07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram fyrr hjá mér í dag held ég að liggi alveg ljóst fyrir að hér sé um skattaþyngingu að ræða á milli ára, hvort heldur menn geri ráð fyrir að tekjurnar aukist um 20% eða minna. Það er að vísu rétt, eins og kom fram t.d. í ræðu hjá hv. þm. Guðmundi Einarssyni, að þau gögn sem hann er með í höndunum eru einungis varðandi framtaldar tekjur, þannig að það eru ákveðnir hópar í þjóðfétaginu sem sleppa með öðrum hætti frá þessu dæmi en obbinn af launafólki.

En það er athyglisvert að skoða það í þeim gögnum sem fylgja þessu frv., hvar þyngdarpunkturinn er í hinum framtöldu tekjum. Ef við lítum á hjón eru 23 þúsund þeirra af 48 þúsundum eða u.þ.b. helmingur með tekjur á bilinu 400 til 700 þús. kr. Ef við lítum á einhleypa er fjórðungur þeirra á bilinu 200 til 300 þús. kr. Og ef við lítum á einstæða foreldra er rúmlega helmingur á bitinu 200 til 400 þús. kr. Ef tölur þær sem ríkisskattstjóri hefur reiknað út eru skoðaðar sýnist mér í fljótu bragði að að því er þessa hópa varðar, sem eru stærstur hluti launafólksins, sé yfirleitt um að ræða 1% skattbyrðisaukningu. Það fer niður í sakleysislegri tölur, eins og ég nefndi hér í dag, 0.42 hjá einhleypum, en hjá einstæðum foreldrum er þetta á bilinu 1–2% og sama virðist gilda um hjón á því tekjubili sem hér um ræðir — vel að merkja: samkvæmt þeim útreikningshætti sem notaður er af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. samkvæmt þeim forsendum sem þar eru notaðar.

Nú rakti ég það hér fyrr í dag að svo sakleysisleg hækkun sem 0.42% væri samkvæmt þessu, miðað við tekjur dagsins í dag og þá skattbyrði sem menn bera miðað við tekjur dagsins í dag, veruleg þynging. Nú eru hér stórir hópar sem eru greinilega með helmingi til þrisvar sinnum meiri hækkun á þennan mælikvarða eins og ríkisskattstjóri setur hann. Ég vek athygli á þessu vegna þess að það litla dæmi sem ég rakti ætti þá að koma fram með enn frekari þunga hjá öllum þeim stóra hóp sem ég gerði ekki að umtalsefni, en fær meiri skattþyngingu samkv. útreikningum ríkisskattstjóra en það dæmi sem ég rakti.

Nú hafa talsmenn stjórnarinnar komið hér upp og fullyrt að ekki yrði um skattaþyngingu að ræða. Þá er gert ráð fyrir svo og svo miklu launaskriði, eins og hv. 2. þm. Reykv. gerði ráð fyrir, og það er fyrir fullt og fast reiknað með 20% tekjuaukningu milli áranna. En það er reiknað með meira. Það er reiknað með þeim sem geta nýtt sér ýmiss konar frádráttarliði. En hvers eiga þá hinir að gjalda, sem hvorki hafa launaskriðið né frádráttarliðina, og það held ég gildi einmitt um þann hóp launafólks sem stendur frekar höllum fæti, að það hefur hvorugt, fær hvorki launaskriðið sem með er reiknað né hefur heldur þá frádráttarliði sem verið er að reikna því til góða.

Hjá þessum hópi fólks er staðan þá áreiðanlega eins og ég rakti hér í dag varðandi einhleypan mann með 250 þús. kr. tekjur. Og ég vil rifja það upp, að ég sagði að eins og staðan er í dag yrði ársskattur þessa manns 92.7% á mánaðartekjum. Ef það verður 20% launahækkun milli áranna fer hlutfallið upp í 106.6%. Ef það verður samkv. stefnu hæstv. iðnrh. fer það upp í 126%. Þetta mætti líka reikna út með tilliti til þess hversu marga daga það tæki þennan mann að vinna fyrir sköttunum. Eins og þetta er núna tekur það hann 20.1 vinnudag að vinna fyrir sköttunum. Ef tekjurnar hækka um 20% verður hann að því í 23.1 dag. Þessi maður yrði þá 15% lengri tíma að vinna fyrir sköttunum. Augljóslega er um þyngingu á skattbyrði að ræða hjá þessum aðila sem því nemur. Hann yrði 15% lengur að vinna fyrir sköttunum þótt tekjurnar hækkuðu um 20% milli áranna. Ef þær hækkuðu einungis um 16% yrði hann 23.9 daga að vinna fyrir sköttunum í staðinn fyrir 20.1 dag. Þá færi 18.8% lengri tími í að vinna fyrir sköttunum en er í þessum mánuði. Miðað við 16% hækkun tæki það 18.8% lengri tíma að vinna fyrir sköttunum en núna.

Ef stefna hæstv. iðnrh. næði fram að ganga um engar launahækkanir frá því sem nú er — ekkert svigrúm, hefur hæstv. iðnrh. sagt, og mér skilst að Vinnuveitendasambandið hafi sagt eitthvað svipað, — verður þessi maður 27 daga rúma, 27.3 daga, að vinna fyrir sköttunum í staðinn fyrir 20.1 dag eins og málin standa í dag. Það er 36% lengri tími sem fer í það á næsta ári að vinna fyrir sköttunum en um þessar mundir hjá þessum manni.

Leikur nokkur vafi á því að þessi aðill hefur orðið fyrir verulegri skattaþyngingu? Það liggur alveg í augum uppi að svo er.

Ég heyrði að hv. 2. þm. Reykv. sagði áðan að ef tekjurnar yrðu lægri en svaraði til þeirra forsendna sem með væri reiknað, þ.e. ef tekjuaukningin milli áranna yrði minni en 21%, yrðu skattar lækkaðir. Ég vildi óska þess að hæstv. fjmrh. væri reiðubúinu að gefa yfirlýsingu af þessu tagi — yfirlýsingu sem væri tvímælalaus um að það ætti að lækka skattbyrðina milli áranna hjá öllum þorra launafólks, og þó sérstaklega hjá þeim sem hvorki mættu vænta sér yfirborgana né sérstakra frádráttarliða — hins venjulega skilvísa manns sem hefur ekki steypt sér í skuldir og á ekki þess kost að fá yfirborganir. Vill ekki hæstv. fjmrh. gefa yfirlýsingu af því tagi? Þá mundi það verða veganesti fyrir hv. fjh.- og viðskn. og leiðbeinandi um hvernig ætti að umsteypa þetta frv. þannig að það svaraði þeim markmiðum sem menn hafa haft uppi, en væri ekki, eins og það liggur fyrir nú, veruleg þynging á sköttum þegar svo stendur á sem raun ber vitni í þjóðfélaginu.