06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

110. mál, fullnýting fiskafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það eru orðnar margar samþykktirnar frá flokksþingum og í kosningastefnuskrá og till. sem lagðar hafa verið fram í sambandi við stjórnarmyndunarviðræður þar sem Alþb. hefur lagt til bætta meðferð og nýtingu sjávarafla. Ekkert blað hefur varið jafn miklu rúmi á síðum sínum til umr. um þessi mál og okkar ágæti Þjóðvilji. Þar hefur m.a. mátt lesa hvatningar- og leiðbeiningagreinar þar sem hafa verið viðtöl við hv. flm. þessarar þáltill., Björn Dagbjartsson, um þann þátt nýtingar sjávarafla sem þessi till. fjallar um. Hv. þm. Björn Dagbjartsson hefur í ræðu og riti undanfarin ár verið hvatamaður að aukinni nýtingu sjávarfangs. Þar erum við samherjar og sammála, en að einhverju leyti erum við ekki sammála um leiðina að markinu, hvernig við getum náð því marki að fullnýta fiskaflann.

Ég vil þó lýsa mig samþykkan þessari till., en tel að markmiði hennar verði ekki náð, þ.e. fullnýtingu fiskafla, með þeim reglugerðarbreytingum sem till. gerir ráð fyrir. Og ég á erfitt með að skilja útskýringu flm. hér í greinargerðinni þar sem hann segir að með því að greiða lágmarksverð fyrir undirmálsfisk en setja jafnframt nýjar reglur um viðurlög vegna undirmálsfisks í afla eigi að vera tryggt að smáfiskur verði að verðmætum án þess að tapað sé neinum möguleikum til að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski, nema síður væri. Ég held að þarna sé verið að tala um tvo ólíka hluti, hert viðurlög og ákveðið verð á smáfiskinum. Það er eins og þarna hafi orðið bræðrabylta. Með því að tala um hert viðurlög til sjómanna liggur í augum uppi að þeir muni forðast að sýna að slíkir hlutir hafi skeð á veiðiskipi, að þeir hafi veitt smáfisk. Það nægir ekki undir þessum kringumstæðum að setja eitthvert verð á þennan smáfisk, það gerir það ekki að verkum að öryggi sé fyrir að aflinn berist að landi.

Ég held því að allar hertar aðgerðir, einhver hefnigirni eða slíkt, ef kemur fyrir sjómann að veiða smáfisk, séu ekki þarfar. Hitt sé miklu þarfara að aflinn sé verðlagður og fyrir hann fáist verðmæti ef í land er komið með hann. Flest annað er nauðsynlegra að gera á þessum vettvangi en að bæta við boðum og bönnum ef þeim fylgja ekki ákveðnar breytingar sem gera mögulegt að hægt sé að hlýða boðunum og hlíta bönnunum. Oftast er það þannig að bönnin eru þarflaus eftir að breytt hefur verið til á réttan hátt. Ég tel nauðsynlegt, ef till. á að ná þeim tilgangi sem heiti hennar gefur tilefni til, svo og því sem fram kemur í greinargerð að sé annar aðaltilgangur till., þ.e. að nýta fiskúrgang, að nefnd sú sem till. fær til meðferðar breyti henni allmikið.

Í fyrsta lagi er óraunhæft að tala um í tillgr. og gerir hvorki til né frá að allur aflafengur sé verðlagður af Verðlagsráði sjávarútvegsins ef það verð greiðir ekki vinnuframlag og kostnað. Það kemur fram í greinargerð till.till.-maður gerir sér grein fyrir að þarna geta falist útgjöld sem ekki er hægt að horfa framhjá eins og þar segir. Manni finnst að hv. flm. telji að vinnuframlag skipshafnar svo og kostnaður útgerðar sé hverfandi við að hirða allan afla og fiskúrgang og koma fyrir í skipi og flytja til lands. Um að hirða slóg fullyrðir flm. og segir í grg., með leyfi forseta: „Fyrirhöfn áhafnar verður engin umfram venjulega slægingu.“ Hér tel ég að of mikið sé sagt og reyndar líka að tónn sem þessi, að bætt nýting, bætt meðferð krefjist ekki aukinnar vinnu, sé skaðlegur. Það fyrsta sem hér þarf að gera er að tryggja að sjómaðurinn finni fyrir því að verk hans séu viðurkennd og fyrir bætta nýtingu komi greiðsla til hans, en því sé ekki haldið fram að þetta eða hitt sé hægt að gera um borð í fiskiskipi án þess að til komi aukið vinnuframlag skipverja.

Ef verðlagning á ruslfiski og fiskúrgangi væri á þann veg að sjómenn fengju kaup fyrir sína vinnu við að hirða það og koma því fyrir í skipi tel ég að engin boð eða bönn þyrfti til að koma því til leiðar að slíkt væri gert. Og boð eða bönn sem gleyma eða gera lítið úr vinnuframlagi sjómanna eru gjörsamlega marklaus. Ef nokkur starfshópur íslenskur er verður þeirra launa sem í hlut hans kemur eru það sjómennirnir, en í mörgum tilfellum eru þeir með mjög lág laun. Það þarf því að vera höfuðmarkmið þegar gerð er áætlun og till. um bætta nýtingu og bætta meðferð sjávarafla að gert sé ráð fyrir og það tryggt í framkvæmd slíkrar till. eða áætlunar að tekjuhlutur sjómanna batni jafnhliða.

Nú er það svo að þessi till. er um fullnýtingu fiskafla en texti till. nær aðeins yfir hluta þess sviðs sem um er að ræða þegar rætt er um nýtingu sjávarfangs eða nýtingu afla sem hefur náðst inn á þilfar veiðiskips.

Næsti þáttur sem líta þarf á og þarf ekki síður umr. við er meðferð og fullnýting fiskafla sem hefur verið landað frá veiðiskipi. Ég tel að við texta þessarar till. þurfi að koma árétting um að allur afli sem að landi sé kominn sé nýttur. Reyndar tel ég að á meðan svo er ekki sé allt tal um boð og bönn gagnvart sjómönnum og allt tal um verðmætasóun á fiskimiðunum nokkuð út í hött þó sjálfsagt sé um að ræða. Þegar í land er komið þarf ekki lengur að fara eftir sögusögnum um nýtingu og umhirðu, það er t.d. vitað að enn fer þó nokkuð af slógi forgörðum, svo var a.m.k. á síðustu vertíð og ýmislegt má þar fleira nefna.

Eins og fram kemur í greinargerð þessarar þáltill. hefur verið rætt um lífefnavinnslu úr fiskinnyflum, en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum. Fyrir nokkrum árum opnaðist markaður fyrir þurrkaða þorskhausa í Nígeríu, þessi markaður er þar enn fyrir hendi. Þessi verkun stóreykur verðmæti hausanna miðað við að vinna úr þeim mjöl. En Seðlabankinn okkar vill ekki lána út á þessa framleiðslu og kemur þar með í veg fyrir þá verðmætis- og atvinnuaukningu sem þarna gæti átt sér stað með því að þurrka hausana í stað þess að vinna úr þeim tiltölulega verðlítið mjöl.

Það má telja upp ýmsa þætti í sambandi við meðferð og nýtingu fiskafla eftir að í land er komið frá skipi og sjálfsagt má nefna stórar fölur um áætlaða verðmæta.aukningu líkt og kemur fram í greinargerð þessarar till. um verðmæti þess sem fer til spillis um borð í skipum á veiðislóð. Fullnýting fiskafla þarf að eiga sér stað bæði í landi og á sjó. Við höfum ekki efni á að láta neitt fara til spillis og síst af öllu nú þegar sjávarafli minnkar eins og raun ber vitni.

Hér er um að ræða verðmætisauka ofan á þann afla sem þegar er í hendi. Þessi verðmætisauki á fyrst að fara til þeirra sem við fiskveiðar og fiskvinnslu vinna og til útgerðar fiskiskipa til að standa undir og greiða aukið vinnuframlag og kostnað sem leiðir af nýjum tækjum og vinnubrögðum.

Ég tel því að við till. þurfi að bætast svohljóðandi setning eða slík meining sem kemur fram í þessari setningu: „Ef verðlagsgrundvöllur er ekki fyrir hendi fyrir slíkt sjávarfang tekur ríkissjóður ábyrgð á greiðslum til seljenda.“

Þessi meining kemur að vísu fram í grg. till., en hún er ekki í tillgr. sjálfri og það sem ég raunverulega er að leggja til er að það sem till. -maður nefnir hér í grg. flytjist inn í tillgr. sjálfa.

Miðað við þær upplýsingar um væntanlega aukna verðmætasköpun eða réttara sagt aukna verðmætanýtingu sem hv. þm. Björn Dagbjartsson bendir á í grg. þessarar till. er fráleitt að halda þeim leik áfram að láta slík verðmæti fara til spillis. Hér er nauðsynlegt að komast frá orðum til athafna. Boð og bönn eru hér aukaatriði, skipting þeirra fjármuna sem um er talað skiptir höfuðmáli.