07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þessum ummælum hv. 7. þm. Reykv. vil ég byrja á því að taka fram að forseti vill að sjálfsögðu hafa sem allra best samstarf við þm. úr öllum flokkum og ekki síst við stjórnarandstöðuna í heild um það að þingmál megi ganga hér greiðlega fram. Við höfum, forsetar, nú þegar ásamt með formönnum þingflokka átt fundi ekki einu sinni, líklega oftar, um framgang þingmála og verð ég að segja að á þeim fundum hefur yfirleitt verið gott samkomulag um að reyna að vinna þannig að málum hér að áfram þokist þau mál sem eðlilegt er að afgreidd verði nú á næstunni.

Ég vil líka taka fram að það er ekki óeðlilegt að vinnuálagið verði nokkru meira hinar síðustu vikur fyrir jól. Þetta er gamalkunnugt. Og ég vil jafnframt sérstaklega taka það fram að ég óskaði eftir því við skrifstofu Alþingis að þeim boðum yrði komið til þingflokksformanna í gær, og það var reyndar í framhaldi af því sem forsetar hafa rætt við þingflokksformenn, að það væri ljóst að kvöldfundur yrði í Nd. nú í kvöld. Ég held því að hv. 7. þm. Reykv. megi ekki furða sig á því þó að ákveðið hafi verið að halda þennan fund. Hér eru ákaflega mörg mál á dagskrá og að sjálfsögðu vilji minn og vonandi sem flestra að þau megi koma hér fyrir. Ég hef ekki orðið var við það nú í dag satt að segja að ekki hafi verið fullkomlega eðlilega staðið að fundastjórn hér í dag.

Ég tek hins vegar mjög undir það sem hv. 7. þm. Reykv. sagði að það er auðvitað sjálfsagt að setja ofan í við þm., einstaka eða alla í senn, og áminna um að sækja vel þingfundi. Ég skal taka það mál til athugunar. En jafnframt hlýt ég að segja sem er að fundi verður nú frestað kl. 4 og við munum síðan halda þessum fundi áfram kl. hálf níu.