07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Nú hafa menn karpað og eru enn að karpa á hefðbundinn hátt um hækkun og lækkun skatta. Þeir lækka eina mínútuna og hækka aðra svo erfitt er að henda reiður á. Það er vont að finna haus eða sporð og hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Almennt talað bendir ýmislegt til að hérna sé ekki á ferðinni neitt skattalækkunarfrv. Þær upplýsingar sem eru þegar komnar fram í ræðum hér í dag og í dagblöðum, þar sem menn leita sér upplýsinga um þessi mál, benda ekki til að svo sé. Þvert á móti virðist vera heldur um skattahækkun að ræða, enda var kannske ekki við öðru að búast við þær aðstæður í ríkisfjármálum sem menn vita um hér í þinginu og þær ástæður sem ríkja í kringum okkur. Þetta mál fer náttúrlega til hv. fjh.- og viðskn. og fær þar þá umfjöllun sem það þarf og á skilið og ég vona að menn komist til einhvers botns í því þar.

Ríkisstj. er um þessar mundir að framlengja ýmsa skattpósta, sem ganga hérna frá ári til árs, og mér er mjög til efs að tekju- og eignarskattspósturinn verði lækkaður að nokkru marki. En ég held að það sé hollt í þessu sambandi að einblína ekki einungis á prósentur og tekjuforsendur. Menn verða, held ég, að spyrja sig hver sé grundvallarforsendan fyrir svona skattlagningarkerfi, svona stighækkandi tekjuskattskerfi. Grundvallarforsendan með þessu kerfi er jöfnun lífskjara og ef jöfnun lífskjara næst ekki með þessu, þá er réttlæting þessa skattheimtukerfis að verulegu leyti horfin. Ég held að það væri hollt fyrir menn að spyrja sig hvernig gengur að ná þessu markmiði. Við segjumst vilja láta þá lægst launuðu greiða lítið sem ekkert og þá hæst launuðu greiða mest. Síðan viljum við endurgreiða þessa peninga með félagslegri þjónustu, almannatryggingum og öðru og jafna á þann hátt kjörin. En því miður gerist þetta ekki, þetta gengur ekki. Skattsvik eru nefnilega kannske stærsta vandamálið í þessu og miklu stærra vandamál en ein eða tvær prósentur upp eða niður. Og það er alveg sama hvað við höfum góðar reiknireglur og hvað við vöndum undirbúninginn að þessu vel ef þeir sem greiðslugetu hafa svíkjast um að telja fram til skatts og greiða þá skatta sem þeim ber. Þá eru forsendurnar fyrir þessu kerfi brostnar og jafnvel eins gott að leggja það niður. Það er nefnilega svo, að það er fólkið sem er með lægri launin sem er yfirleitt í þeirri aðstöðu, þeirri vondu aðstöðu eins og það er kallað, að þurfa að gefa allt upp til skatts. Þannig er kannske grundvallarforsendan með þessu öllu saman brostin. Þau skattsvik, sem hefur verið talað um áður hér í þessum stól að eru orðin býsna fyrirferðarmikil í þjóðfélaginu, leiða kannske til þess að þetta kerfi, sem á að verða leið til jöfnunar lífskjara, er kannske orðin ein aðaluppspretta og aðalorsök ójöfnuðar í þjóðfélaginu. Því held ég að inn á milli í prósentukarpinu ættu menn kannske að spyrja sig hvort það væri e.t.v. ekki öllum til heilla að velja annan kost af tveimur; annaðhvort að leggja þetta kerfi niður eða beita allri þeirri hugarorku sem menn hafa til að finna leiðir til að tryggja skattskil. Ég held að sú aðgerð væri miklu heilladrýgri þeim lægst launuðu í landinu en það prósentuþvarg sem við erum því miður stödd í núna. Og það er undarlegt að á þessu máli skuli hafa verið tekið með jafnmikilli linkind af öllum þeim ríkisstj. sem hafa haft aðstöðu til að gera eitthvað raunhæft í þessu máli.