07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Varðandi þá stuttu og góðu ræðu sem hv. 3. landsk. þm. flutti verð ég að segja að ég held að reynt sé að láta styrki sérstaklega til þeirra lægst launuðu renna í vasa þeirra lægst launuðu ef þeim á annað borð er ætlað inn í þann farveg. Og engin ástæða er til að ætla að þeir fari sérstaklega í vasa þm. eða barna þm. eins og mér skildist á málflutningi virðulegrar (GA: Þingmenn eiga börn yngri en sjö ára.) Það getur vel verið. Það er nú svo að þm. eru ekki allir ríkt fólk, jafnvel þó þeir hafi kannske tímabundið hærra kaup en þeir eiga að venjast áður en þeir verða þm. og eru kannske í enn þá meiri fjárhagsvandræðum vegna þess að þeir eru komnir út úr sinni atvinnugrein þegar þeir hætta að vera þm. Þetta er eitt af því sorglega við að verða þm., þetta er svo óörugg atvinna.

En við skulum átta okkur á því að við erum ekki að tala um hátekjufólk frá því það verður þingmenn þangað til það hættir starfsaldri. Það er mjög röng hugsun. Þm. eru nefnilega yfirleitt ekkert auðugt fólk. Og ég þekki marga þm. sem ekki gátu farið í fyrri störf vegna þess að þeir höfðu verið í þingmennsku kannske tvö, þrjú kjörtímabil og áttu ekki afturkvæmt í fyrri atvinnugrein og höfðu enga aðra til að snúa sér að. Við skulum átta okkur á því að það eru láglaunamenn, alþingismennirnir líka, ef á heildina er litið. Það er mjög ótrygg staða, það vitum við, hugsa ég, bæði.

Hvað varðar málflutning hv. 5. þm. Austurl. þá er furðulegt hvernig ágætustu menn festast í faginu sem þeir hafa verið í. Það var margt gott að segja um hv. þm. þegar hann var hæstv. iðnrh. og ég var þeirrar skoðunar að hann hefði unnið mjög gott og þarft starf sem nýtist kannske sumt ekki fyrr en náinni eða jafnvel fjarlægri framtíð og ég álít að það hafi verið mjög góð vinna. En það er ekki þar með sagt að allt sé slæmt sem allir aðrir gera. Og ég fagna því að hans beittu skeyti eru ekki gegn frv. sem hér er á dagskrá í heild, heldur aðeins þeim lið sem sneri að hans fagi sem hæstv. ráðh. En ég vil ekki taka undir það að húshitunarkostnaður komi þeim ekki til góða sem hann eiga að fá, jafnvel þótt taxtar hafi hækkað um 17.4%. Það er þó þó nokkur upphæð sem kemur þarna til hækkunar á móti þegar framlagið úr ríkissjóði hækkar úr 35 milljónum í 150. Það er líka þó nokkur hækkun og hún er meiri í prósentum þó að það dreifist á það marga að það kannske lækkar þá krónutölu sem þarf til að mæta þessari 17.4% hækkun á töxtum, það getur vel verið.

En að hér sé um Kleppsvinnubrögð — eins og hann orðaði það — ég veit ekki, það getur vel verið að þetta séu ekki nógu góð vinnubrögð. En hvað má þá segja um fjárlögin sjálf sem áttu að skila 35 millj. kr. í þennan lið? Hvað má segja um fjárlög sem eru byggð á svo röngum forsendum að engir peningar — það veit fyrrv. hæstv. iðnrh. að þegar hann hvarf úr rn. var ekki króna til að reka rn. né í neinum þeim sjóðum sem áttu að vera til að reka rn. og að reka hans rn. út allt árið vegna þess að sú Kleppsvinna sem við var höfð við gerð fjárlaga fyrir árið 1983 var byggð á röngum forsendum og gerði það að verkum að ríkissjóður eða ríkisfyrirtæki og -stofnanir gátu rekið sig fram í apríllok. Það kalla ég ekki góð vinnubrögð.

Og það er það sem ég hef verið að reyna að koma í veg fyrir, þau vinnubrögð líka sem voru viðhöfð í fjmrn., að fjmrh. væri settur í þá aðstöðu sem ég ekki vil vera í, að búa til ný fjárlög frá degi til dags. Það er ábyrgð sem ég vil ekki hafa sjálfur og ég tel að enginn fjmrh. eigi að hafa. Þess vegna hef ég tekið upp allt önnur vinnubrögð og afgreiði ekki aukafjárveitingar einn og sjálfur, heldur með fjvn.-mönnum, hagsýslumönnum og öðrum þeim aðilum sem fara með fjármál og eftirlit með framkvæmd fjárlaga í ríkiskerfinu. Það hefði ég frekar viljað segja að nálguðust Kleppsvinnubrögð en það sem hér er lagt til.

Ég hef vissar áhyggjur. En ég hef þó það traust á kjörnum fulltrúum sveitarstjórna að þeir séu það ábyrgir að þeir fari ekki að hlaupa til og hækka umfram það sem bráðnauðsynlegt er í þjónustustarfsemi sveitarfélaga. Það þarf heimild eignaraðila Landsvirkjunar, þ.e. ríkis og sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar og Norðanmanna núna, til að taka ákvarðanir um gjaldskrárhækkanir. Þó Landsvirkjunarmenn sem rekstraraðilar séu ekki eignaraðilar eru sveitarstjórnarmenn m.a. í stjórn Landsvirkjunar. Og ég held að þeir séu alveg jafnábyrgir og traustsins verðir eins og við sem erum hér kjörnir fulltrúar á Alþingi. Þeir eru fulltrúar fólksins á sama hátt og við. Ég er búinn að vera samstarfsmaður sveitarstjórnarmanna í 14 ár hér í Reykjavík og haft samstarf við sveitarstjórnarmenn alls staðar að af landinu. Þetta eru ábyrgir menn, hvaðan sem þeir koma. Og ég treysti þeim til að íþyngja ekki sínum skjólstæðingum sem þeir eru fulltrúar fyrir umfram það sem annars yrði gert af brýnni nauðsyn af þm. ef ákvörðunarvaldið væri hér.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég þakka málefnalegar umræður um þetta frv. og vona að það fái eðlilega afgreiðslu í þessari hv. d.