06.12.1983
Sameinað þing: 29. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

110. mál, fullnýting fiskafla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Líklega er ástæðulaust að eyða löngum tíma í að ræða þetta mál meira, ekki vegna þess að það sé ómerkilegt heldur vegna þess að komið hafa fram margar skoðanir eins og ævinlega þegar fjallað er um þessi sjávarútvegsmál, hverju nafni sem nefnast. Ég veit satt að segja ekki hversu vel þessi till. er unnin eða hversu mikil þekking liggur á bak við, jafnvel þó sé um að ræða vísindamann í þessum greinum, en það er auðvitað ýmislegt í þessu sem vekur mann til umhugsunar um hvort þetta sé allt nákvæmlega eins jákvætt og höfundur þáltill. heldur fram í grg. En hvað sem um það mætti segja er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert að leita víðar fanga og sem víðast til að auka verðmæti sjávarfangs sem við komum með í land.

Mesta verðmætið sem er auðvitað til nú þegar, þar sem hægt er að græða mesta peningana er að fara miklu betur með fiskinn, þennan venjulega fisk. Hitt er svo annað mál að vissulega er ýmsum verðmætum fleygt sem er skömm að og hefur verið lengi eins og t.d. lifrinni. En verðlagningu á lifur hefur verið þannig háttað að með því að slíta lifrina sér og ganga frá henni sér vex aðgerðartími mjög mikið, það munar mjög miklu í vinnu að taka lifrina frá. Sá hlutur sem áhöfnin hefur fengið fyrir lifrina er svo lítill að ég er hræddur um að enginn maður í landi vildi láta borga sér svo lágt tímakaup fyrir hverja unna stund, það nær ekkert nálægt lægsta verkamannataxta í landinu.

Auðvitað er auðvelt að segja að sjómenn eigi að hirða lifrina, það komi þjóðarbúinu til góða og þeir eigi að vinna það svona nokkurn veginn í þegnskylduvinnu. Ég tel að það sé rangt. Verð á lýsi er auðvitað mjög misjafnt og þegar það er hátt er hugsanlegt að eitthvað hafist út úr þessu fyrir þá sem þurfa að vinna við þetta því að sjómenn á togurum þurfa nú að vinna við margt fleira heldur en að slægja fisk. Stundum er það næstum því aukavinnan um borð að slægja fisk því að menn þurfa að gera við veiðarfæri og sums staðar er nú fiskislóðin þannig að megnið af tímanum fer í að hengja þessar veiðarfæradruslur saman aftur eftir að þær hafa kannske verið skamman tíma í botni og það er mikil vinna.

En það er ákaflega misjafnt hversu mikil lifur er í fiski. Sá fiskur sem togararnir hafa verið að veiða, þessi smærri fiskur, ég tala nú ekki um minnsta fiskinn sem er allmikið af, er allt að því lifrarlaus, það er ákaflega lítil lifur í þeim fiski yfirleitt. Ekki veit ég hvernig er með prósenturnar í þessu en það er sáralítið af lifur í smáum fiski. Svo smár er nú fiskurinn þegar menn eru að tala um að jafnan komi eitthvað af smáum fiski með, menn viti ekki hvort veiddur er eins smár fiskur og um er talað, þá vita þeir það vel sem hafa staðið í þessu sjálfir að víða er ansi miklu hent beint í sjóinn aftur af of miklu smáu dóti. Ég hélt að þetta vissu allir þó að þetta sé kannske stundum orðum aukið. En ég vil benda á að heilu vertíðarnar hefur meðalþyngd á þorski ekki verið nema kannske 1200–1400 grömm á Vestfjarðamiðum á togurum. (Gripið fram í.) Jæja, það er nú ekki mikið meira. Í langan tíma hefur komið fyrir að meðalvigtin upp úr skipi á þorski hafi verið á þessu bili. (Gripið fram í.) Það er mjög smár fiskur, já, hann gæti verið orðinn þriggja ára samt. Hann er mjög smár. Þegar menn fara með þetta í land hafa þeir áreiðanlega hent ansi mörgu sem er smærra. Það er auðvitað alveg skelfilegt.

Hitt er svo annað mál að í grg. stangast það svolítið á, að menn eigi að fá greitt fyrir undirmálsfisk og síðan talað um að það eigi að svipta menn leyfum fyrir smáfiskadráp. Út af fyrir sig er ekki mikið þó að ein þverstæða sé í svona langri grg., yfirleitt eru þær miklu fleiri.

Hrogn eru ekki í fiski fyrr en hann er orðinn býsna stór og margra ára gamall og kemur af vertíðarsvæðinu og þar eru auðvitað öll hrognin hirt. Auðvitað ætti að skylda togarana til að hirða hrognin. Það er skelfilegt að fleygja svo dýrum og góðum mat í sjóinn jafnvel þó að það kosti aukavinnu.

En eins og kom fram hjá ræðumanni áðan hafa menn verið að tala um meltu á hverjum kosningafundinum á fætur öðrum hringinn í kringum landið og verið ábyrgir í framan og rætt um að auka verðmæti þjóðarbúsins með að hirða slógið úr fiskinum, koma með það í land og búa til úr því meltu. Ef meltan er svo mikil eins og þarna segir höfum við þá nægilega mörg spendýr í landi til að éta alla þessa meltu? Ég veit ekki hve mikið má gefa af henni með venjulegu fóðri en ég efast um að sauðféð og beljurnar nái að háma þetta allt í sig jafnvel þó að afkastamiklar séu.

En það sem mér finnst vanta dálítið í þessa umr. eru betri upplýsingar um þessa meltu, hvað þarf í hana? Það þarf mikið af sýru í hana. Það þarf að setja upp myndarlega tanka í skipin sem láta framleiða þessa meltu og það þarf mikið pláss. Við vitum að togararnir okkar eru ekki stærri en það að mikil vandræði eru með pláss. Ekki höfum við þennan ruslfisk lausan. Hann verður einhvers staðar að vera annars staðar en með öðrum fiski í lest. Það dettur engum manni í hug að útbía matvælageymslur eins og fiskilestirnar eru með alls konar smárusli, sandkola, gulllaxi og feitum fiski sem gera lestarnar þannig að þær verða ekki lengur hæfar til að geyma í matvæli.

Það er hugsanlegt að fara út í þetta og ég tel rétt að gera það í einhverjum mæli. En auðvitað þarf að kanna það hvað meltan kostar í vinnslu og hversu miklum verðmætum hún skilar því að þegar hún kemur í land á eftir að þurrka úr henni mikinn sjó og hita upp og nota býsna mikla orku og hún er ekkert ódýr í þessu landi. Menn hafa séð um það að undanförnu að hækka orkuna upp úr öllum veðrum þannig að hún er orðin dýrari í mörgum tilfellum en orka úr innfluttri olíu frá Asíu, Sovétríkjunum. Jafnvel þó að við færum út í þessa vinnslu veit maður því miður ekki fyrir fram hver arðsemin er. Við fáum tekjur fyrir meltu og annan slíkan úrgang en þó má kostnaðurinn við að ná þessum tekjum ekki fara upp fyrir þær. Þá er skárra að henda því.

Í landi hendum við líka miklum úrgangi, úr öllu sláturfé í landinu meira og minna, beinum og slíku og alls kyns úrgangi og menn leggja meira að segja í talsverðan kostnað til að losna við að vinna nokkurn skapaðan hlut úr því og það er hneyksli.

Herra forseti. Ég er ansi hræddur um að það kosti dálitla vinnu að ganga frá þessum hlutum öllum jafnvel þó lifrin sé látin fara með slóginu sem er að sumu leyti heldur óskynsamlegt því það þarf að skilja hana frá. Það er hægt en kostar líka peninga og einhvern útbúnað þarf til að koma í veg fyrir að allt of mikill sjór fari með slóginu niður í tankana því að ekki er víst að hægt sé að setja tankana beint undir þar sem verið er að slægja fisk. Það hagar nú svo til að líklega ætti tankur fyrir slógið að vera einhvers staðar annars staðar. Ekki megum við taka besta lestarplássið undir þetta dót þótt verðmætt sé.

Hér er einnig talað um lífefnavinnslu og duglegir þm. fjölluðu um það hér á sínum tíma, höfðu um það forgöngu og var það myndarlegt. En ég undrast að við skulum ekki hafa fengið meiri upplýsingar um þá möguleika sem felast í þessu. Menn hafa talað um að vinna mætti úr þessu ýmiss konar bætiefni og eins efnahvata af ýmsu tagi en ekki sagt hversu mikið, hvað það kostaði eða hvað væri hægt að selja það fyrir. Það vantar geysilega miklar upplýsingar. Ég hélt að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ætti að fást við hluti af þessu tagi. Ekki aðeins að flytja um það tillögur inni í þinginu eða í samþykktum, heldur að koma með nákvæmar vísindalegar upplýsingar um hvað væri fólgið í þessu í raun og veru. Það er hægt að framleiða alls konar vítamín og ýmsa hluti úr þessu, en þau efni eru líka framleidd úr öðru og ef þessi útkoma úr lífefnavinnslu úr slógi og öðrum úrgangi verður ekki ódýrari en það efni sem er á markaðinum fyrir borgar sig heldur ekki að vinna það.

Herra forseti. Það má ekki skilja orð mín svo að ég sé að draga úr þessu eða gera þetta tortryggilegt eða ómerkilegt. Það verður aldrei, því réttilega hafa menn áhyggjur af að fá ekki nægilega mikið út úr því sem við drögum að landi. Ég styð þá hugsun. Hins vegar þurfa menn að gera sér grein fyrir að ýmislegt þarf til að koma til að þetta verði notað. Hugsanlega kæmi til greina að mínu áliti að tankar og annar búnaður sem þarf til þess að nálgast þessi verðmæti verði sett í skipin útgerðinni að kostnaðarlausu. Hún hefur nægilega marga bagga fyrir og stendur nú frammi fyrir meiri erfiðleikum en áður.

Þar sem hér í grg. er talað um verksmiðjuskip má gefa þessum litlu togurum okkar sem eru að basla við að frysta eitthvað úti á sjó þetta nafn, en þessir togarar verða engin verksmiðjuskip fyrir því. Þeir skulu átta sig á því. Svona minitogarar verða aldrei verksmiðjuskip jafnvel þó þeir vinni svipuð verk. Og menn hafa verið að koma fyrir lágmarksvinnslutækjum um borð í slíkum skipum og þó með því að henda þessu öllu saman sem hér er verið að tala um hefur meira að segja sjóhæfni þessara skipa verið ógnað vegna þess að menn hafa sett þessar vélar í skipin þar sem þær geta verið og hvergi annars staðar á millidekki og hafa með því fært þyngdarpunkt skipsins of ofarlega. Þess eru dæmi eins og kom fram í hinum virtu dagblöðum landsins fyrir skömmu að þegar búið var að setja hæfilega ballest á móti þessum vinnsluvélum sem er ekki nema brot af því sem þarf í verksmiðjuskipi var hann kominn á hleðslumerki sem kallað er, þ.e. fullhlaðinn þegar hann fór tómur út, og ekki er það efnilegt. Ég nefni þetta aðeins vegna þess að menn mega ekki blekkja sig á að hægt sé að breyta þessum litlu skipum okkar í verksmiðjuskip. Það er bara ekki hægt. En það sem þeir eru að gera er ekki með öllu illt þrátt fyrir það. En þessi verðmæti verða eftir eftir sem áður. Það er ljóst.

Við áttum þess kost fyrir tiltölulega stuttu að nálgast slík skip frá útlöndum fyrir lítið fé. Það vildum við ekki því að aðrir voru búnir að leggja þeim. Við létum hins vegar smíða fyrir okkur skip fyrir norðan sem kostuðu allt of mikla peninga og eiga allstóran hluta þessara vandræða allra saman. En ef við ætlum að tala um í alvöru að sækja t.d. afla til annarra miða langt frá landinu, sem er vel hugsanlegt með leyfi góðra manna í austri og vestri og kannske suðri einnig, sendum við ekki þessi skip þangað nema þau hafi löndunarleyfi sem er bannað. Þangað getum við ekki sent annað en burðug skip.

Herra forseti. Ég tel gagnlegt að þessum hlutum hefur verið ýtt hér af stað og ég legg áherslu á og vil láta það verða mín lokaorð að þessu verði ekki kastað í rustabinginn að loknu þingi, heldur verði þetta mál skoðað í alvöru því að nú eru alvörutímar og alvörumenn sem um tala.

Herra forseti. Það er gaman að fjalla um þessi efni en langt er liðið á þennan sólarhring og ástæðulaust að vera að teygja lopann meira í þessum efnum, en ég legg á það áherslu einu sinni enn að þetta verði skoðað með það fyrir augum að hafa eitthvert gagn af því.