20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. velti því fyrir sér hvernig á því standi að hv. Alþfl.-þm. víkja hvorki í tillögugerð, grg. eða framsögu að verði orku til stóriðju. Ég geri nú ráð fyrir að það sé af hlífð við hv. þm. að þeir eru ekki að minnast á þetta lága verð, sem hann mátti búa við alla tíð, og reyndi þó að fást við hækkunaraðgerðir alla: götur frá 1978.

En það mun ekki á skorta að umr. fari fram um þetta efni líka hér á hinu háa Alþingi. Ég hef í undirbúningi og vænti þess að geta dreift til hv. þm. í næstu viku skýrslu um samningsgerð við Alusuisse eins og hún hefur farið fram til þessa frá því að núv. ríkisstj. tók við þessum málum, og ég mun enda gefa skýrslu um þetta og umr. um málið verða alveg á næstunni, þar sem bráðabirgðasamkomulaginu um þetta efni verður dreift.

Ég hafði beðið um löngu áður en fsp. kom fram frá hv. 5. landsk. þm. skýrslu um umframkostnað vegna virkjunar við Blöndu og hún barst mér frá Landsvirkjun 6. okt. Innihald hennar er ekkert leyndarmál, hvorki fyrir hið háa Alþingi né fjölmiðla. Ég verð að segja, að þótt hv. 5. þm. Austurl. kæmi ekkert á óvart í þessari skýrslu, þá kom mér það. Af auðskildum ástæðum kann að vera að hann hafi þekkt betur til hvert stefndi með þá samninga sem gerðir voru við virkjunaraðila af Rafmagnsveitu ríkisins og iðnrn. og heimaaðilum. En að sá umframkostnaður stefndi í 237 millj. kr. kom mér a.m.k. á óvart og þegar hann talar um að ég hendi á lofti ýmis atriði í þessum umframkostnaði, eins og vegagerð o.s.frv., sem sé þáttur af virkjunarkostnaðinum, þá er það ekki mitt mat. Það er mat virkjunaraðila. Þessi vegagerð, sem þarna er tilgreind, er umfram það sem virkjunaraðili álítur að sé eðlileg vegagerð vegna virkjunarinnar sjálfrar. (Gripið fram í.) Öll þessi atriði eru eftir mati Landsvirkjunar, og hennar tæknimenn hafa áreiðanlega jafnmikið vit á þessu og hv. 5. þm. Austurl. þótt ég efist ekki um að hann hafi grúft sig yfir upplýsingar um þessi mál eins og önnur í sinni tíð sem iðnrh. Ekkert af því er búið til af mér eða lagt mat á af minni hálfu. Ég sagði hins vegar á þessum Hafnarfjarðarfundi, að ég gerði ráð fyrir því-það er bara mín ályktun — að eitthvað af því sem þarna er talinn umframkostnaður mundi hafa fallið til enda þótt ekki væri um það sérstaklega samið. Þetta verður allt saman rætt ítarlega þegar fsp. hv. 5. landsk. þm. verður svarað, sem ég vænti að verði á þriðjudaginn n.k., enda hef ég farið fram á það við hæstv. forseta að svo verði gert.

Auðvitað er rétt að það á að bæta tjón sem verður af völdum slíkra framkvæmda, og ég vil leyfa mér að fullyrða að ég mun áreiðanlega gæta þess að svo verði gert og kemur mér raunar á óvart ef það á eftir að verða niðurstaðan að hv. 5. þm. Austurl. reynist meiri eignarréttarsinni en ég. Og auðvitað er mikilvægt að ná fram slíkum framkvæmdum, svo nauðsynlegar sem þær eru, í friði og sátt. En ég veit ekki hvort Blöndumálið er alveg sérstaklega til þess tækt að hafa það sem fordæmi þar sem mönnum hefur tekist að ná fram áformum sínum í friði og sátt, nema þá kannske með þeim hætti sem við höfum nú upplýsingar um, en ég eyði ekki fleiri orðum að.

Ég vil vegna þessarar till., sem hér liggur fyrir til umr., upplýsa að Orkustofnun mun innan tíðar birta skýrslu og yfirlit yfir nýtingu innlendra orkugjafa og þýðingu þeirra fyrir þjóðarhag. Það er líka rétt, sem fram kom í máli hv. 5. þm. Austurl., að margvíslegum upplýsingum hefur verið komið á framfæri við hið háa Alþingi á undanförnum misserum um þetta mál, þannig að menn eiga að vera allir upplýstir. Allt að einu eru þetta það mikilvæg mál að ég mun ekkert til spara að gefa mönnum sem gleggstar upplýsingar um stöðu þeirra og hef út af fyrir sig ekkert á móti því ef það verður niðurstaða hins háa Alþingis að velja til þess sérstaka nefnd að gera úttekt á þessum málum. Ég mun senda hv. alþm. þær upplýsingar, sem um þetta berast, á næstunni, en eins og segir hér í grg. er varpað fram ýmsum spurningum varðandi þetta efni, hvort nægilegs aðhalds og hagsýnis sé gætt um yfirbyggingu orkufyrirtækjanna, þessara risa á íslenskan mælikvarða, Orkustofnunar og Landsvirkjunar. Í því sambandi má benda á að úttekt fer fram og athugun á starfsemi þeirra og rekstri, þannig að þegar það liggur fyrir, væntanlega upp úr áramótum, verður hinu háa Alþingi auðvitað gefin skýrsla um þær niðurstöður.

Þessi till. fer að sjálfsögðu til nefndar, eins og lög gera ráð fyrir. Ef mönnum, að því búnu að upplýsingar hafa verið gefnar eins og ég hef hér talað um, sýnist ástæða til að velja sérstaka nefnd til enn frekari gagnaöflunar um þetta mikilvæga efni skal ég að mínu leyti ekki hafa á móti því.