum frjálsra manna á Vesturlöndum. Í þessum friðarsamtökum felst siðferðilegur styrkur sem er margfalt meira virði en öll þau kjarnorkuvopn sem við getum hugsanlega ráðið yfir. Að hefja nú enn aukinn vígbúnað af hálfu vesturveldanna í Evrópu breytir engu um í raun því öll erum við jafndauð ef þessum vopnum verður beitt. En með því að auka á vígbúnað með uppsetningu fleiri kjarnaflugvopna gerist tvennt. Stjórnvöld Vesturlanda missa þann siðferðilega bakhjarl sem friðarhreyfingarnar eru þar sem krafa þeirra um afvopnun er skýr og ljós. Stjórnvöld vesturveldanna bregðast lýðræðislegu umboði sínu ef þau taka ekki tillit til þeirrar staðreyndar sem starfsemi friðarhreyfinganna sýnir fram á.

Hins vegar verður ekki annað séð en uppsetning þessara kjarnaflugvopna leiði til áframhaldandi vígbúnaðarkapphlaups með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þess vegna gerir þessi till, ráð fyrir að frestað verði um sinn uppsetningu fyrirhugaðra kjarnaflugvopna af hálfu Atlantshafsbandalagsins og margfaldur þungi lagður í afvopnunarviðræðurnar í Genf.

Friðarhreyfingar sæta þeirri gagnrýni að þær þjóni andstæðingnum þar eð áhrif þeirra miði að því að draga úr vopnamætti og þar með aukist yfirburðir andstæðingsins. Í rökstuðningi þeirra sem mæla með ógnarjafnvægi eru tvö atriði sem því miður sýna óraunsæi þeirra manna sem þar mæla. Í fyrsta lagi tala þeir um varnarmál og það á jafnt við beggja megin járntjalds. Ég vil með leyfi hæstv. forseta fá að lesa hér smákafla úr Fréttabréfi frá fréttaþjónustu APN. Þar er á ferðinni yfirlýsing Yuri Andropovs, aðalritara miðstjórnar KFS, hvað sem það nú er, en hann virðist sinna bréfaskriftum frá sovétríkjunum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Evrópa hefur búið við frið í næstum 40 ár, lengra tímabil en nokkru sinni fyrr í sögu mannkynsins. Þetta hefur aðeins verið mögulegt vegna friðarstefnu sósíalísku ríkjanna, viðleitni friðarafla álfunnar til að varðveita friðinn og vegna raunsærrar afstöðu heiðarlegra stjórnmálamanna á Vesturlöndum. Jafnvægi hefur skapast milli herafla“ — og þetta er náttúrlega kjarni málsins í þessum málflutningi - „þar á meðal kjarnorkubúnaðar Norður-Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, og hefur það stuðlað að öryggi og stöðugleika í álfunni.“

Síðar í þessu sama bréfi segir að Sovétríkin og bandalagsríki þeirra hafi gripið til nauðsynlegra aðgerða til að gæta öryggis síns. Því leyfi ég mér að lesa þessa orðræðu upp að tónninn og orðalagið í henni, að breyttum ákveðnum formerkjum, er nákvæmlega sá sami og við heyrum úr munni þeirra manna sem mæla með auknum vígbúnaði vesturveldanna. Kjarnaflugvopn eru auðvitað ekki varnarvopn nema í orði því á því andartaki sem þau fara á loft verða þau að árásarvopnum og því blekking ein að reyna að kalla þau einhverju öðru nafni. Enda felst vörn þeirra í ógn eða hótun.

Í öðru lagi er það bandalag sem myndast milli andstæðinga með þessum hætti, þ.e. bandalag ógnarjafnvægisins, hræðslubandalag þar sem hvor aðilinn um sig setur allt sitt traust á andstæðinginn, þ.e. að hann hefji ekki aðgerðir. Í þessu felst ekki hvað síst það öryggisleysi sem ógnarjafnvægið skapar. Allt venjulegt fólk, þ.e. allir aðrir en hershöfðingjar og þeirra fylgisveinar, skilja að þessar framtíðarhorfur, þ.e. að byggja traust sitt og öryggi á þeim sem síst skyldi, þ.e. andstæðingnum, er veikasti grundvöllur sem nokkur maður gæti byggt á.

Í þriðja lagi þetta: Atómvopn eiga sér enga hliðstæðu í fortíðinni. Þau eiga í raun ekkert skylt með hernaði því að máttur þeirra er að því leyti ægilegri en náttúruhamfara að þau eyða ekki bara lífi heldur lífsskilyrðum öllum til frambúðar. Ef málið er skoðað frá þessari hlið verður ber sú nagandi hugsun að gereyðingarvopn ógna mest þeim sem er reiðubúinn að beita þeim. Þau ógna fyrst og fremst þeim heiðna hugsunarhætti að vera reiðubúinn til að leggja lífið á jörðinni í eyði fyrir málstað sinn. Þau ógna fyrst og fremst eigin siðgæðisvitund.

Frá upphafi þekkjast mörg dæmi þess að menn hafa reynt að forðast eigin sakfellingu með því að eyða þeim aðila sem sakfellingunni olli. Nægir þar að nefna Kain og Abel. Niðurstaðan verður alltaf sú sama, óvinurinn, sá ímyndaði, ógnar lífi þínu eða hagsmunum, en verknaður þinn ógnar siðgæðisvitund þinni og sjálfsvirðingu.

Sá eini sigur sem atómvopn færa er sigur yfir lífinu. En sá sigur hefur aðeins eitt nafn og það er dauðinn. Herra forseti, að lokum þetta: Ég vil trúa því að orð okkar Íslendinga hafi ákveðið vægi í þessu máli. Saga okkar fyrr og síðar hefur að geyma fjölda sannana um árangur samninga í alvarlegum og stórum málum. Því tel ég okkur Íslendingum skylt að leggja það til málanna á þessu stigi sem reynast mætti leið til að ná samningum skref af skrefi til þess ástands sem við öll óskum og vonum að einhvern tíma náist, þ.e. algjörrar afvopnunar.

Að lokum, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að máli þessu verði vísað til hæstv. utanrmn. að lokinni þessari umr.