07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. hefur þegar verið kynnt með ítarlegum hætti, m.a. í ríkisfjölmiðlum og stærstu blöðum landsins, sem mikil tíðindi. Skattalækkun er boðuð landslýð öllum. Einkum var athyglisvert hvernig fréttir sjónvarpsins í þessu efni voru matreiddar kvöldið sem þetta frv. var lagt fyrir, þar sem aftur og aftur var tekið fram að hér væri um skattalækkunarfrv. að ræða. Eftir að hafa hlýtt á þær fréttir var auðvitað eðlilegt að margur maðurinn hugsaði sem svo að hér væri verið að boða mönnum mikinn fögnuð í tilefni af þeirri hátíð sem nú fer senn í hönd, þegar menn hafa lokið af jólaverkunum hér á hv. Alþingi.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur hins vegar rakið mjög rækilega hvernig í rauninni er reynt að falsa og blekkja með býsna grófum hætti, þegar þetta frv. um breytingu á tekjuskattslögunum er kynnt. Það eru hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. sem ganga þar í broddi fylkingar. Í þeim efnum virðist mér að ríkisstj. njóti ótrúlega náins stuðnings Þjóðhagsstofnunar, og er þá kominn til skjalanna sá aðill sem síst skyldi, vegna þess að allir útreikningar hæstv. ríkisstj. á skattafrv. byggjast á því að laun milli áranna 1983 og 1984 hækki um 20% á sama tíma og fjárlagafrv. ríkisstj. byggir á því að laun hækki í landinu um 14.4%. Þegar greiðslubyrði ársins 1984 er reiknuð út er miðað við hina meiri launahækkun upp á 20%, en ekki hina minni launahækkun upp á 14.4%, sem þó er gengið út frá í öllum útreikningum. Með þessum hætti er reyndar augljóst að ríkisstj. fær miklu lægra hlutfall skatta á greiðsluári en ella væri, ef hún miðaði við hinar raunverulegu launaforsendur. Og staðreynd er það, að engin rök hafa verið flutt fyrir því, sem eru gild, að laun hækki á milli áranna 1983 og 1984 um 20%. Það er ekkert sem liggur fyrir í þeim efnum. Engin rök hafa verið flutt fram í þeim efnum, og það sem meira er er það, að hver maður sér að á síðari hluta ársins 1983 hefur orðið samdráttur í launum og tekjum almennings í landinu umfram það sem hinir bláköldu og beinu launataxtar segja til um, vegna þess að það hefur orðið gífurlegur samdráttur í yfirvinnu hjá ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Þess vegna er með öllu fráleitt að miða hér við að laun hækki um 20%, þegar reiknað er með því í fjárlagafrv. á sama tíma að launin hækki um 14.4%.

Í þessum efnum, virðulegi forseti, er fróðlegt að virða fyrir sér hver er afkoma fjölskyldu launamanns í landinu um þessar mundir. Hefur hinn almenni launamaður, hæstv. fjmrh., afgang eftir efnahagsaðgerðir ríkisstj. til þess að borga meiri skatta en gert er ráð fyrir á þessu ári? Er eitthvað í tekjutölum þessa árs sem bendir til þess að launamaðurinn hafi afgang til að borga hærri skatta? Tökum sem dæmi mann sem í marsmánuði hafði 20 þús. kr. á mánuði, segjum að hann hafi eytt í þeim mánuði 15 þús. kr. í vöru og þjónustu og í sama mánuði hafi hann orðið að greiða af verðtryggðu láni 5000 kr., þannig að endar hafi í marsmánuði með þessum hætti náð saman. Hver er staða sama launamanns í dag? Jú, kaupið hjá honum hefur hækkað úr 20 þús. kr. á mánuði upp í 22 464 kr. á mánuði, þ.e. um 2 500 kr. tæpar á mánuði. Varan og þjónustan, sem hann þarf að kaupa, hefur hins vegar hækkað úr 15 þús. kr. á mánuði í 23 271 kr. á mánuði, þ.e. um 8 þús. kr. á mánuði hefur varan og þjónustan, sem þessi maður kaupir, hækkað á sama tíma og kaupið hans hefur hækkað um tæplega 2 500 kr. Og ef við lítum á þróun skuldarinnar, sem hann var með, verðtryggðrar skuldar í marsmánuði s.l., hann hafi þurft að greiða 5 000 kr. skuld, þá hefur sú greiðsla með þróun lánskjaravísitölunnar á sama tíma farið upp í 7 417 kr. á mánuði, þ.e. í októbermánuði vantar þennan mann til þess að borga sömu neyslu, sömu þjónustu og sömu verðtryggðu skuldina og í mars 8 224 kr. Á þessu tímabili, sem hér er um að ræða, hefur þessi maður frá mars til október fengið í laun 168 þús. 864 kr. alls. Hann hefði þurft að borga í vöru og þjónustu, miðað við sama neyslustig og í mars, 155 þús. 306 kr. Hann hefði þurft að borga af verðtryggða láninu, ef hann hefði gert það með sama hætti í hverjum mánuði og í mars, 49 964 kr. Hann vantar eftir þessa mánuði 36 þús. 406 kr. Og ég segi: Þessi maður, þessi einstaklingur, er dæmi um þúsundir Íslendinga sem á þessu ári hafa orðið að taka á sig meiri kjaraskerðingu á unna vinnustund en nokkur önnur dæmi eru til um.

Að undanförnu hafa hæstv. ráðherrar og talsmenn ríkisstj. gjarnan látið að því liggja og haldið um það hjartnæmar og langar ræður að hitaveiturnar, að fyrirtækin, að útgerðirnar, frystihúsin, sveitarfélögin og allar þessar stofnanir byggju við þröngan og erfiðan kost, sem hefði verið búinn þessum ágætu fyrirtækjum af fyrrv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstjórnum. Hvernig stendur hins vegar fyrirtækið sem er grunnfyrirtækið í þjóðfélaginu sem allt hvílir á, heimilið sem hinn almenni launamaður sér fyrir með vinnu sinni, núna? Væri ekki ráð að fá um það umr. hvernig það fólk er nú á sig komið sem ríkisstj. hefur búið þá kjaraskerðingu sem ég var að rekja áðan? Hér er auðvitað ekki bara um kaldar tölur að ræða, tölur sem menn lesa út úr löngum talnadálkum, heldur birtist sá vandi fólki í margvíslegum félagslegum erfiðleikum sem eru að brjótast út um þessar mundir sem sjúkdómseinkenni á mörgum sviðum okkar þjóðfélags.

Það er engin tilviljun að einmitt um þessar mundir eru lengri biðlistar hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar en nokkru sinni fyrr. Það eru herir ríkisstj. Það er það fólk sem skorturinn hefur rekið af stað til að biðja um lítilræði til að geta haft fyrir allra brýnustu nauðsynjum eins og mat í þessum mánuði. Það er skorturinn sem er sestur í skömmtunarstjórasætið á heimilunum í landinu á sama tíma og ríkisstjórn Íhaldsins og Framsfl. heldur því fram að nú eigi allt að vera frjálst, gjaldeyrisverslunin frjáls, bankaútibúin frjáls, allt sem allra frjálsast. Á sama tíma og þetta er svona er það skorturinn sem skammtar á alþýðuheimilunum í landinu, vegna þess að um leið og fjármagninu er búið aukið frelsi þrengir að hinum almenna launamanni sem hefur ekki afl til að verja sig fyrir þessum árásum nema hann beiti afli samtaka sinna. Og að því hlýtur að koma fyrr en seinna.

Hæstv. ríkisstj. heldur því hins vegar fram í sínum málflutningi að þessi launamaður, sem svo er kominn eins og ég hef hér rakið, megi bara þakka fyrir að vera með þetta lága kaup, vegna þess að hann geti í raun og veru sætt sig við að verðbólgan sé komin svo mikið niður og það leysi allan vandann og borgi væntanlega matarreikningana á alþýðuheimilunum í jólamánuðinum, þessar verðbólguspár þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar og Steingríms Hermannssonar, að það sé það sem fólk eigi að leggja sér til snæðings á hátíðinni. Og þegar verið er að tala um hvað fólk megi vera fegið og þakklátt fyrir hina ört lækkandi verðbólgu býður hver öðrum betur. Fyrst kemur hæstv. forsrh. og segir: Þetta er gott. Annars hefði verðbólgan verið 120% og öll fyrirtækin lokuð. Svo kemur hæstv. landbrh. á einhverjum fundi og lýsir því yfir: Þetta er frábær staða því annars hefði verðbólgan verið 150%. Menn mega þakka fyrir því nú er hún komin niður í þetta. Svo kemur hæstv. utanrrh. og býður enn þá betur og segir: Menn mega sérstaklega þakka fyrir að hafa þetta lága kaup, vegna þess að annars væri verðbólgan 150–160%. Og svo kemur varaformaður Sjálfstfl., 2. þm. Reykv., og segir hér í ræðustól: Þetta er alveg sérstakur árangur sem ríkisstj. hefur náð í verðbólgumálum, því annars væri hún 200%. Menn mega þakka fyrir að fá þó þetta lága kaup, því annars væri verðbólgan 200%. Og alþýðan í landinu á að beygja sig í duftið og kvaka og hlakka í þúsund ár yfir því að verðbólgan skuli ekki vera 200 eða 300% eða hvað það nú er sem þeim þóknast að nefna næst þegar þeir fara að yfirbjóða hvern annan í þessum verðbólgutölum.

Staðreyndin er sú, að það hefur oft áður tekist á liðnum árum og áratugum að ná verðbólgu niður um skemmri tíma mjög verulega og eins mikið niður og nú er verið að tala um. Ég vil t.d. minna á að á árinu 1981, á fyrri hluta þess árs, fór verðbólguhraðinn um skeið niður fyrir 30%. Og ég vil minna á það í þessu sambandi, að í árslok 1978 og byrjun ársins 1979 fór verðbólguhraðinn niður í u.þ.b. 22% á ársgrundvelli. En verðbólgan æddi upp aftur, vegna þess m.a. að það eru undirliggjandi í efnahagskerfinu dýrtíðarvaldar sem núv. ríkisstj. hefur ekki snert á. Það eru þeir aðilar í þjóðfélaginu sem heimta sitt hvað sem tautar og raular, burtséð frá því hvort til er verðmætasköpun á bak við slíkar kröfur eða ekki. Það er ekki verkalýðshreyfingin sem þar er fremst í flokki. Það eru milliliðirnir og atvinnurekendasamtökin sem um þessar mundir leggja áherslu á að hirða sitt hvað sem líður verðmætasköpuninni í samfélaginu. Það er þetta sem er dýrt og það er þetta sem veldur verðbólgu í þessu landi. Það er of lítið sem til skiptanna er, miðað við þær miklu kröfur sem fjármagnsöflin í landinu gera til þessa stjórnkerfis og þessa þjóðfélags. Frekjan í fjármagnsöflunum er að sliga íslenska þjóðarbúið. Núverandi ríkisstj. gerir sér hins vegar enga grein fyrir því, heldur afgreiðir fjármagnsöflin og frekju þeirra og yfirgang svo að segja á færibandi.

Núv. ríkisstj. státar af því að hún hafi náð verðbólgunni býsna mikið niður, eins og ég hef hér rakið. En hver er staðreyndin um þá verðbólgu sem var þegar fráfarandi ríkisstj. fór frá? Ef litið er á vísitölu framfærslukostnaðar og þróun hennar frá 1. maí 1982 til 1. maí 1983 er um að ræða hækkun sem nemur 83.7%. Það er sú hækkun á vísitölu framfærslukostnaðar sem um var að ræða í tíð fráfarandi ríkisstj. Og hún skildi við mikinn verðbólguhraða. En af hverju skyldi það nú hafa verið sem svo fór, að fráfarandi ríkisstj. lét eftir sig mikinn verðbólguhraða? Það var m.a. og sérstaklega vegna þess að hún studdist við mjög veikar stoðir á parti. Þannig var, að þegar ríkisstj. var mynduð voru ákveðnir tveir einstaklingar í Sjálfstfl., Albert Guðmundsson núv. hæstv. fjmrh. og Eggert Haukdal. hv. þm., sem sögðust styðja ríkisstj. Þegar kom fram á árið 1982 og hinn ægilegi vandi blasti við íslenska efnahagskerfinu svikust þeir undan merkjum. Þeir höfðu ekki þrek til að takast á við vandann. Þeir voru ekki reiðubúnir að glíma við þann vanda sem um var að ræða í efnahagslífinu. Og niðurstaðan varð sú, að fráfarandi ríkisstj. bjó við sjálfheldu svo að segja allt s.l. ár í þessu efni og fram á þetta ár. Stuðningur þessara einstaklinga varð þeirri ríkisstj. dýr að lokum, það er rétt. En það skulu menn skilja, áður en þeir setja punkt við þessa sögu, hvernig á því stendur að hún fór svo sem raun ber vitni um. Og í þeim efnum má hæstv. fjmrh. gjarnan rita nokkur orð í sína ævisögu og pólitísku afrekaskrá, því hann er að glíma í núv. ríkisstj. við sitt eigið pólitíska þrekleysi.

Í þessum efnum er það og svo, að núv. hæstv. fjmrh. hefur frekar en allir aðrir ráðh. verið með stórfelldar yfirlýsingar um að hér væru nú skattarnir að lækka og það væri hans höfuðstefna og mið og tilgangur með öllu því pólitíska puði, sem hann hefur tekið þátt í um árabil, að lækka skattana, leyfa einstaklingunum að nota sitt sjálfsaflafé, eins og það heitir í hinum lærðu ályktunum Íhaldsins, láta ekki hina opinberu krumlu vera að róta mikið í launaumslögum almennings. Nú hefur hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson, hinn mikli leiðtogi skattalækkunarinnar, fengið sitt gullna tækifæri til að sýna þingi og þjóð hvað hann raunverulega getur og hvað hann vill. Það er búið að liggja yfir þessu frv. langtímum saman hér og þar af efnahagsnefnd Sjálfstfl. og sérfræðingunum upp í fjmrn. Geir Haarde hefur sjálfsagt kallað saman fundi í Valhöll og víðar og víðar hafa menn borið sig saman um hvernig ætti að fara að því að lækka skattana. Og svo tók fjallið jóðsótt og það fæddist þessi mús. Þetta er nú meiri útkoman!

Árið 1983 er merkilegt fyrir margt, en ekki síst verður það merkilegt fyrir það, að hér eru á ferðinni einhver stærstu kosningasvik sem sögur fara af, og er þá langt til jafnað. Þegar þetta frv. er skoðað, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti á áðan, felur það í sér, að meðtöldum áformum Davíðs Oddssonar borgarstjóra Íhaldsins, stórfelldar skattahækkanir á því fólki sem um er að ræða, hér í Reykjavík alveg sérstaklega. Og það er alveg sama hvernig þetta er skoðað. Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman yfirlit um þetta efni. Þar kemur fram að skattar til ríkisins á árinu 1984 eigi að vera 2 457 millj. kr. alls og það sé óbreytt skattbyrði sem hlutfall af tekjum greiðsluárs, og þá er miðað við að launin hækki um 20% á milli ára. En auðvitað á í þessum efnum að miða við launahreyfingu upp á 14.4%, eins og gert er í fjárlagafrv. Ef það er gert ætti þessi skattasumma að vera 2 334 millj. kr. M.ö.o.: Með þessum bókhaldsblekkingum eru hrifsaðar til ríkisins aukalega 123 millj. kr. Þetta er gert í trausti þess að menn sjái ekki í gegnum fortjald blekkingarinnar.

Það er líka fróðlegt í þessu efni, herra forseti, að athuga hvernig skattar koma út sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á þessu ári og því næsta, því það segir sína sögu. Til innheimtu á þessu ári eru, samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun í gær, 3 570 millj. kr. Það gerir 5.8% af vergri þjóðarframleiðslu, og þá reikna ég með því að verg þjóðarframleiðsla sé 62 milljarðar. Þá er ég búinn að lækka þá tölu frá þjóðhagsáætlun með tilliti til þeirrar spár sem Þjóðhagsstofnun hefur gert eftir að „svarta skýrslan“ birtist. Með þessu móti verða innheimtir skattar eða skattar til innheimtu, eins og það heitir, 5.8% af þjóðarframleiðslu á næsta ári. Og hvernig er það á þessu ári? Eru það 5.8%? Niðurstaðan er sú, að til innheimtu eru skattar á þessu ári, samkv. fjárlögum, upp á 5.4% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta er m. ö. o. hækkað sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu upp á 0.4%, sem er stór tala vegna þess að við erum hér að miða við grunntölu þjóðarframleiðslu upp á 62 milljarða kr. Þetta á að taka aukalega í ríkissjóð á því ári þegar launafólkið er eins á sig komið og hefur orðið fyrir eins mikilli kjaraskerðingu og ég hef hér rakið. Það bendir sem sagt allt til þess, að skattar til ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verði hærra hlutfall en áður og að greiðslubyrðin verði hærra hlutfall af launum en verið hefur.

En með þessu er ekki öll sagan sögð, því að til viðbótar kemur svo sú staðreynd að sveitarfélögin geta auðvitað sagt eins og ríkið og eins og fyrirtækin, að þau geti ekki lækkað eða dregið úr sinni skattheimtu. Niðurstaðan verður svo sú, þegar sveitarfélögin eru búin að hirða sitt, að skattheimta á árinu 1984 yrði að mati Þjóðhagsstofnunar, ef notaðar verða sömu heimildir í einu og öllu og 1983, 800 millj. kr. hærri en á þessu ári. Það er ljóst að einhver sveitarfélaganna munu ganga skemmra í innheimtu og álagningu útsvars en þetta, en það er alla vega greinilegt, þegar þessar tölur eru skoðaðar, að álagðir skattar verða alls hærra hlutfall af tekjum greiðsluárs 1984 en þeir hafa verið undanfarin 10 ár. 1974 voru skattar 10.4% af tekjum greiðsluárs, 1975 11.7%, 1976 12.8%, 1977 10.8%, 1978 12.4%, 1979 13.1%, 1980 12.9%, 1981 12.4%, 1982 — bráðabirgðatölur — 12.9%, 1983 12.5%. Ef álagningar verða eins og flest bendir til nú er mjög ólíklegt að heildarskattabyrðin af tekjum greiðsluárs verði minni en 14%. Og jafnvel þó að einhver sveitarfélaganna reyndu að keyra þessa tölu niður vegur Reykjavík það þungt í þessu efni að heildarálagning skatta sem hlutfall af tekjum greiðsluárs verður hærri 1984 en nokkru sinni í 10 ár. Þetta eru skattalækkunarloforð hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar og Davíðs Oddssonar, borgarstjórans í Reykjavík.

Hinir miklu riddarar skattlækkunarinnar hafa gengið fram á sviðið og sýnt hvað í þeim býr. Þjóðin veit hvar hún hefur þá, þessa pilta. Og útkoman er þessi: Skattahækkun meiri en nokkru sinni hefur verið, jafnvel hjá hinni illræmdu síðustu ríkisstj. Hvað ætli þeir félagar úr íhaldsflokknum, Sjálfstfl., hafi haldið margar ræður hér á þingi um skattpíningu síðustu ríkisstj.? Hvað ætli þær hafi verið margar og langar og ítarlegar þær ræður sem þar var um að ræða? Í þeim efnum var fjargviðrast yfir því að fráfarandi ríkisstj. hefði lagt á nýja skatta upp á hundruð og aftur hundruð millj. kr. Hún lagði á nýja skatta vegna þess að hún tók við slæmu búi. Ríkissjóður var á hausnum eftir Matthías Á. Mathiesen. Þannig er það auðvitað þegar Íhaldið tekur að sér að stjórna ríkissjóði. Það er eiginlega regla að þá segja menn sig á framfæri Jóhannesar Nordals, og má segja að það komi vel á vondan þar sem er núv. fjmrh. staðan var þannig að fráfarandi ríkisstj. varð, fyrir utan það að greiða aukna samneyslu og stóraukna fétagslega þjónustu, að afla tekna líka til að greiða upp skuldirnar sem fráfarandi ríkisstj. hafi skilið eftir sig.

Í ræðum þm. Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili, ég hugsa allra, voru endurteknar yfirlýsingar um það, að þegar þeir kæmust nú loksins að mundu þeir afnema vinstristjórnarskattana. Í málflutningi þeirra í opinberum skjölum, kosningaáróðri og dagblöðum m.a., kom þetta aftur og aftur fram. Þeir ætla sér að afnema vinstristjórnarskattana, var sagt. Og þeir lofuðu að sjálfsögðu líka, um leið og þeir lofuðu því að afnema vinstristjórnarskattana, að stórauka félagslega þjónustu. Þeir ætluðu t.d. að margfalda framlög í Byggingarsjóð ríkisins og vinna hvers konar þarfaverk önnur fyrir þá skatta sem þó átti að skera stórlega niður. Þetta er auðvitað allt svikið, blásið á þetta eins og kusk sem aldrei hafði verið til. Eftir stendur það, að Sjálfstfl. hefur með framlagningu þessa frv. í rauninni sýnt meiri ósvífni gagnvart kjósendum sínum en nokkur dæmi eru til um áður.

Ég hef hér, herra forseti, rakið nokkur atriði sem tengjast þessu skattafrv. Frv. sjálft er einfalt. Það er aðeins tíu greinar og því fylgja nokkrar skýringar. En gjarnan hefðu mátt fylgja frv. töflur og skýrslur frá Þjóðhagsstofnun varðandi heildarskattbyrði sem ég var að rekja áðan. Einhverra hluta vegna hefur hæstv. ríkisstj. ekki treyst sér til að dreifa þeim skýrslum sem þskj. og er bersýnilegt að hv. fjh.- og viðskn. verður að taka það ómak af fjmrh. að dreifa því plaggi frá Þjóðhagsstofnun sem þskj. Ef hv. fjh.- og viðskn. vill hins vegar ekki dreifa þessu plaggi Þjóðhagsstofnunar sem þskj., þannig að það komi fyrir augu alþjóðar, er ég sannfærður um að minni hl. í fjh.- og viðskn. er reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til þess að þjóðin megi sjá hvaða skattbyrði er hér verið að leggja á fólkið í landinu.

Við samningu þessa frv. hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að hækka einstaka þætti skattanna og breyta þeim mjög mismunandi mikið. Það hefur t: d. verið tekin ákvörðun um að persónuafsláttur hækki hlutfallslega miklu meira en skattþrepin sjálf. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að miðað við forsendur þess verði greiddur 25% skattur af tekjum upp að 107 þús. kr. Ef þetta skattþrep hefði verið ákveðið eingöngu með tilliti til verðbólgunnar og áætlunar um hana milli áranna 1983 og 1984 hefði þessi tala ekki átt að vera 25% heldur 19.5% samkv. upplýsingum sem ég hef undir höndum. Og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að útskýra hvernig stendur á því að neðsta álagningarþrepið er þetta miklu hærra en vera ætti ef allar forsendur fjárlaga og þessa skattafrv. eru hafðar í heiðri. Mér er ljóst að að einhverju leyti er það hér á ferðinni að ríkisstj. breytir persónuafslætti og barnabótum þeim mun meira til samræmis við þessar lagfæringar, en það er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. útskýri það hér sjálfur hvernig á því stendur að hann leggur það til að hérna er um mismunandi prósentur að ræða. Fyrsta skattþrepið, 25%, er mun hærra ... (Fjmrh.: 23%.) 23%, já. (Fjmrh.: Miðað við 170, en ekki 107.) Já, 170, eins og það er núna. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir. Þessi tala, sem nú er 23%, ætti að vera 19.5%. Ég mundi vilja fá skýringar á því hjá hæstv. fjmrh. sjálfum, hvernig á því stendur að þessi tala er ekki 19.5%, heldur 23%. Hún ætti að vera 19.5% ef allar forsendur fjárlaganna og skattafrv. væru hafðar með, en í staðinn er valin hér 23%. Ég fer fram á að hæstv. fjmrh. rökstyðji sjálfur úr stólnum af hverju hann hefur ákveðið prósentuna á þennan veg. Hið sama á við um aðra þætti í þessum skattþrepum.

Ég hef hér, herra forseti, farið yfir nokkra þætti í sambandi við þetta frv. og að viðbættum þeim einstöku dæmum sem hv. 7. þm. Reykv. rakti er greinilegt að við Alþb.-menn teljum að hér sé um að ræða mjög gallað frv. að mörgu leyti, sem þurfi ítarlegrar athugunar við. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann heldur fast við þá kröfu sína að frv. verði afgreitt fyrir áramót. Það er auðvitað iðulega svo, að frv. af þessum toga hafa ekki verið afgreidd fyrr en kemur eitthvað fram á veturinn. Samkv. þeim forgangslista sem ríkisstj. lagði fyrir í gær, 2. útgáfu — en ríkisstj. hefur lagt fram eina útgáfu á dag af þessum forgangslista er gert ráð fyrir að þetta tekjuskattsfrv. verði afgreitt. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann haldi fast við að þetta frv. verði afgreitt og óska eftir því að hann svari því í lok þessara umr., því það er greinilegt að það verður að afla margvíslegra upplýsinga áður en lengra er haldið með meðferð þessa máls. Það hefði verið eðlilegt að ríkisstj. hefði með frv. látið prenta margs konar fskj. um áhrif þessara skattabreytinga á fjárhag heimilanna í landinu. Ríkisstj. hefur látið það undir höfuð leggjast. Það er óhjákvæmilegt fyrir stjórnarandstöðuna að fara fram á ítarlegar upplýsingar um hvernig þessi skattstigi og skattabreyting kemur út fyrir einstakar fjölskyldur í landinu, þannig að það sé sem ljósast hvað hér er verið að gera. Sérstaklega væri fróðlegt að fá að heyra það frá hæstv. fjmrh. hvernig á því stendur að hann kýs að fara þá leið að fyrsta skattþrepið er ákveðið 23% en ekki 19.5, eins og vera ætti að óbreyttum öðrum efnahagsforsendum í kringum þetta frv.

Ég tel, herra forseti, að í rauninni sé nauðsynlegt að ræða þetta mál miklu ítarlegar en hér hefur verið kostur á enn þá. En málið á eftir enn frekari meðferð í þinginu, þannig að ég skal láta máli mínu lokið að sinni. En ég tel að þetta mál þurfi mjög vandlegrar skoðunar við og að það eigi að líta á þetta mál með bakgrunn í kosningafyrirheitum hæstv. fjmrh. og átta sig á því, með hvaða hætti hann kýs að efna þau stóru loforð sem hann gaf fyrir kosningarnar ásamt einkavini sínum, Davíð Oddssyni borgarstjóra, sem núna hefur ákveðið að leggja skatta á Reykvíkinga upp á 11% í útsvari, þó að í raun hefði þurft að fara enn neðar með útsvarstöluna til að raunútsvar hefði verið það sama 1984 og var 1983 í höfuðstað landsins.