07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það væri freistandi að hefja þessa ræðu með því að lesa uppúr þingtíðindum allar þær ræður og öll þau loforð sem þm. Sjálfstfl. hafa flutt á undanförnum árum um lækkun tekjuskatts hjá almenningi í landinu og lækkun á þeim opinberu gjöldum sem almenningi er gert að greiða.

Ég sagði, herra forseti, að það væri freistandi. En ég geri það ekki vegna þess að dagurinn mundi ekki endast til að lesa hér uppúr ræðustól þessarar hv. deildar öll þessi loforð, öll þessi fyrirheit, allar þessar ræður.

Núv. hæstv. fjmrh. hefur verið fremstur í flokki þeirra sem boðað hafa Reykvíkingum og landsmönnum öllum að hans fyrsta verk yrði að lækka svo skatta á almennum borgurum þessa lands að umtalsvert yrði, og hann sjálfur og ýmsir samflokksmenn hans hér í þingsalnum hafa m.a.s. lofað að afnema með öllu tekjuskatt á einstaklinga. Nú hefur hæstv. fjmrh. mælt hér fyrir sínu fyrsta skattafrv. Það var satt að segja ömurleg ræða, villandi ræða, blekkingarræða, því hæstv. ráðh. reyndi að telja hv. þingdeild trú um að í þessu frv. fælist lækkun á sköttum atmennings í landinu. Greiðslubyrðin yrði léttari, hún yrði minni á launafólk í landinu. Ég sagði: Hæstv. ráðh. reyndi að telja hv. deild trú um. Kannske trúir hæstv. ráðh. þessu sjálfur en hann er líklegast eini þm. í þingflokki Sjálfstfl. sem trúir þessu.

Hæstv. fjmrh. hefur lagt hér fram fjárlagafrv. Þegar hann nú leggur fram skattafrv. nokkrum vikum seinna reynir hann, til að gylla þetta skattafrv., að gefa sér allt aðrar tekjuforsendur í skattafrv. en hann gerði í fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. er reiknað með tekjuhækkuninni rúm 14% á milli ára. Í þessu frv., grg. þess og ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan er hins vegar reiknað með tekjuhækkuninni 20% milli ára, eingöngu til þess að reyna að fá út aðeins fallegri tölur fyrir hæstv. ráðh. Væri ekki rétt að hæstv. fjmrh. svaraði því hér og nú hvort frv. er rétt, fjárlagafrv. eða skattafrv.? Eru tekjuforsendur fjárlagafrv. rangar? Eru tekjuforsendur skattafrv. rangar? Báðar geta ekki verið réttar.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í sinni framsöguræðu að þetta skattafrv. mundi létta sköttum af venjulegu launafólki í landinu. Hver er staðreyndin? Við skulum skoða það aðeins nánar.

Í Morgunblaðinu í dag eru birtir útreikningar ríkisskattstjóra, byggðir á forsendum sem fjmrn. hefur gefið embættinu. Þessar töflur, sem þó eru ekki réttar heldur í tveimur veigamiklum atriðum villandi, eins og ég mun nú koma að innan tíðar, sýna það hins vegar rækilega að jafnvel samkvæmt þeim forsendum sem fjmrn. sjálft gefur út opinberlega felst í þessu frv. 10% eða rúmlega það raunhækkun á sköttum hjá því fólki sem er venjulegt launafólk í þessu landi. M.a.s. hjá lágtekjuhjónunum verða samkvæmt þessu frv. meiri skattar mældir í skattabyrði á næsta ári heldur en á yfirstandandi ári. Hjón þar sem annað hjónanna er með tekjur á bilinu 14–18 þús. á mánuði og hitt með nokkrum þúsundum minna á mánuði munu skv. þessu frv. greiða meiri skatta á næsta ári.

En hæstv. fjmrh. hefur ekki lagt í það að leggja fram alla myndina af raunveruleikanum þegar hann kynnir þetta frv., því auðvitað er útsvarshliðin önnur meginhliðin á skattabyrðinni. Eins og kom fram hér í ræðu hæstv. fjmrh. reyndi hann að skjóta sér undan því, en auðvitað getur hann það ekki, vegna þess að það er fullkomlega á valdi núv. ríkisstj. að haga þannig skattlagningu á lágtekjufólkið í landinu að það fái út úr tekjuskattsgreiðslunum það miklar upphæðir til móts við útsvarsgreiðslurnar og upp í þær að þegar upp er staðið komi venjulegt fólk út með lægri skatta, jafnvel þótt sveitarfélögin haldi sér við 11% markið. En það er ekki gert í þessu frv. — nei.

Ef teknar eru inn í þetta dæmi tvær meginforsendur, sem hæstv. fjmrh. getur væntanlega ekki deilt um, því að fyrri forsendan er hans eigin tekjuforsenda úr hans eigin fjárlagafrv., að tekjuhækkunin milli ára verði rúm 14%, og hin meginforsendan er að Reykjavíkurborg leggi á, eins og hæstv. borgarstjóri hefur tilkynnt að verði gert, 11% útsvar á næsta ári, hver er þá skattbyrðin hjá venjulegu launafólki í Reykjavík, kjósendum hæstv. fjmrh., sem hann hefur í mörgum kosningum á undanförnum árum lofað skattalækkunum sem sínu fyrsta verki? Hver er niðurstaðan, hver er útkoman?

Hjón sem bæði eru láglaunahjón, hafa tekjur eins og lágtekjuhópar hafa hér í fiskvinnslu og verksmiðjuiðnaði í borginni, koma út með hærri skattbyrði. Tökum dæmi þar sem annað hjónanna er með 190 þús. kr. í árstekjur á árinu 1983 og hitt er með 100 þús. í árstekjur. Menn geta einfaldlega séð að það eru ekki miklar mánaðartekjur sem gefa annars vegar 190 þús. kr. í árstekjur og hins vegar 100 þús. kr. í árstekjur, það eru ekki háar mánaðartekjur. Lækkar skattbyrðin á þessum hjónum? Nei, hæstv. fjmrh., það gerir hún ekki. Hún hækkar. Og við skulum skoða aðeins fleiri og algeng dæmi.

Við skulum taka hjón þar sem annað hjónanna er með 300 þús. og hitt er með 190 þús., sem eru mjög algengar tekjur hjá venjulegu launafólki hér í borginni þar sem bæði hjónin vinna fullan vinnudag. Hver er niðurstaðan? Jú, hún er aukin skattbyrði, og það ekkert smávegis. Hún er aukin skattbyrði um tæplega 20%, hæstv. fjmrh., í raunverulegri aukinni skattbyrði á næsta ári hjá þessum hjónum.

Í því frv. sem hæstv. fjmrh. var að mæla hér fyrir kemur í ljós að úrtak úr skattframtölum á árinu 1983 sýnir að af rúmlega 48 þús. hjónum eru 40 þús. með 400 þús. kr. tekjur og meira. Það eru aðeins rúm 9 þús. sem eru innan við 400 þús. Allur meginþorri hjóna er með tekjur yfir 400 þús. kr. Það eru staðreyndirnar, það eru upplýsingarnar frá skattyfirvöldum í landinu. Og skattbyrðin á þessu fólki hækkar, hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. hefur mælt hér fyrir frv. sem eykur skattbyrðina á meginþorra launafólks í þessari borg og um allt landið. Fram hjá þeirri staðreynd getur hann ekki hlaupið, frá þeirri staðreynd getur Sjálfstfl. ekki hlaupið og frá þeirri staðreynd geta þeir félagar, hæstv. fjmrh. og núv. borgarstjóri í Reykjavík, Davíð Oddsson, heldur ekki hlaupið. Á fyrsta árinu sem þeir fara alfarið með skattlagningarvaldið hjá ríkinu og Reykjavíkurborg mun þorri launafólks í Reykjavík þurfa að bera meiri skattbyrði en í áraraðir. Það eru staðreyndirnar, hvað sem líður öllu blekkingartalinu og tilraunum hæstv. fjmrh. til að koma sér framhjá því. Það er athyglisvert fyrir kjósendur þessara tveggja heiðursmanna hér í höfuðborginni að þegar þeir fá í hendur skattlagningarvald ríkisins og skattlagningarvald Reykjavíkurborgar, þá nota þeir það með þeim hætti að auka skattbyrðina á öllum þorra launafólks í borginni. Sama gildir náttúrlega um aðrar byggðir landsins.

Auðvitað er það svo, eins og yfirleitt er með breytingar á skattalögum, að það er alltaf hægt að finna tilvik sem fela í sér lækkun á skatti. Auðvitað er það alltaf svo í okkar margbreytilega þjóðfélagi, þar sem raðast saman ýmsar tegundir fjölskyldna, ýmsar tegundir einstaklinga með eða án barna og á mismunandi tekjustigum, að það er hægt að finna einstaklinga og hópa sem munu á næsta ári bera minni skattbyrði en þeir gerðu nú. Það er vissulega hægt. Það er hægt að fara með radargeisla gegnum þetta kerfi og finna slík dæmi. Það viðurkenni ég fúslega. En sé horft á allan fjöldann, sé horft á þorra launafólksins í landinu, sé horft á tekjur heimilanna sem venjulegt launafólk aflar, þá er staðreyndin sú að skattbyrðin eykst. Ég fullyrði, hæstv. fjmrh., að þegar þetta frv. fær ítarlega skoðun á næstu dögum í þeirri nefnd, sem hæstv. ráðh. óskaði eftir að frv. færi í, þá mun koma í ljós að allur meginþorri launafólks í landinu mun á næsta ári, samkv. þessum tillögum og þeim ákvörðunum sem sveitarfélögin í landinu hafa tekið, annaðhvort búa við óbreytta skattbyrði eða allmiklu meiri skattbyrði á næsta ári en á þessu ári. Hjá venjulegum launafjölskyldum er algengt að annað hjónanna sé með kringum 15–16 þús. kr. tekjur á mánuði og hitt með 25 þús. kr., hvort tveggja langt undir þingmannslaunum eins og hv. alþm. vita, annað með um það bil helming af þingmannslaunum og hitt um það bil 2/3. Ég veit að kollegar

mínir hér í þinginu telja sig ekki hátekjumenn, hvað þá þetta fólk, sem er með 25 þús. kr. á mánuði eða 15–16 þús. kr. Hver verður skattbyrði þessa fólks? Hún verður um 25 þús. kr. Hún eykst ekki bara um 1 eða 2%. Skattbyrði þessa fólks eykst um tæp 20% á næsta ári. Það er veruleikinn, hæstv. fjmrh. Það er hið raunverulega innihald í því skattafrv. sem þú varst að enda við að mæla hér fyrir. Og mikill meiri hluti launafólks í þessu landi er á þessu tekjubili eða þaðan af ofar.

Herra forseti. Það er ekki tilefni til þess hér við 1. umr. þessa máls að fara í gegnum töflur sem sýna þessa mynd mjög glögglega. En ég bendi hv. alþm. á að fara rækilega í gegnum þær töflur, sem Morgunblaðið birtir í dag frá ríkisskattstjóra. Ég hef beðið ríkisskattstjóraembættið í morgun að leiðrétta þessar töflur miðað við tekjuforsendur fjárlaganna, miðað við tekjuforsendur þeirra fjárl. sem hæstv. fjmrh. taldi raunhæf fjárlög, þegar hann mælti fyrir þeim hér fyrir um það bil mánuði og hældist um að þetta væru raunhæfustu fjárlög sem lögð hefðu verið fram í langan tíma. Og varla getur hann mælt á móti því að tekjuforsenda þessara fjárlaga sé óraunhæf. Það væri undarlegt ef tekjuforsenda raunhæfustu fjárlaga væri á einum mánuði allt í einu orðin óraunhæf.

Þá kemur það í ljós, svo að ég nefni nokkur dæmi, að skattbyrði einhleyps og barnlauss einstaklings, sem er með í kringum 200 þús. kr. í árslaun, mun aukast. Er þá ekki tekið tillit til raunhækkunar útsvarsins. Ef henni væri bætt við væri aukningin orðin enn meiri. Hér er eingöngu verið að taka dæmi um þennan mann á grundvelli skatta ríkisins eftir tekjuforsendum fjárlaganna eða m.ö.o. eingöngu farið eftir þeim gögnum sem hæstv. fjmrh. hefur sjálfur lagt fram hér í þingsölum. Þessi einstaklingur er með 200 þús. kr. í árslaun. Skattbyrði hans eykst.

Við getum tekið annað dæmi. Við getum tekið einstætt foreldri sem er með laun eins og fjöldinn allur af verslunar- og þjónustufyrirtækjum hér í borginni borga sínu fólki, 20–23–24 upp í 27–28 þús. kr. á mánuði. Hæstv. fjmrh. var að hæla sér af því að það væri sérstaklega vel gert við barnafólk í þessu frv. En hver er veruleikinn út frá forsendum hæstv. fjmrh. sjálfs? Veruleikinn er að skattbyrði einstæðra foreldra með tvö börn á framfæri sínu eykst á næsta ári og er þá ekki heldur tekið tillit til raunhækkunar útsvarsins. Þegar bætt er við ákvörðun Davíðs Oddssonar og íhaldsmeirihlutans í Reykjavík um að leggja á 11% útsvar á næsta ári, þótt 9% væri raunhæfari tala miðað við óbreytta skattbyrði, væri hér um að ræða stórkostlegt stökk í aukinni skattbyrði hjá þessu fólki.

Þannig er hægt að halda áfram og rekja sig í gegnum þessar töflur og taka dæmi af venjulegum fjölskyldum í þessu landi og skoða hvað verður um skattbyrði þeirra á næsta ári.

Við getum tekið hjón þar sem annar makinn er teknalaus, hjón með eitt barn, 7 ára eða eldra, á sínu framfæri og svipuð mánaðarlaun og ég gat um áðan hjá hinum einstæðu foreldrum með tvö börn. Árstekjur eru í heild í kringum 300 þús. eða rétt rúmlega 25 þús. kr. á mánuði, tæpir 2/3 af þingmannslaunum, og ég endurtek að kollegar mínir telja sig nú ekki almennt vera hátekjufólk. Skattbyrðin á þessum hjónum eykst og er þá ekki heldur tekið tillit til raunhækkunar útsvarsins.

Þannig er hægt að halda áfram, herra forseti. Það er hægt að skoða barnlaus hjón og hjón með börn, sem bæði hafa tekjur af ýmsu tagi. Niðurstaðan er sú, eins og ég gaf um áðan, að þegar skoðuð er skattbyrðin í ár og næstu ár, þá eykst hún.

Við getum tekið dæmi af svipuðu tagi og ég tók áður, þar sem annað hjónanna er með 190 þús. kr. árslaun, sem fást fyrir venjulegt starf fiskverkunarkonu hér í Reykjavík, sem vinnur frá 8 á morgnana fram undir kvöld, og þar sem hitt hjónanna er með, eins og ég gat um áðan, um það bil 2/3 af þingmannslaunum. Skattbyrði þessa fólks eykst líka, óæði þeirra hvors um sig og til samans.

Það er einnig hægt að skoða skattbyrði barnafjölskyldna og miða við hinar venjulegu tekjur. Og þegar skoðuð eru þau hjón sem eru í þeim flokki sem ég nefndi áðan, 40 þús. hjóna í þessu landi, sem eru samtals með yfir 400 þús. eða meira í árslaun, þá eykst skattbyrðin alls staðar hjá þessum hjónum. Og ég endurtek enn á ný: og er þó ekki í þessum útreikningum tekið tillit til raunhækkunar útsvarsins á næsta ári. Sé tekið tillit til þess blasir við að á hjónum, sem hvort um sig er á lægstu tekjumörkum hins almenna vinnumarkaðar í höfuðborginni og út um land, ég endurtek, lægstu tekjumörkum, neðan við þau lágmarkslaun sem verið er að krefjast nú, 15 þús. kr. á mánuði, mun skattbyrðin aukast lítið eitt, — jafnvel á þessu fólki, jafnvel á þeim sem lægst eru settir í launaskalanum.

Ég sé að varaformaður Sjálfstfl. hristir höfuðið. Hann er væntanlega að hrista höfuðið yfir innihaldi þessa frv., sem Sjálfstfl. hefur hér lagt fram og telur að sé frv. um skattalækkun á venjulegu launafólki í þessu landi. Sé hv. varaformaður Sjálfstfl. hins vegar að hrista höfuðið yfir því sem ég er að segja, þá bið ég hann einfaldlega að taka því rólega og skoða gögn málsins í hv. fjh.- og viðskn. þegar þau verða væntanlega lögð öll fyrir hann og hann getur fengið að rýna í þessar töflur, því að ég trúi því varla að þingflokkur Sjálfstfl. hefði samþykkt þetta frv. sem skattalækkunarfrv. ef hann hefði séð öll gögnin í málinu. Ég hef nú enn þá, þrátt fyrir allt, það mikla trú á mannviti og heiðarleika ýmissa manna þar inni að þeir hefðu ekki farið að samþykkja slíkt frv., hafandi öll gögn í málinu, sem frv. um skattalækkun á venjulegu launafólki.

Herra forseti. Þetta frv. lækkar hins vegar allverulega skatta hjá einum aðila í þessu landi. (Gripið fram í.) Já, hjá fjmrh., segir hæstv. fjmrh. Það er rétt. En ekki hjá hæstv. fjmrh. sem fjmrh., heldur þeim hluta hans persónulega efnahags, svo að ég noti nú frægt orðalag, sem gengur undir heitinu Heildverslun Alberts Guðmundssonar. (Fjmrh.: Brennivínsumboðið.) Já, brennivínsumboðið, segir hæstv. fjmrh. Hann veit vel hvaðan aurarnir koma, bæði í ríkiskassann og í hans eigin vasa. Fyrirtækin í þessu landi borga nefnilega allmiklu minni skatta samkv. þessu frv. Ef þetta er skattalækkunarfrv. er það fyrst og fremst frv. um skattalækkun á fyrirtækin og að því leyti er þetta frv. efndir á þeim loforðum sem forusta Sjálfstfl., formaður Sjálfstfl. og ýmsir aðrir talsmenn hans, gaf á fundi Verslunarráðs Íslands nýlega. Þeir boðuðu að skattarnir á fyrirtækjunum yrðu lækkaðir. Það er vissulega stigið spor í þá átt í þessu frv. Það er rétt. En við fólkinu í landinu, launafólkinu í landinu, og sérstaklega þeim sem kosið hafa hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. hér í Reykjavík til Alþingis í þeirri trú að hann mundi lækka á þeim skatta, ég tala nú ekki um þau loforð um að hann mundi afnema tekjuskatt, blasir sú staðreynd að á hans fyrsta skattári mun skattbyrðin hjá þorra launafólks aukast. Þó aðeins sé miðað við þær forsendur einar sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram hér á Alþingi í fjárlagafrv. og í þessu frv., þá er ekki tekið tillit til þess sem samstarfsmenn hans og flokksbræður eru að gera í borgarstjórn Reykjavíkur, er ljóst að um allverulega þyngingu á sköttum er að ræða.

Herra forseti. Verði þetta frv. samþykkt og verði samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur sú till., sem hæstv. borgarstjóri Davíð Oddsson hefur flutt um 11% útsvar á næsta ári, blasir sú staðreynd við Reykvíkingum að þeir tveir menn sem oftar en nokkrir aðrir hafa í kosningum undanfarinna ára lofað Reykvíkingum lægri sköttum, hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson og borgarstjóri Davíð Oddsson, munu bera sameiginlega ábyrgð á því að árið 1984 verður þyngra skattaár hjá Reykvíkingum en í áraraðir hefur gerst. Það er staðreyndin. Það er veruleikinn.

Herra forseti. Ég legg eindregið til með hæstv. fjmrh. að þessu frv. verði sem fyrst vísað til fjh.- og viðskn. svo að þingheimur allur geti fengið að sjá hinn veruleikann sem þetta frv. felur í sér.