06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

95. mál, húsnæðissamvinnufélög

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. um húsnæðissamvinnufélög. Flm. auk mín eru Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín Halldórsdóttir. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að undirbúa löggjöf um húsnæðissamvinnufélög sem taka mið af eftirfarandi:

1. Tryggður verði lagalegur réttur húsnæðissamvinnufélaga.

2. Búseturéttur verði lögbundinn.

3. Tryggð verði eðlileg fjármögnun fyrsta húsnæðis samvinnufélagsins.“

Það er almennt viðurkennt að okkar þjóðfélagi sé skylt að tryggja öllum öruggt og fullnægjandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Því er í dag þörf nýrra úrræða að hér bjóðast aðeins tveir kostir: Annars vegar leigumarkaður og hins vegar séreignarform. Ísland hefur nokkra sérstöðu fyrir þá sök að leigumarkaður er þröngur og öryggi leigjenda lítið þrátt fyrir nýlega löggjöf á því sviði sem reyndar standa vonir til að enn verði bætt. Séreignarformið krefst hins vegar mikillar fjárfestingar, meiri fjárfestingar en flestir ráða við, sérstaklega með tilliti til þeirrar stefnu sem við höfum tekið í vaxtamálum, þ.e. raunvaxtastefnu. Hún hefur gert það að verkum að einstaklingum er það illviðráðanlegra en ella að standa undir kostnaði af eigin húsnæði.

Þessi till. sem hér er fram komin er kannske að sumu leyti farin að eldast, vegna þess að eftir að hún kom fram er komið hér fyrir þm. frv. að lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir möguleika á fjármögnun til húsnæðissamvinnufélaga og er þar gert ráð fyrir að þau hafi sama aðgang að fjármagni og verkamannabústaðir, þ.e. 80% lánshlutfall.

Það má benda á marga augljósa kosti þessa fyrirkomulags, en áður en það er gert er kannske rétt að lýsa því aðeins eins og það kemur mér fyrir sjónir. Bygging og rekstur íbúða á samvinnugrundvelli á sér nokkuð langa sögu. Fyrstu húsnæðissamvinnufélögin voru stofnuð í Þýskalandi og í Danmörku um miðja síðustu öld. Í dag eru þau einna algengust sem rekstrarform í Svíþjóð. Þar voru fyrstu húsnæðissamvinnufélögin stofnuð í byrjun þessarar aldar með nokkurs konar happdrætti sem verkalýðshreyfingin stofnaði til. Landssamband húsnæðissamvinnufélaga í Svíþjóð, HSB, hefur á 60 ára ferli byggt yfir 400 þús. íbúðir. Stærsta húsnæðissamvinnufélag Noregs hefur frá stríðslokum byggt meira en helming alls húsnæðis í Osló og nágrenni. Í Þýskalandi og í Niðurlöndum eru slík félög vel þekkt og jafnvel í Bandaríkjunum starfa húsnæðissamvinnufélög mjög víða og þar eru þau algengust í New York og nágrenni.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir hefur einkum tvíþættu hlutverki að gegna, þ.e. tryggja lagalegan grundvöll þessa fyrirbæris, þ.e. húsnæðissamvinnufélaga, og þá sérstaklega með tilliti til þessa eignarforms. Hérna er um sameign að ræða, samvinnufélags. Hérna verður ekki um framsal eignarréttar að ræða heldur afnotaréttar með sömu kvöðum og réttindum eins og um raunverulegan eignarrétt væri að ræða að því undanskildu að ekki verður annað framselt en afnotarétturinn. Þessi búseturéttur eða afnotaréttur sem í huga leikmanns eins og mín má kannske einna helst líkja við lóðasamninga í borgum og bæjum þarfnast að því er ég best fæ séð einhvers konar lagalegs grundvallar þannig að ekki leiki neinn vafi á hver réttindi og skyldur manna eru gagnvart þessum búseturétti. Nágrannalönd okkar t.d. hafa þann hátt á að þessi búseturéttur er erfanlegur og ég fæ reyndar ekki alveg séð — aftur tala ég hér sem leikmaður — hvernig slíkt má eiginlega gerast hér á Íslandi öðruvísi en lög séu að einhverju leyti sniðin að þessu nýja eignarformi eða réttindaformi.

Hins vegar var hinn þáttur þessarar till. sá að tryggja eðlilega fjármögnun fyrsta húsnæðissamvinnufélagsins sem stofnað var fyrir nokkru síðan hér í Reykjavík. Vilji fyrir slíku er kominn fram og hæstv. félmrh. hefur látið fulltrúum þessa félags í ljós þann vilja sinn að veita þeim aðgang að fjármagni með svipuðum hætti og verkamannabústaðir njóta, og er þá talað um svokallað 80% lánshlutfall, þá af reiknuðum byggingarkostnaði og til 30 ára. Reyndar hafa fulltrúar húsnæðissamvinnufélagsins áhyggjur af tveimur þáttum þessa loforðs. Annars vegar að lánshlutfallið sé ekki alveg nógu hátt — það hefði þurft að vera 85% a. m. k., helst 90 — og að lánstíminn sé ekki nógu langur, hefði þurft að vera 40 ár í stað 30.

Hugsunin að baki þessari kröfu til opinberrar fyrirgreiðslu eða lánafyrirgreiðslu er einfaldlega sú að hérna er um stór samtök fólks að ræða sem ætlar sér að byggja dýrar eignir eins og íbúðarhúsnæði hér á Íslandi er og þar af leiðandi standi þarna að baki aðili sem sé vel þess trausts verður að njóta þeirrar fyrirgreiðslu sem hann hefur farið fram á.

Að lokum, herra forseti, má benda á augljósa kosti þessa fyrirkomulags en ég læt mér nægja að tína hérna til tvo kosti. Þetta íbúðaform er í mínum huga vel til þess fallið að leysa ákveðinn vanda sem skapast hefur og skapast mun hér á Íslandi vegna tíðra búsetuskipta á atvinnumarkaði. Við Íslendingar höfum ekki enn þá upplifað þá undarlegu þróun sem iðnvæðing hefur í för með sér, þ.e. þessa sífellt tíðari nauðsyn fólks til að skipta hreint og beint um atvinnu vegna þess að atvinna þess verður í raun og veru gamaldags og jafnvel óþörf og því nauðsyn til endurmenntunar og nauðsyn að sækja önnur störf sem oft kostar að fólk verður að flytjast búferlum.

Annað atriði er að ábyrgð byggjanda og íbúa yrði á einni hendi vegna hins sameiginlega reksturs, en það tryggir að því er ég fæ best séð að eftirlit með gæðum og viðhaldi þess konar húsnæðis sem hér um ræðir verður eins vel tryggt og hægt er að hugsa sér.

Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð því að ég held að till. skýri sig að öðru leyti sjálf í grg., en ég er náttúrlega reiðubúinn að svara þeim spurningum sem ég get ef einhverjar koma fram.

Svavar Gestsson: Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir að flytja þetta mál inn í þingið. Þó að það hafi verið lagt fram stjfrv. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins er engu að síður nauðsynlegt að sérstaklega sé tekið á þessu máli sem snertir húsnæðissamvinnufélögin, svo mjög sem þau hafa verið rædd að undanförnu.

Ég vil hins vegar vekja athygli á að því miður er það svo að ef stjfrv. sem nú liggur fyrir á að koma til móts við það fólk sem hundruðum saman hefur skráð sig í húsnæðissamvinnufélög verður að breyta frv. mjög mikið frá því sem það er nú. Frv. gerir ekki ráð fyrir að tryggt verði fjármagn í þessu skyni til húsnæðissamvinnufélaga. Þvert á móti gerir frv. ráð fyrir að framlög til Byggingarsjóðs verkamanna séu í fyrsta lagi almennt minnkuð. Í öðru lagi að verkefni Byggingarsjóðs verkamanna séu stóraukin á sama tíma og framlögin til hans eru minnkuð. Í þriðja lagi gerir frv. í raun og veru ráð fyrir eins og menn hafa tekið eftir, að eigin fjárframlög þeirra sem komast inn í verkamannabústaði verði tvöfölduð frá því sem nú er. Þannig að ef við tökum dæmi af íbúðum á Eiðsgranda sem úthlutað var á síðustu mánuðum og fólk er að flytja inn í þessa dagana þurftu menn að greiða um 10% eða í kringum 200–220 þús. kr., en samkv. frv. sem hér hefur verið lagt fram af hæstv. ríkisstj. fer þessi upphæð upp í 440 þús. kr. eða 20% af staðalíbúðarverði þeirra íbúða sem um er að ræða sem eru að vísu óvenjudýrar miðað við íbúðir í verkamannabústöðum vegna þess hvað grunnkostnaður var mikill á Eiðsgranda.

En ég vil vekja athygli á á því í þessari umr. að í frv. hæstv. ríkisstj. eru tekin inn nákvæmlega sömu ákvæðin varðandi þessi atriði og voru í frv. síðustu ríkisstj. Hér á ég við 33. gr. frv. ríkisstj. á þskj. 158, c-lið þar sem stendur að hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna sé að annast lánveitingar til félagslegra íbúðabygginga með það að markmiði að bæta úr húsnæðisþörf láglaunafólks, m.a. teljist í þessu sambandi félagslegar íbúðir leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu með hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi.

Í 54. gr. þessa frv. er nánar útskýrt hvernig farið er með þessa hluti. Þar er greint frá fjármögnuninni, hversu hátt lánshluttallið á að vera. Breytingin sem núv. hæstv. félmrh. hefur gert í þessu efni frá því sem gerð var till. um í síðustu ríkisstj. er að við gerðum ráð fyrir og töldum það vera mikið framfaraspor að húsnæðissamvinnufélögin gætu fengið 65% og við töldum raunhæft að gera ráð fyrir að fjármagn væri til í þeim efnum. Núv. félmrh. hefur hins vegar gert sér lítið fyrir og sveiflað þessari tölu upp í 80% á sama tíma og hann skerðir stórkostlega umsvifamöguleika Byggingarsjóðs verkamanna. Þessi aðferð er auðvitað forkastanleg með öllu og er út af fyrir sig ekki á dagskrá undir þessum lið, en það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að vekja athygli á þessu máli um leið.

Ég held að málin með húsnæðissamvinnufélögin séu þannig að það þyrfti að glöggva þó nokkuð ákvæði þessa frv. áður en til verður fullburða lagatexti um húsnæðissamvinnufélög. Ég tel mjög brýnt að það verði gert og ég er sannfærður um að það fólk sem hefur gengið í þessi félög að undanförnu er reiðubúið til að koma til móts við alþm. og ræða við þá um fyrirkomulag þessara mála. Þetta fólk er ekki að gera neinar stórar kröfur á hendur samfélagsins. Það er ekki að fara fram á neitt annað en að fá sæmilega öruggt húsnæði. Sá mikli fjöldi sem gengið hefur í húsnæðissamvinnufélögin að undanförnu, bæði í Reykjavík og á Akureyri, sýnir hvað þörfin er mikil, hvað áhuginn er mikill og hvað það er nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að koma til móts við þetta fólk, ekki með flugeldasýningum eða sveiflum á tölum í áróðursskyni, heldur með raunverulegum aðgerðum og það er auðvitað grundvallaratriðið í þessu efni. Ég held að húsnæðissamvinnufélögin séu góð hugmynd, gætu vísað okkur nýja braut í okkar húsnæðismálum, að sumu leyti út úr þeim mikla vanda sem okkar húsnæðiskerfi hefur lent inn í á liðnum árum af ýmsum ástæðum sem m.a. voru raktar hér af hv. 8. þm. Reykv. og mætti þar bæta ýmsu við. En ég stóð hér aðeins upp til að undirstrika að okkar afstaða er sú í Alþb. að við viljum að á þessum málum verði tekið af fullum myndarskap og erum reiðubúnir til að leggja allan okkar atbeina til þess.