06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

110. mál, fullnýting fiskafla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég bað hér um orðið til þess að lýsa fylgi við meginefni og tilgang þessarar þáltill. eins og ég hef skilið hana af lestri till. og grg. og eftir að hafa hlýtt á mál hv. flm. Ég vil ekki þar með staðhæfa að ekki megi eitt og annað betur fara og kannske styðja skýrari rökum en hér er gert í sambandi við texta till. og það sem að er vikið í grg. En það tel ég ekki meginatriði heldur hitt að hér er verið að hreyfa með skynsamlegum hætti mjög þörfu og brýnu máli. Eins og fram kom hér hjá hv. 4. þm. Vesturl., er það ekki í fyrsta sinn sem hv. þm. Björn Dagbjartsson vekur máls á þessum brýnu atriðum sem snerta nýtingu á okkar sjávarfangi.

Hér er bæði um að ræða möguleika á verðmætaaukningu úr okkar sjávarafla, en auk þess mikið þrifnaðarmál þar sem tvær flugur yrðu slegnar í einu höggi ef farið verður eftir þessari till., sjávarafli færður á land og nýttur og tekið fyrir hvimleiða og skaðlega mengun sem verður oft vegna smáfisks og slógs sem fleygt er um borð frá veiðiskipum eins og hér hafa verið rakin dæmi um.

Ég held að við þær aðstæður sem nú eru að flestra dómi, að heldur þrengi að í sambandi við okkar sjávarfang, beri brýna nauðsyn til að leita allra leiða til að fullnýta þann afla sem að landi berst og tryggja að allt verði á land flutt sem hægt er að nýta. Í rauninni er langflest sem á að vera hægt að nýta til verðmætrar vinnslu ef rétt er á haldið.

Það getur hins vegar tekið nokkurn tíma að koma slíkri vinnslu á og ég tel því að ábending flm. um að til þurfi að koma örvun e. t. v. af opinberri hálfu tímabundið til að ná megi markmiðum till. sé alveg réttmæt og beri að skoða málið út frá því.

Það er nauðsynlegt að þessi till. fái málefnalega meðferð í nefnd og verði síðan fylgt eftir eins og hér er kveðið á um og tekin inn atriði sem menn telja að eigi heima í till. e.t.v. til viðbótar við það sem hér er og síðan leitast við að koma orðum í athafnir svo sem frekast er kostur.

Við þurfum á því að halda að nýta öll þau verðmæti sem til falla og hér er um svo mikið hráefni að ræða þegar á heildina er litið að eflaust getur verið um verulegar upphæðir að ræða. Auðvitað er margt óunnið eins og alltaf þegar lagt er inn á ný svið í vinnslu. Það tekur tíma að ná tökum á þeim þáttum, þ. á m. markaðsfærslu. En það eru þættir sem ég geri ráð fyrir að hægt sé að koma í kring á ekki mjög löngum tíma. Ég vil þakka flm. að lokum fyrir að hafa hreyft þessu máli á þeim stutta tíma, sem hann hefur komið inn á þingið.