07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75 14. sept. 1981, um tekju- og eignarskatt, sbr. lög nr. 21 23. mars 1983, um breyt. á þeim lögum.

Eitt meginmarkið núv. ríkisstj. var að stöðva þá óðaverðbólgu er í landinu ríkti við valdatöku stjórnarinnar og koma verðbólgunni á næsta ári niður á sambærilegt stig og ríkir í grannlöndum okkar. Hefur stórum áfanga þegar verið náð í þessum efnum og vonandi bera aðgerðir ríkisstj. þann árangur að framhald verði á þeirri þróun.

Á undanförnum árum hefur álagningarkerfi tekjuskatts verið lagað að verðbólgunni með því að hækka flestar fjárhæðir tekjuskattslaga í hlutfalli við skattvísitölu, sem ákveðin er árlega í fjárlögum. Þessi aðferð dugir sæmilega til að halda skattbyrði óbreyttri milli ára meðan verðbólgustigið er tiltölulega stöðugt. Þegar skyndilega dregur hins vegar úr verðbólgu, eins og nú hefur gerst, er nauðsynlegt að grípa til annarra og víðtækari breytinga á álagningarkerfi tekjuskatts ef áætlunin er að koma í veg fyrir að raungildi skattgreiðslna gjaldenda aukist. Er frv. þetta flutt til að ná þeim markmiðum, sem fram koma í fjárlagafrv., að skattbyrði tekjuskatta til ríkisins verði á árinu 1984 í heild hin sama sem hlutfall af tekjum greiðsluárs og var á árinu 1983. Í þessu felst að þær verulegu lækkanir á sköttum ársins 1983 sem ákveðnar voru með brbl. við valdatöku núv. ríkisstj. haldist áfram á næsta ári. Einnig verður veruleg skattalækkun sé miðað við þær skatttekjur sem óbreytt skattkerfi hefði fært ríkissjóði. Tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum er áætlað um 600 millj. kr. á næsta ári.

Þegar skattbyrði tekjuskatta ríkisins er metin dugar ekki að líta á ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt ein sér. Í því sambandi verður og að hafa í huga sjúkratryggingagjaldið, en á næstu dögum mun heilbr.og trmrh. leggja fram frv. um álagningu þess á árinu 1984. Miðast frv. sem hér er til umr. ásamt nefndu sjúkratryggingaiðgjaldsfrv. við það að heildarálagning tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds nemi sömu fjárhæð og reiknað er með í fjárlagafrv.

Í launaforsendum fjárlagafrv. er áætlað að meðaltekjur manna hækki um 20% milli áranna 1983 og 1984. Þetta frv. er því við það miðað að nettóálagning tekjuskatts ríkisins hækki í nákvæmlega sama mæli en um 21% að meðtalinni fjölgun gjaldenda. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að taka það enn á ný sérstaklega fram að við mat á skattbyrði milli ára er hér sem endranær, þegar þessi mál eru til umr., átt við skattbyrði þeirra gjaldenda sem standa í skilum við ríkissjóð með gjöld sín. Í frv. til fjárlaga er hins vegar ætíð miðað við áætlanir um heildarfjárhæð innheimtra skatta og koma þá innheimtar eftirstöðvar fyrri ára inn í myndina. Vegna minnkandi verðbólgu munu óinnheimtar eftirstöðvar fyrri ára augljóslega vega hlutfallslega meira í heildarinnheimtu ársins 1984 en verið hefur á undanförnum árum. Verðbólgan mun því ekki lengur liðsinna þeim sem lent hafa í vanskilum með skattgreiðslur sínar. Er það skýringin á því að í fjárlagafrv. er reiknað með 28% hækkun á innheimtum tekjuskatti milli ára, enda þótt álagning á hvern gjaldanda hækki einungis um 20% að meðaltali.

Þjóðhagsstofnun hefur áætlað að meðaltekjur manna hækki um 54% milli áranna 1982 og 1983. Í samræmi við þá áætlun er í frv. lagt til að flestar þær fjárhæðir sem fylgt hafa skattvísitölu hækki um sem næst 54%. Þessar fjárhæðir eru þó yfirleitt hækkaðar upp í næsta heila tug eða næsta heilt hundrað gjaldendum til hagsbóta.

Eins og ég gat um hér að framan dugir þessi breyting ein sér ekki til að ná markmiðum frv. vegna minnkandi verðbólgu. Er því auk skattvísitöluhækkunar lagt til að skatthlutföll lækki, skattþrep lengist umfram skattvísitöluhækkun, persónufrádráttur hækki nokkuð umfram hækkun skattvísitölu og verulega umfram verðlagshækkun milli greiðsluára og barnabætur hækki að meðaltali í hlutfalli við áætlaða tekjuhækkun milli áranna 1983–1984, nema barnabætur til einstæðra foreldra sem hækka töluvert meira. Heildaráhrif þessara breytinga eru þau, að skattbyrði gjaldanda helst að meðaltali óbreytt sem hlutfall af tekjum greiðsluárs. Með því er þó ekki sagt að engin tilfærsla á skattbyrði verði milli tekjuhópa gjaldenda. Í reynd mun skattbyrði hinna tekjulægri verða allnokkru minni en var á árinu 1983, en skattbyrði hinna allra tekjuhæstu mun á hinn bóginn aukast nokkuð. Ríkisstj. telur eðlilegt, miðað við aðsteðjandi erfiðleika, að hlaupa nokkuð undir bagga með þeim sem lægri hafa tekjurnar og lækka skattbyrði þess hóps frá því sem var í ár. Hins vegar er ljóst að skattbyrði allra gjaldenda lækkar miðað við óbreytt skattkerfi.

Áhrif till. þeirra, er í frv. felast hafa verið metin á grundvelli úrtals úr framtölum ársins 1983. Miðað við það úrtak, sem sýnir raunverulega vægi frádráttarliða hjá einstökum gjaldendum, mun skattbyrði að meðaltali lækka eða standa í stað hjá þeim hjónum sem hafa lægri tekjur en 450 þús. kr. á árinu 1983 og má ætla að skattbyrði 75% hjóna í landinu muni annaðhvort lækka eða standa í stað. Hins vegar verður nokkur aukning skattbyrði hjá 25% hjóna, og er sú hækkun nánast alfarið bundin við tekjuhæsta hjónahópinn.

Frv. mun á sama hátt leiða til þess að skattar um 85% einhleypinga lækka eða standa í stað. Að meðaltali lækkar eða stendur í stað skattbyrði einhleypinga með minna en 275 þús. kr. árstekjur á árinu 1983.

Mest verður lækkun skatta hjá einstæðum foreldrum, enda mun sá hópur að flestra mati þurfa mest á slíkum ívilnunum að halda. Hjá þeim lækkar skattbyrði eða stendur í stað hjá 90% af hópnum.

Lækkun skattstiga verður samkv. frv. úr 50% í 45%, úr 35% í 32% og úr 25% í 23%.

Þá er í frv. lagt til að skattur af tekjum barna verði lækkaður úr 7% af stofni í 5%, og mun sú breyting leiða til nokkurrar lækkunar á greiðslubyrði miðað við tekjur greiðsluárs.

Á undanförnum árum hefur eignarskattur einstaklinga og félaga numið 1.2% af eignarskattsstofni og nam skattfrjáls eign einstaklinga við álagningu í sumar tæplega 496 þús.kr. Í frv. er lagt til að skattfrjáls eign verði hækkuð í 780 þús.kr. eða um rúmlega 57%. Er þessi hækkun allnokkuð umfram meðalhækkun fasteignamats í landinu. Þar sem fasteignir eru langstærstur hluti eignarskattsstofns einstaklinga felst í þessu allnokkur raunhækkun á skattfrelsismörkunum. Þá er eignarskattshlutfallið lækkað í 0.95% eða um 0.25% til að ná því marki að skattbyrði eignarskatts aukist ekki sem hlutfall af tekjum greiðsluárs.

Þá er lagt til að tekjuskattur félaga lækki úr 65% í 51% af stofni. Er þessari breytingu ætlað að hafa sömu áhrif og fyrrnefndum breytingum á tekjuskatti einstaklinga, þ.e. að halda skattbyrði óbreyttri sem hlutfalli af tekjum greiðsluárs. Að því er einstaklingana varðar er þessu marki ekki einungis náð með breytingu á skatthlutföllum, heldur einnig með hækkun persónuafsláttar, lengingu skattþrepa og fleiri ráðstöfunum eins og áður sagði. Hvað félögin snertir er aðlögun minnkandi verðbólgu náð með breytingu á skatthlutfallinu einu. Af þessum ástæðum verður skatthlutfallslækkun félaga meiri en lækkun á skatthlutfalli einstaklinga, en áhrifin á heildarskattbyrði verða sambærileg og hjá einstaklingum.

Hér að framan hef ég fjallað um tekju- og eignarskatt ríkisins. Heildarskattbyrði gjaldenda ræðst þó ekki af þessum sköttum einum, heldur einnig af skattgreiðslum til sveitarfélaganna í landinu, fyrst og fremst af greiðslu útsvars. Samkvæmt núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga er það hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett að ákveða útsvarshlutfall sitt árlega innan þess 11% hámarks sem lögin kveða á um. Lögin veita því sveitarfélögunum í landinu nægilegt svigrúm til að gera sambærilegar ráðstafanir við þær sem felast í frv. þessu. Verður það að vera á valdi og ábyrgð einstakra sveitarstjórna hversu langt þær treysta sér til að ganga til lækkunar á álagningarhlutfalli útsvars, enda eru aðstæður hjá einstökum sveitarfélögum afar misjafnar. Mun ríkisstj. því ekki beita sér fyrir breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að þessu leyti. En ég vil vekja athygli á þeirri yfirlýsingu félmrh. að hann muni ekki heimila álag á 11% hámarkið nema alveg sérstaklega standi á.

Eins og ég vék að hér í upphafi eru tillögur þær er í frv. felast reistar á þeirri forsendu að tekjur hækki um 20% milli áranna 1983 og 1984, og er það í samræmi við launaforsendur fjárlagafrv. Áætlun um tekjuþróun á næsta ári hlýtur þó að vera óvissu háð og því miður benda ýmsar upplýsingar um ástand fiskstofna til þess að of mikillar bjartsýni kunni að hafa gætt við þessa áætlun og að svo kunni að fara að taka þurfi hana til endurskoðunar. Um þetta er of snemmt að fullyrða á þessu stigi, en komi í ljós á fyrri hluta næsta árs að spár um tekjuhækkun standist ekki kynni svo að fara að nauðsynlegt væri að endurskoða hluta þessa álagningarkerfis, sem frv. það sem hér er til umr. fjallar um, þannig að skattbyrði þyngist ekki frá því sem nú er ráðgert.

Til að ná markmiðum frv. um greiðslubyrði skatta verður að lækka fyrirframgreiðsluhlutfall gjaldenda frá því sem verið hefur. Þetta hlutfall hefur undanfarin ár verið 70% og gjaldendur hafa því orðið að inna af hendi 70% af sköttum fyrra árs á fyrra helmingi greiðsluársins. Unnið er að athugun á því hve lækka megi fyrirframgreiðsluhlutfallið mikið.

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan kosið að geta flutt í þessu frv. tillögur um frekari lækkanir skatta en ráðgerðar eru í samræmi við stefnu stjórnarinnar og flokks míns og í samræmi við mína eigin lífsskoðun. En við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar er ekki unnt að ganga lengra en hér er lagt til. Strax og rofar til á nýjan leik verður unnt að gera meira af því að létta sköttum af almenningi.

Ég skora á hv. þm. að veita frv. þessu brautargengi um leið og ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.