07.12.1983
Efri deild: 26. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

128. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83 frá 1974, um verðjöfnunargjald af raforku, ásamt síðari breytingum.

Í gildandi lögum um verðjöfnunargjald af raforku er ákveðið að lögin gildi til ársloka 1983. Með frv. þessu er lagt til að lögin verði framlengd um eitt ár og gildi til ársloka 1984.

Verðjöfnunargjald af raforku er innheimt af allri raforkusölu í smásölu annarri en til húshitunar og nemur gjaldið 19%, sem lagt er á sama stofn og söluskattur er lagður á. Gjaldinu er varið til að styrkja fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en Rafmagnsveiturnar fá 80% gjaldsins og Orkubúið 20%, og er lagt til að það haldist óbreytt.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1984 er gert ráð fyrir að verðjöfnunargjald af raforku nemi 240 millj. kr. og er þá miðað við verðlag í okt. s.l. og óbreytta raforkusölu. Ef reiknað er með 5% aukningu í raforkusölu og 8% verðbólgu mun gjaldið nema 270 millj. kr., en þessar viðmiðunartölur eru teknar sem dæmi.

Fjárhagsstaða Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins er það slæm að nauðsynlegt er að viðhalda þessum tekjustofni. Þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið er áætlaður halli

Rafmagnsveitna ríkisins á árinu 1983 allt að 35.7 millj. kr. og halli Orkubús Vestfjarða á þessu ári er áætlaður 10.3 millj. kr.

Þess skal hér getið að ríkissjóður hefur á yfirstandandi ári yfirtekið 15 millj. kr. lán eða upphæð sem því nemur vegna rekstrarhalla Rafmagnsveitnanna á árinu 1982 og leggur þannig til fyrirtækisins nokkurt eigið fé á þessu ári.

Í frv. er lagt til að iðnrh. verði á árinu 1983 heimilt að fela Orkusjóði að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar verðjöfnunargjald af raforku sem nemi allt að þeirri fjárhæð sem innheimt verður af raforkusölu veitunnar. Heimild til að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar var fyrst tekin í lög vegna ársins 1982. Á árinu 1982 fór Rafveita Siglufjarðar fram á að fá endurgreiddan hluta verðjöfnunargjaldsins. Athugun fór fram á fjárhagsstöðu fyrirtækisins og kom m.a. fram að lánstími á lánum sem tekin höfðu verið var stuttur og lánakjör óhagstæð. Við þessu var brugðist með útvegun láns til lengri tíma. Síðan hefur komið í ljós að aðgerðir þessar eru ekki taldar nægja til að rétta af greiðslustöðu Rafveitu Siglufjarðar og viðbúið að til frekari aðgerða þurfi að koma. Þykir því rétt að heimildarákvæði þetta verði óbreytt árið 1984. Þörfin á að nýta endurgreiðsluheimildina, sem hér er lagt til að framlengd verði fyrir árið 1984, mun metin í ljósi niðurstöðu á uppgjöri á stöðu Rafveitu Siglufjarðar á yfirstandandi ári.

Hvað snertir fjárhag Orkubús Vestfjarða, þá er þar eins og áður sagði áframhaldandi við erfiðleika að etja og hallarekstur hliðstætt og er hjá Rafmagnsveitum ríkisins á þessu ári.

Að lokum skal áréttað að með verðjöfnunargjaldinu hefur tekist á undanförnum árum að draga mjög verulega úr verðmun á raforku til heimilisnota frá þeim fyrirtækjum sem verðjöfnunargjaldsins njóta. Verðmunur á almennum heimilistaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða annars vegar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur hins vegar er nú nálægt 25%.

Herra forseti. Þegar þessari umr. lýkur legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn.