20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt fimm öðrum þm. Alþfl. leyft mér að flytja þáltill. sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að kanna gaumgæfilega og skila sameinuðu Alþingi skýrslu um orsakir hins háa raforkuverðs til almennings hér á landi og tillögum til úrbóta.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja að að undanförnu hafa átt sér stað miklar umræður um hið háa raforkuverð sem hér á landi gildir til heimilisnota. Í sjónvarpsfréttum seint í sumar eða snemma á þessu hausti komu fram ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar sem bentu í meginatriðum til þess að raforkuverð til almennings hér á landi væri miklum mun hærra en í öðrum löndum í kringum okkur og raunar lengra frá okkur, þar sem skilyrði til raforkuframleiðslu eru hvergi nærri talin eins hagkvæm og fullyrt hefur verið að hér sé.

Það er skoðun okkar, flm. þessarar till., að það beri nauðsyn til að skipa nefnd óháðra sérfræðinga til að kanna þessi mál gaumgæfilega þannig að leitt verði í ljós, svo óyggjandi sé, hverjar séu hinar raunverulegu ástæður fyrir hinu háa raforkuverði hér á landi.

Vissulega er það mjög alvarlegt mál ef raforka framleidd með afli íslenskra fallvatna er nú ekki lengur samkeppnisfær við ýmsa innflutta orkugjafa, eins og sú staðreynd ber með sér að fjölmörg veitingahús í Reykjavík nota orðið innflutt gas til eldunar vegna þess að það, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, er miklu ódýrara en rafmagn. Þetta hlýtur að vera okkur ekki bara umhugsunarefni heldur verulegt áhyggjuefni.

Það er nauðsynlegt að komast að því og að það verði skráð skýrt, hverjar ástæður eru fyrir þessu háa raforkuverði. Er það svo að skattlagning orkunnar hér sé meiri en annars staðar? Er það svo að virkjunarkostnaður hjá okkur sé óeðlilega hár? Er yfirbygging orkufyrirtækjanna of mikil? Er þar gætt þess aðhalds og þeirrar hagsýni í rekstri sem nauðsynlegt er? Er dreifingarkostnaður raforku hér óeðlilega hátt hlutfall af því verði sem almenningur greiðir? Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem vakna.

En auðvitað er hér um mjög flókið og margslungið mál að ræða. Það má líka spyrja hvort umframorkan í raforkukerfinu hjá okkur sé of mikil, óþarflega mikil. Hversu mikil þarf umframorkan að vera, þannig að sæmilegt og viðunandi rekstraröryggi sé fyrir hendi? Og hvað kostar í fjárfestingu sú umframorka sem nú er í kerfinu?

Orkuframkvæmdum ýmsum hefur verið hraðað mjög og það án þess að nokkur nýr stórkaupandi orku væri til staðar. Raunar er langt síðan slíkur aðili hefur bæst við, ekki síðan Grundartangaverksmiðjan var reist. Höfum við rasað um ráð fram í þessum efnum?

Það er ekki fjarri lagi líka að vikið sé að orkufyrirtækjum okkar, eins og Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins, þar sem gífurlegt fjármagn fer um, og stundum finnst manni óneitanlega eins og ekki sé ævinlega kappkostað að gera hlutina á sem ódýrastan hátt, heldur hafi þessi fyrirtæki miklu frekar nóg að gera við að réttlæta hækkunarkröfur sínar og rökstyðja.

Það var t.d. greint frá því held ég bara í morgunútvarpinu í gærmorgun að á þessu ári mundi Landsvirkjun ekki kaupa nema 11 bíla, og var það fækkun um 6 frá fyrra ári. Þá hafa þeir verið 17. Auðvitað þarf þetta fyrirtæki bíla, en spurning er hvort þar sé haldið vel utan um alla hluti og það sama gildir auðvitað um Rafmagnsveitur ríkisins, sem óneitanlega fer það orð af að þar sé ekki gætt á öllum sviðum nauðsynlegs aðhalds í rekstri. Auðvitað má lengi um slíkt della.

Það er kannske ekki óeðlilegt heldur að menn spyrji svona í leiðinni: Hvað kosta laxveiðidagar Landsvirkjun á ári? Töluverð fúlga mundi fara í slíkt, þó erfitt sé kannske að henda reiður á því svo fullgilt sé í þeim gögnum sem almenningi eru opin. Og hvernig skyldi vera háttað t.d. verkaskiptingu milli Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkustofnunar? Er þar ekki á sumum sviðum um hreinan tvíverknað að ræða?

Nú síðustu vikurnar hefur líka verið mikið rætt um virkjunarkostnað væntanlegrar Blönduvirkjunar. Raunar hafði ég lagt fram sundurliðaða fsp. um þau mál á hinu háa Alþingi, sem ekki er komin hér til umr., en mér sýnist hins vegar á Morgunblaðinu í dag að hæstv. iðnrh. hafi verið að svara þessari fsp. minni á fundi suður í Hafnarfirði. Er sjálfsagt allt gott um það.

Það hefur verið rætt um hve mikill hluti virkjunarkostnaðarins sé vegna ýmiss konar hliðarframkvæmda, talað um tölur allt upp í 10%. Það vekur þá spurningu, hvort Blönduvirkjun sé þá yfirleitt hagkvæmasti kostur, ef það fylgir að Landsvirkjun þarf að reisa svo og svo mikið af gangnamannakofum, fjárhúsum og kaupa jarðir, fyrir utan þá staðreynd að þar er ekki enn búið að semja um vatnsréttindi við þá sem telja sig ráða yfir þeim.

Ég held að óhætt sé að segja að nær allar virkjunarframkvæmdir undanfarin ár hafa farið langt fram úr öllum áætlunum. Að sumu leyti skýrir verðbólgan það sjálfsagt, en að öðru leyti skýrir verðbólgan það ekki. Og þá líka vaknar sú spurning: Þegar allt breytist svo mjög, hinar upphaflegu forsendur þegar hagkvæmnismat fór fram eru ekki lengur til staðar, hvað er þá verið að gera?

Það má líka velta því fyrir sér hvort hér sé lagt of mikið í, hvort ekki sé unnt að framkvæma á ódýrari veg. Nú er mikið lagt upp úr því að gera aðstöðu þess fólks, sem vinnur við verklegu framkvæmdirnar inni á hálendinu, sem besta. Ekki skal úr því dregið að fólk á það skilið að hafa góða vinnuaðstöðu. Hins vegar vaknar sú spurning, þegar þarna er unnið alla daga og fram á kvöld og farið heim um allan helgar, hvort þessi dýra aðstaða sé í rauninni alltaf nauðsynleg. Ég hef grun um að kostnaður vegna ýmiss konar aðstöðu af þessu tagi sé ekki óverulegur hluti þegar framkvæmdakostnaðurinn er gerður upp.

Okkur er orðið það tamt að tala um orkuna sem eina af okkar helstu auðlindum og auðvitað á hún að vera það. En hins vegar er staðreynd sú, að ef við getum ekki framleitt orku öðruvísi en svo dýra að hún er ekki samkeppnisfær við aðra orkugjafa, þá er hér ekki um neina auðlind að ræða, því miður. Til þess að svo sé verður orkan að vera á samkeppnisfæru verði.

Gagnvart almenningi kemur þetta auðvitað fyrst og fremst fram í háum orkureikningum. Ég hitti fyrir fáeinum dögum fjölskyldu sem býr í ákaflega venjulegu einbýlishúsi sem hitað er með raforku, 130 fermetra húsi. Raforkureikningur þeirrar fjölskyldu á þessu ári verður um 46 þús. kr. Það eru einhvers staðar á bilinu tvenn til þrenn mánaðarlaun húsbóndans. Þegar svo er komið eins og hér er, þá er vissulega tímabært að staldra við og reyna að gera sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast, hvers vegna þetta er svona og hvernig við getum úr því bætt. Það er auðvitað mergur málsins.

Ég ætla ekki, herra forseti, að sinni að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að till. verði, er þessari umr. hefur verið frestað, vísað til hv. allshn.