07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar fjárlagafrv. var kynnt á sínum tíma bentum við fulltrúar Alþfl. og fleiri stjórnarandstæðingar hæstv. fjmrh. á það í allri vinsemd, að það dæmi að stórauka tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti eins og þar væri gert ráð fyrir, að auka þær um 28% milli áranna, gæti ekki komið heim og saman við það loforð, sem jafnframt var í aths. með frv., að skattbyrði skyldi haldast óbreytt. Þetta er nú komið fram svart á hvítu í því frv. sem hér er til umfjöllunar. Enn er því haldið fram í framsögu með þessu frv. að skattbyrðin aukist ekki. Í rauninni þarf engum blöðum um það að fletta, og ég vísa þá aftur til umr. um fjárlögin, að skattbyrðin muni aukast. En það vill reyndar svo til að menn geta flett upp í Morgunblaðinu til þess að ganga úr skugga um það að skattbyrðin eykst. skattbyrðin eykst hjá nær öllum þeim sem greiða skatt á annað borð. Það er sama hvar gripið er niður í útreikninga ríkisskattstjóra miðað við þær forsendur sem hann gefur hér, og ég skal víkja að því hér á eftir, það er nær sama hvar gripið er niður í þá útreikninga, alls staðar og ævinlega kemur það fram að skattbyrði muni aukast hjá nær öllum þeim sem greiða skatt á annað borð. Tölurnar eru kannske sumar sakleysislegar. Það hækkar úr 10.5% í 11.5% eða úr 17.3 í 19.42%. Þetta sýnist kannske ekki mikill munur. En allt er það upp á við hjá nær öllum þeim sem um er að ræða.

En þegar þessar tölur eru skoðaðar eilítið nánar kemur í ljós hvað í rauninni sé um að tefla. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að taka bara eitt af þessum dæmum sem ríkisskattstjóri er með og líta á það eilítið nánar. Ég vel tiltölulega einföld dæmi en það sama mun gilda að því er önnur varðar.

Hér er dæmi af einhleypum barnlausum karli eða konu sem hefur 250 þús. kr. í vergar tekjur á árinu 1983. Þetta þýðir það að meðaltekjur þessa manns á yfirstandandi ári hafi verið 20 800 kr. á mánuði. skattur hans er skv. útreikningum ríkisskattstjóra 21 156 kr. sem hann á að greiða á þessu ári. Þessar 20 833 kr. sem hann hafði að meðaltali á mánuði svara til þess að hann ætti núna, þennan mánuðinn, — ég tel það nefnilega mikilvægt að menn hafi tækifæri til að bera saman við stöðuna eins og hún er núna — að hafa 22 800 kr. laun, nokkru hærra vitaskuld heldur en meðaltalið, vegna þeirra launabreytinga sem hafa orðið á árinu. Þetta svarar til þess að á þessu ári, um þessar mundir, er skattur mannsins tæplega 93%, réttara sagt 92.7% af mánaðartekjunum. Ársskattur mannsins er 92.7% af mánaðartekjunum um þessar mundir.

Hvernig stendur svo þessi maður á næsta ári? Við skulum segja að meðalhækkunin milli ára verði 20% eins og ríkisskattstjóri gerir ráð fyrir. Þá ættu tekjurnar að verða 25 þús. kr. á mánuði að jafnaði á næsta ári. Skv. útreikningum ríkisskattstjóra verður skatturinn þá 26 650 kr. Það sem hefur gerst er það að skatturinn er orðinn hærri, ársskattur mannsins er orðinn hærri en mánaðartekjurnar. Þetta er augljóst, miðað við allar forsendur eins og þær eru settar fram hjá ríkisskattstjóra. Í stað þess að hann sé 92.7% er hann kominn upp í 106.6%. Ég held að ég geti ekki með einfaldari hætti bent á það að skattbyrðin sé augljóslega að aukast. Sú tala sem sýnd er og virðist sakleysisleg, að hækkunin sé úr 8.46% upp í 8.88%, hefur samt þessi áhrif, miðað við tekjurnar núna og miðað við þær tekjur sem ríkisskattstjóri gerir ráð fyrir, sjálfsagt skv. forsögn frá hæstv. fjmrh., að maðurinn verði með á næsta ári. Ársskattur mannsins, skatturinn yfir árið hækkar úr því að vera 92.7% af mánaðartekjum hans eins og þær eru um þessar mundir upp í það að verða 106.6%.

Nú er ekki víst að tekjuaukningin verði 20% milli áranna. En skattstiginn á að gilda engu að síður. Ef umræddur maður væri meðal þeirra opinberu starfsmanna sem fengju 16% hækkun, sem eru reyndar efri mörkin á því sem fram kemur í forsendum fjárlagafrv. að geti komið til greina um árshækkun milli ára, ef hann fengi 16% hækkun yrðu þessi 92.7% komin upp í 110%.

En svo segja aðrir, t.d. hæstv. iðnrh., og mér skilst að hæstv. fjmrh. hafi tekið undir það, að það sé ekkert svigrúm til launahækkana. Segjum svo að maðurinn verði að búa við óbreyttar tekjur a.m.k. eitthvað framan af árinu. Þá hækkar þessi tala, 92.7, sem við getum tekið sem eins konar vísitölu, miðað við hvernig þetta stendur núna, upp í 126. Þetta er málið í hnotskurn. Þessi sakleysislega tala, 8.88 í staðinn fyrir 8.46, þýðir þetta, miðað við mánaðartekjur mannsins um þessar mundir. Nú var ég hvorki að taka þann hæst launaða né þann lægst launaða, heldur einhvern venjulegan launamann sem ekkert er of sæll af 21 156 kr. á mánuði um þessar mundir og hefur að undanförnu þurft að taka á sig yfir 100% hækkun á rafmagni og yfir 100% hækkun á hitaveitu eða upphitun. Ég vek athygli á þessu.

Ég tel að sá samanburður sem fylgir þessu frv., að bera saman 54% hækkun skattvísitölu og þetta frv., sé algjörlega óraunhæfur. Hann tekur ekkert tillit til stöðu launþegans, sérstaklega ekki þegar verðbólga fer minnkandi, þegar kaupmáttur fer minnkandi. Útreikningar ríkisskattstjóra eru réttir og ágætir svo langt sem þeir ná. En menn þurfa að lesa í þá, menn þurfa að gaumgæfa þá betur til þess að sjá hvers konar afleiðingar þetta skattafrv. hefur. Það kemur að vísu nokkuð glögglega fram hjá ríkisskattstjóra, en ef við skoðum þetta betur miðað við mánaðartekjurnar sem fólk er með núna, þá verður niðurstaðan þessi sem ég hef verið að lýsa.

Það er sorglegt að hæstv. fjmrh., sem í allt sumar og langt fram á haust talaði um að það væri ein meginlína sem hann hefði og það væri að hækka ekki skatta, skuli nú vera fallinn í þessa gryfju. Ég veit ekki hvort hann hefur verið blekktur, hrekktur eða hvað hefur gerst, en það er augljóst að það sem hann ætlaði sér í sumar og haust og talaði svo ágætlega um á þeim tíma, það er gjörsamlega horfið og svikið með þessu frv. eins og það liggur fyrir. Ég ætla að vona að hæstv. fjmrh. fáist til að líta þetta raunhæfum augum með tilliti til afkomu fólksins í landinu og þeirra loforða sem hann hefur gefið og í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í töflum þeim sem birtar eru í Morgunblaðinu í dag og í ljósi þeirra upplýsinga sem ég hef hér verið að veita.

Það er nefnilega stórmál, herra forseti, að það tækifæri sem ríkisstj. hefur nú, það tækifæri sem Alþingi hefur nú til þess að rétta kjör launafólks í gegnum skattkerfið, verði nýtt, það er stórmál. Það er hörmulegt að horfa upp á það ef það tækifæri á nú að fara forgörðum að rétta hag launafólks að einhverju leyti með aðgerðum í skattamálum, því að það er vísasti vegurinn til að ná einhverjum árangri í þeirri viðureign við verðbólguna sem menn hafa þó átt hér í að undanförnu.

Herra forseti. Það hefur verið mjög takmarkaður tími til að líta á og gaumgæfa þetta frv. til breytingar á skattalögum. Ég hef einskorðað mig við mjög einfalt dæmi og algilt, sem gildir auðvitað alls ekki bara fyrir þennan mann með 250 þús. kr. árstekjurnar á þessu ári, heldur gildir almennt í gegnum allar töflurnar eins og þær liggja fyrir.

Að lokum vil ég einungis segja það, endurtaka og ítreka, að það er ljóst af þessum gögnum að skattbyrði nær allra þeirra sem borga skatta á annað borð er að aukast. Þyngingin er mun meiri í reynd en manni virðist í fljótu bragði. Það sést af tölum ríkisskattstjóra ef~þær eru gaumgæfðar. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðh. að taka þetta mál til endurskoðunar.