07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég sakna þess reyndar nú, þegar umr. um þetta dagskrármál hefjast á ný hér í kvöld, að þeir hv. þm. sem áður höfðu talað í málinu eru ekki viðstaddir, en meginhluti ræðu minnar verður svar við þeim atriðum sem komu fram í málflutningi þeirra. Reyndar er ég í hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar og hef því tækifæri til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri í nefndinni — og ég fagna því að hv. 3. þm. Reykv. gengur í salinn.

Það var athygli vert að hlusta á þá flokksbræður, skattakónga úr fyrrv. ríkisstj., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykv., þegar þeir ræddu áðan um þá miklu skattahækkun sem þetta frv. mundi leiða af sér að þeirra áliti, ekki síst vegna þess að þessir ágætu hv. þm. eru Íslandsmeistarar í skattheimtu og hafa sýnt fádæma hugmyndaauðgi í því að finna upp nýja skatta, eins og alkunna er. Ég saknaði þess hins vegar áðan, að ekki skyldi vera á þingi nú sá hv. þm. sem þá var fjmrh., hv. þm. Ragnar Arnalds. Ég er ekki viss um að hann hefði getað tekið undir öll þau sjónarmið sem komu fram í málflutningi þeirra tveggja hv. þm. Alþb. sem ræddu um þetta mál fyrr í umr.

Ég ætla ekki, herra forseti, að halda hér langa ræðu. Hins vegar tel ég nauðsynlegt, því að vegna misskilnings eða kannske af ásetningi hafa komið fram ýmis sjónarmið í ræðum þeirra hv. þm., að leiðrétta þann misskilning og koma í veg fyrir að það gerist í þessu máli að fjölmiðlar og auðvitað hv. alþm. telji að undirstöðuatriði í þeirra ræðum séu rétt.

Áður en lengra er haldið er þó rétt að geta þess, að töflur og skýrslur sem liggja fyrir í þessu máli verða væntanlega sendar til hv. nefndar og þar gefst fulltrúum allra þingflokkanna tækifæri til að kynna sér þá útreikninga sem þegar hafa verið gerðir í þessu máli.

Kjarninn í málflutningi þessara tveggja hv. þm. var sá, að tekjur hækkuðu á milli áranna 1983 og 1984 um 14.5%, og vitnuðu þeir í því.sambandi til forsendna fjárlagafrv. Hér er um mjög alvarlegan misskilning að ræða. Eins og ætíð hefur verið gert áður, þar á meðal í stjórnartíð hv. þm. Ragnars Arnalds, er sú tala sem kemur fram í fjárlagafrv. ekki sú sem lögð er til grundvallar þegar bera þarf saman við greiðslubyrði skatta fyrir það ár sem skattalög ná til. Önnur atriði bætast ofan á þá tölu og gera það að verkum að sú undirstöðutala sem við erum að reikna út frá verður um það bil 20% og skal það skýrt nokkru nánar.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, og það stendur skýrum stöfum í fjárlagafrv., að það verði niðurskurður á launalið sem nemur 2.5%. Þannig verður þessi tala strax 17%. Að auki er gert ráð fyrir að launaskrið verði 2%. Ég get nefnt sem dæmi, að á undanförnum árum hefur verið gert ráð fyrir 3%, stundum hærri tölu, sem launaskriði. Þetta er varleg áætlun, 2%, sem bætist við 17%. Þeir sem eru góðir í reikningi, sem ég veit að hv. 3. þm. Reykv. er, átta sig á að þá er talan komin upp í 19. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir 1%, sem bætist við þessa tölu. Þeirri tölu er einnig haldið í lágmarki. Niðurstöðutalan er þess vegna 20%. Það er sú prósenta sem ber að miða við þegar við áttum okkur á tekjubreytingum á milli áranna 1983 og 1984 og er byggð á nákvæmlega sömu forsendum og talan í forsendum fjárlagafrv., 14.5%. Þetta segi ég þessum ágætu mönnum til skýringar. Þeim er auðvitað vorkunn að hafa ekki fyrrv. fjmrh. staddan hér á landinu. Þess vegna kemur það í hlut annarra að leiðrétta þessi mál og er vissulega ástæða til að gera það strax við 1. umr. málsins.

Það er út frá þessu sem hv. 3. þm. Reykv. lætur hafa eftir sér í Þjóðviljanum í dag, og einnig það var rauði þráðurinn í hans ræðu, að við hlytum að borga hærri skatta á næsta ári. Hann segir í blaðaviðtali á forsíðu Þjóðviljans í dag að meginforsenda fjárlagafrv. væri 14–15% kauphækkun, en skattbreytingin á milli ára 20%.

Ég hef nú þegar sýnt fram á og sagt frá því, hvernig þessi 20% eru fundin. Sú tala er ekki fundin með neinum öðrum hætti en ávallt hefur verið gert á undanförnum árum, þar á meðal í tíð fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnars Arnalds.

Það er annað atriði sem kemur fram í málflutningi hv. 3. þm. Reykv. Þegar hann reiknar út skattbyrðina og segir hana aukast miðar hann við innheimtan skatt, en auðvitað á að miða við álagðan skatt, enda er það ætíð gert þegar við viljum bera saman slíkar tölur. Ég kem að því síðar.

Það er kannske best efni málsins vegna að segja frá því, að mér er kunnugt um að hv. 3. þm. Reykv. vissi betur þegar hann sté hér í ræðustólinn. Í gær var honum send frá Þjóðhagsstofnun áætlun um álagningu og innheimtu tekjuskatts. Í þessari áætlun er það rækilega rakið, þannig að hvert mannsbarn getur skilið. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa með þínu leyfi nokkrar setningar úr áætlun Þjóðhagsstofnunar. Þar segir:

„Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að álagning tekjuskatts hækki eins og tekjur milli áranna 1983 og 1984, þ.e. um 20% að viðbættri 1% fjölgun gjaldenda. sömu forsendu er beitt um breytingu barnabóta og persónuafsláttar. Samkv. þessu hækkar álagður tekjuskattur nettó, þ.e. að frádregnum barnabótum og persónuafslætti, úr 1 680 millj. kr. 1983 í 2 milljarða 35 millj. kr. í frv. fyrir 1984 eða um 20% á mann.

Á hinn bóginn er ljóst að eftirstöðvar frá fyrri árum fara vaxandi í hlutfalli við álagðan skatt á árinu og munu vega þyngra 1984 í þeirri heildarsummu sem er til innheimtu eða er kræf á árinu en á þessu ári. Þessi aukna þyngd eftirstöðvanna stafar eingöngu af því, að álagningin 1984 hækkar miklum mun minna samkv. frv. en undanfarin ár. Þetta veldur því jafnframt, að sé miðað við óbreytt innheimtuhlutfall milli áranna 1983 og 1984 hækkar innheimtur skattur meira en álagður skattur. Þetta kemur hins vegar aðeins fram hjá þeim sem skulda tekjuskatt frá fyrri árum, en hjá þeim sem eru í skilum hækkar innheimtan vitaskuld jafnt og álagningin og þar með jafnt og tekjur eftir forsendum frv.“

Er það ekki ótrúlegt að hv. þm. skuli geta stigið í þennan ræðustól án þess að nefna einu einasta orði þær upplýsingar sem hann hafði undir höndum, heldur tekur upp þá iðju að raða saman orðum með svipuðum hætti og hann væri að tala við lesendur Þjóðviljans? Mér finnst nokkuð langt gengið í þessum efnum.

Ég vona að hv. þm. hafi nú skilið hvers vegna hlutfallið hækkar miðað við innheimtuna. Hann á sjálfur þátt í því máli. Það var hann og þeir sem sátu í þáv. ríkisstj. sem lögðu á skatta fyrir yfirstandandi ár. Það eru einmitt þeir skattar sem þyngja hjá skuldurum greiðslubyrðina á næsta ári. Fyrir þá skuldlausu hefur þetta auðvitað enga þýðingu. Um þá launamenn sem greiða jafnaðarlega hugsaði hv. 3. þm. Reykv. ekki neitt.

Þá sté í pontu — reyndar fyrr — Ólafur Ragnar Grímsson, hv. 7. þm. Reykv., og rakti nokkur dæmi og hugðist með þeim sanna að skattbyrðin þyngdist verulega á næsti ári. Hann gekk meira að segja svo langt að halda því fram að skattbyrðin ykist um 20% í nefndum dæmum, sem auðvitað er algjör fjarstæða.

Það var jafnframt athygli vert, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að hann tæki dæmi af tekjum sem hann teldi vera almennar tekjur í landinu, en það eru tekjur fyrir árið 1983, þar sem barnlaus hjón hefðu samtals 490 þús. kr. í tekjur, yfir 40 þús. á mánuði. Það er athygli vert að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skuli upplýsa okkur um að þetta séu mjög svo algengar tekjur hjá öllum almenningi í landinu. stundum hefur hann talað allt öðruvísi úr þessum ræðustól.

Síðan rakti hann þetta dæmi, þar sem hjón eru barntaus og annar makinn hefur 300 þús., en hinn 190 þús., og gerði það auðvitað á grundvelli sinna dæma á sama grundvelli og hv. þm. Svavar Gestsson þar sem aðeins var gert ráð fyrir launabreytingum upp á 14%, sem auðvitað er alrangt því að launabreytingarnar verða samkv. útreikningum og upplýsingum Þjóðhagsstofnunar 20%, reiknaðar á nákvæmlega sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár. Þá kemur það í ljós, að í staðinn fyrir 20%, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson virtist vera svo hrifinn af að nefna, þ.e. hækkun á milli ára, kemur 0.44% hækkun hjá því fólki sem hefur samtals 490 þús. árstekjur árið í ár. Þetta eru öll ósköpin. (ÓRG: Þm. ætti nú ekki að fara með svona rugl.) Ég er sammála þér um að þm. eins og 7. þm. Reykv. ætti ekki að fara með slíkt rugl.

Þessi hækkun er ekki mikil, en það er alveg rétt að fram kemur hækkun upp á 0.44%. Hún verður til vegna þess að aðrir tekjuhópar fá lækkun, þ.e. þeir sem lægri tekjur hafa. Stundum hef ég heyrt hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson koma í þennan ræðustól og þykjast vera málsvari þeirra sem lægri tekjur hafa, en það eru þeir sem njóta ávaxtanna af því að hærri skatturinn kemur fram hjá tekjuhærra fólkinu. Ég vona að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sé sammála mér um að það fólk sem hefur yfir 40 þús. kr. tekjur á mánuði sé sæmilega bjargálna í þessu þjóðfélagi. (ÓRG: Þm. er greinilega enn vitlausari en fjmrh. í þessum tölum.) Ég kippi mér ekkert upp við það að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson segi mig vitlausan. Ég er stoltur af því þegar hann segir slík orð í mín eyru. Það sýnir að hann er að missa stjórn á skapi sínu, aumingja maðurinn, — nema hann hafi verið að tala í símann.

Annað dæmi nefndi hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Það var um hjón sem hefðu sömu tekjuhlutföll sín á milli, en ættu tvö börn. Þar kemur í ljós, ef við miðum við 20% tekjuaukningu milli ára, sem er sú prósentutala sem á að tala um í þessu sambandi, og ég ítreka: byggð á nákvæmlega sams konar útreikningum og hv. þm. Ragnar Arnalds notaði þegar hann var fjmrh., að skattahækkun hjóna með tvö börn er 0.38%. Þetta er aukin skattbyrði, reiknuð af launum á greiðsluárinu.

Að auki skal tekið fram að þessir útreikningar, sem hv. þm. fékk hjá ríkisskattstjóra, eru miðaðir við að eingöngu sé notaður 10% frádrátturinn, en allir vita að frádrátturinn er talsvert meiri. Í því líkani sem notað er við slíka útreikninga er frádrátturinn talsvert hærri vegna þess að menn fá frádregið frá tekjum áður en skattur er á lagður meira en 10% ef þeir eru t.d. að byggja, svo að ég vitni til eins dæmis sem mér er mjög vel kunnugt um og ég efast ekki um að þessir tveir ágætu þm. hv. þekkja jafnframt.

Þessi sjónarmið þurfa að koma fram strax við 1. umr. því að þau sýna svart á hvítu að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þessara tveggja ágætu hv. þm.

Auðvitað er það rétt, að sjálfstæðismenn hefðu viljað sjá meiri skattalækkun í þessu frv. að tekjuskattslögunum sem hér liggur fyrir og er til umr. Aðalástæðan fyrir því að það er ekki hægt er sú, að þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við voru óreiðuskuldir fyrrv. hæstv. fjmrh. með þeim endemum að ekki voru nokkur tök á að laga til í þessum málum. Ríkissjóður var rekinn með svo bullandi halla að þeir sem tóku við og ætluðu sér að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum hafa ekki haft svigrúm til að lækka skatta meira en þetta af þessum ástæðum. Til viðbótar gerist það, sem allir viðurkenna, að þjóðarbúið hefur orðið fyrir áföllum sem gera það að verkum að ríkissjóður fær minna í sinn hlut, — nema þannig sé á málum haldið að haldið verði áfram að flytja miklu meira inn til landsins en út úr því. Á viðskiptahallanum nærðist ríkissjóður fyrst og fremst síðustu misserin sem fráfarandi ríkisstj. sat að völdum hér á landi. Það er staðreynd sem er óhrekjanleg.

Það sem skiptir öllu máli er þetta: Það er reynt í þessu frv. að haga málum þannig, að greiðslubyrði skatta miðað við greiðsluárið sé sú sama að meðaltali og á yfirstandandi ári. Ég get gefið þá yfirlýsingu hér, að lækki tekjurnar á næsta ári, t.d. vegna þess að fiskifræðingar hafi rétt fyrir sér, og við verðum að taka tillit til þess, þá verður frv. að sjálfsögðu breytt þannig að greiðsluhlutfallið verði ekki erfiðara fyrir skattþegnana í landinu. Það munum við hjálpast að að gera ég og hv. 3. þm.... (ÓRG: Fjmrh.) Nei, ég á sæti, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, í fjh.- og viðskn. (Gripið fram í.) Vertu ekki svona leiður þótt ég sé að reka þetta ofan í þig. (Gripið fram í: Hvað er þetta? Þetta er bara merkileg yfirlýsing.)

Það sem skiptir miklu máli og kannske mestu er að við tókum þá ákvörðun, þeir sem bera ábyrgð á þessu frv., að færa lítils háttar til skattbyrðina, þó að hún sé sú sama að meðaltali. Það gerðum við með því að greiðslubyrði þeirra sem hafa hærri tekjur, þ.e. tekjur yfir 450 þús. kr., vex aðeins, en á móti kemur að þeir sem lægri tekjur hafa fá að halda meira eftir sem ráðstöfunartekjum fyrir heimilin. Og þá reka þessir tveir þm. upp skaðræðisóp, þessir þm. sem telja sig vera helstu talsmenn láglaunahópanna hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að tefja lengur þessa umr. Það er ljóst að mikill meiri hluti launamanna, þeirra sem eru á almennum launum, fær skattalækkun nái þetta frv. fram að ganga. Það er óhrekjanlegt. Nokkrir verða fyrir skattahækkun, en það kemur þeim til góða sem lægst hafa launin á næsta ári. Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess að hægt verði í góðri samvinnu við hv. þm. Svavar Gestsson, 3. þm. Reykv., að afgreiða þetta nauðsynjamál fyrir jólaleyfi.