07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að fleiri komi í ræðustól og ljúki lofsorði á þá hreysti allsherjarvaramanns íhaldsins, hv. þm. Friðriks Sophussonar, að reyna nú að gera það sem fjmrh. gafst upp við í viðtölum við fréttamenn í dag, að verja það að greiðslubyrði skatta á næsta ári mundi ekki aukast. Þetta reyndi hann hér og lái honum svo hver sem vill eftir frammistöðu hæstv. fjmrh., bæði í ræðustól í dag sem og í viðtölum við fréttamenn.

Að öðru leyti er hv. þm. Friðrik Sophusson nokkurn veginn við sama heygarðshornið og hann hefur verið í öllum sínum ræðum á hv. þingi í vetur, þ.e. hann kann stjórn sinni og stefnu hennar það eitt til málsbóta að segja að hún sé að glíma við vanda fyrri ríkisstj. og fyrrv. ráðh. Hann reynir yfirleitt ekki að færa nein rök fyrir því sem þeir eru að gera heldur skella skuldinni á þá sem á undan sátu. Þessi málflutningur kann að hljóta einhvern hljómgrunn á fyrstu vikum og fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstj., en verður auðvitað slitin plata þegar frá líður. Greiðslubyrði skatta á næsta ári er erfitt að koma yfir á fyrrv. fjmrh. Ekki var nú alveg ljóst við hvern hæstv. fyrrv. fjmrh. hann átti. Mér datt í hug að hann væri að tala um flokksbróður sinn, hæstv. viðskrh. Matthías Á. Mathiesen, skuldakóng ríkissjóðs, þegar hann var að tala um óráðsíu einhvers hæstv. fyrrv. fjmrh., en hann skýrir það kannske betur hér á eftir við hvern af hæstv. fyrrv. ráðh. hann átti.

Það hafa annars komið hingað upp svo margir lærðir menn sem kunna svo mikið af tölum að erfitt er að bæta miklu þar við. Þó finnst mér nokkuð kyndugt að menn skuli þurfa að rífast um það sem stendur á prenti í fjárlagafrv. sem hér hefur legið frammi í þinginu um allnokkra hríð. T.d. stendur þar á bls. 179 í 2. málsgr. að laun opinberra starfsmanna hækka því að meðaltali um 14.5 til 15% milli áranna 1983 og 1984. Þetta stendur svart á hvítu eða brúnt á bláu hvernig sem þetta er nú prentað og ætti ekki að þurfa að misskiljast.

Ljóst er, eða það er a.m.k. mín skoðun, að þau skattstig og þau skattamörk sem hér er verið að ræða um séu ekki há nema þau séu skoðuð í ljósi þeirrar hrikalegu kjaraskerðingar sem orðin er og einnig og enn fremur í ljósi þeirra launaforsenda sem hæstv. ríkisstj. hefur sett. En það ber auðvitað að gera og verður að gera og í því ljósi er hér um að ræða skattpíningu, það er alveg ljóst. Hæstv. fjmrh. setur met, eins og kom fram hér áðan, alveg í fyrstu tilraun, hann verður bara áratugsmeistari og fær sjálfsagt gullmedalíu fyrir. Að öðru leyti vísaði hæstv. fjmrh. málinu til þjóðarinnar í viðtali við fréttamann í dag. Þjóðin er ekki galinn dómari, hún mun að sjálfsögðu kveða upp sinn dóm og ekki aðeins yfir þessu skattafrv. hæstv. fjmrn. Hún mun einnig kveða upp dóm yfir kosningaloforðunum þínum og hún mun kveða upp dóm yfir kosningaloforðum hv. þm. Friðriks Sophussonar. Þá munu þessi loforð og þetta skattafrv., ef það verður samþykkt lítt eða ekki breytt, fá þann hýðingardóm sem þau verðskulda.