07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er einungis út af þeim misskilningi sem virðist hafa gripið hér um sig. Á fundi forseta og formanna þingflokka á mánudag lá fyrir listi frá ríkisstj. Þessi listi var ákaflega hógværlega unninn og mörg rn. sem ekki lögðu sérstaka áherslu á að koma neinu máli gegnum þing fyrir jólaleyfi. Ég benti þá á að fyrir lægju mál sem hlytu að eiga að vera á listanum og listinn mundi vera ófullkominn. Umræða var t.d. um frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, enda kom það á daginn þegar farið var að kanna málið, að það höfðu orðið mistök við gerð listans. Úr því var svo bætt með skipulegum hætti í gærkvöld og listinn lengdur. Annað var það ekki, herra forseti.