07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er framhald umr. sem stóð í hv. d. að mig minnir í fyrradag um frv. til l. um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum. Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa þegar rætt þetta mál allítarlega og það eru ekki mörg atriði sem ég ætla að víkja hér að í mínu máli. Ég tek eindregið undir þá gagnrýni sem fram hefur komið frá stjórnarandstöðunni varðandi þetta frv. og þær smánarbætur sem óhætt er að kalla svo, sem settar eru fram samkv. ákvæðum þess. Í nái. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. var rakið með skýrum rökum um hversu óverulegar upphæðir er hér að ræða, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirrar gífurlegu kjaraskerðingar sem fylgdi setningu brbl. um launamál sem gengu í gildi sama dag og þetta frv.

Það er fyrst og fremst 3. gr. þessara laga sem ég vildi gera hér að umtalsefni, en hún er svohljóðandi: „Ríkisstjórninni er heimilt að verja allt að 150 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum fyrir árið 1983 til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar íbúðarhúsnæðis á því ári. Fjmrh. setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. heyri hér mál mitt. Ef ekki óska ég eftir að hann komi í þingsalinn. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er hér við höndina.)

Hér hefur staðið yfir umr. um skattafrv. nærfellt í allan dag og menn hafa réttilega bent á að þar stefnir í hækkun skatta miðað við tekjur launamanna frá því sem er á yfirstandandi ári. En menn skyldu hafa í huga þegar rætt er um þetta mál, þessar smánar fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum, að í rauninni er sú deila sem hér stendur yfir um 10–20% eða hvað það er mikið sem gera má ráð fyrir að skattar á launafólki hækki á komandi ári ef það frv. til l. sem hér var til umr. áðan yrði lögfest. Það eru óverulegar upphæðir miðað við það sem gera má ráð fyrir að lagt verði á hluta fólks í landinu, þ. á m. launafólks, með hækkunum á orkukostnaði til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

Þegar ríkisstj. setti þessi brbl. hinn 27. maí s.l. bundu ýmsir vonir við að ákvæði þessarar 3. gr. brbl. drægju úr þeim álögum sem fólk hefur þurft að standa undir í sambandi við húshitunarkostnað, bundu vonir við að framhald yrði á þeim ráðstöfunum til lækkunar og jöfnunar á húshitunarkostnaði sem fráfarandi ríkisstj. hafði beitt sér fyrir, ekki síst í ljósi þess að þarna var gert ráð fyrir 150 millj. umfram það sem var í fjárlögum til þess að lækka og jafna húshitunarkostnað í landinu.

En hver hefur orðið reyndin? Hefur þessi upphæð og ákvæði þessara brbl. orðið til að lækka húshitunarkostnað þeirra sem hæstan kostnað bera og greiða a.m.k. 10–12 vikna launa á ári og margir miklu meira, sumir allt að 20 vikna laun og þar yfir, fyrir upphitun á íbúðum sínum? Maður skyldi ætla að nýta hefði mátt þessa upphæð til að lækka kostnaðinn og fjmrh. hefði sett reglur eins og lögin kveða á um til að svo mætti verða. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur og hvernig gekk það nú fyrir sig? Þannig að hæstv. ríkisstj. kepptist við það á fyrstu mánuðum valdaferils síns að hækka gjaldskrár orkufyrirtækja í landinu þannig að þessar 150 millj. kr. eru brunnar upp án þess að til nokkurrar lækkunar komi. Þvert á móti hefur húshitunarkostnaður í landinu hækkað, rafhitunarkostnaðurinn og hitunarkostnaður hjá hinum dýrari veitum í landinu svo mjög að það nemur a. m. k. tveggja vikna launum lágtekjumanns. Og þegar við það bætist að gjaldskrár fyrir almennan heimilistaxta, ljós og eldun hefur hækkað meira liggur fyrir að orkukostnaður meðalheimilis hefur þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þeirra brbl. sem hér er leitað staðfestingar á hækkað um sem nemur mánaðarlaunum lágtekjumanns. Þetta er raunveruleikinn varðandi eitt meginatriðið um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum sem hér er leitað staðfestingar á. Þetta má nú heita samkvæmni í verkum eða hitt þó heldur.

Hér hafa verið til umr. í hv. Ed. Alþingis á undanförnum vikum brbl. sem ég fékk sett um miðjan apríl s.l. þess efnis að ráðh. orkumála hefði heimild til að hafa áhrif á heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar og gjaldskrár annarra orkufyrirtækja í landinu. Í umr. um það mál hefur hæstv. iðnrh. lýst því yfir að hann leiti ekki eftir því að þessi lög verði staðfest og framtengd heldur þvert á móti, svo að við vitum hvað hæstv. ríkisstj. hefur í huga um þessi efni. Hún vill á ný afhenda Landsvirkjun og öðrum orkuveitum sjálfdæmi í sambandi við setningu gjaldskráa sinna svo þær geti haldið áfram mun greiðar en hæstv. ríkisstj. hefur skammtað þeim á undanförnum mánuðum.

Hinn 10. maí eftir kosningar varð um það málamiðlun í fyrrv. ríkisstj. að gjaldskrá Landsvirkjunar hækkaði um 10% og átti það að gilda til júlíloka. Iðnrn. hafði neitað Landsvirkjun um hækkun, en vegna afstöðu hinna stjórnarflokkanna, Framsfl. og ráðh. Sjálfstfl., varð að samkomulagi að gjaldskrá Landsvirkjunar hækkaði um 10%. Síðan komu stjórnarskipti. Hinn 3. júní, um viku eftir að ríkisstj. settist á stóla, var Landsvirkjun heimiluð 19% hækkun gjaldskrár til viðbótar þeim 10% sem veitt höfðu verið og átti að duga umrætt gjaldskrártímabil, til júlíloka. Að því liðnu bað Landsvirkjun um 31% hækkun og fékk hana að fullu. 56% hækkun á heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar er veruleikinn. Afleidd hækkun á gjaldskrám orkuveitna almennt er 38.5% og þrátt fyrir niðurgreiðslur og að 150 millj. hafi verið ráðstafað að ég hygg nær að fullu ef ekki að fullu í auknar niðurgreiðslur, þá hefur húshitunarkostnaðurinn hækkað um 17.4% eða mun meira en þær smánarbætur sem launafólk hefur fengið á þessu tímabili og nema milli 9–10%, þ.e. í tveimur áföngum 8% og 4% eða 10 + 4% á lægstu taxta. Þessi hækkun orkukostnaðarins svarar til mánaðarlauna lágtekjumanns og þá er miðað við fullkominn frágang íbúðarhúsnæðis, ekki húsnæði sem missir orkuna að verulegu leyti út og er illa frágengið, lélegt vegna aldurs eða slæmrar einangrunar. Nei, miðað er við húsnæði, 400 rúmmetra húsnæði, sem eyðir ef olíukynt væri aðeins 13 lítrum á rúmmetra á ári. Og það er ekki sóunarhúsnæði sem hér er miðað við. Og samt er kostnaðaraukinn vegna orkuverðshækkana á tímabili þessarar ríkisstj. sem svarar mánaðarlaunum og svo koma hæstv. ráðherrar hér til að leita eftir staðfestingu á þessum brbl. og hafa á sama tíma gefið út að nú skuli bæta um betur í orkukostnaði heimilanna í landinu. Fyrirtækin, orkuveiturnar eiga að fá að dansa frítt, eiga að fá að verðleggja að vild orku sína óáreittar af ríkisvaldinu, ef ég hef skilið rétt hugmyndir ríkisstj., frá 1. febr. n.k.

„Fjmrh. setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis“ stendur hér í 3. gr. l. Ég hef spurt einu sinni áður í umr. hér á þingi að gefnu tilefni: Hverjar eru þessar reglur sem fjmrh. setur samkv. ákvæði þessara laga? Hefur hann sett reglur um þetta ákvæði? Hverjar eru þær reglur, hæstv. fjmrh., og hvernig skýrir hæstv. ráðh. það að þróun mála verði með þeim hætti sem hér er um að ræða undir heiti frv. sem er Frumvarp til laga um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum og kveðið er á um í l. að húshitunarkostnaður skuli lækka? Ég óska eftir svörum frá hæstv. ráðh. um þetta efni.