07.12.1983
Neðri deild: 21. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

126. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 161 er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 35 9. maí 1970, um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð. Í þessu frv. er lagt til að niður verði lagt annað prestsembættið í Vestmannaeyjum. Um tveggja áratuga bil höfðu verið tveir sóknarprestar í Vestmannaeyjum en nú síðustu sjö árin hefur annað prestsembættið ekki verið skipað. Hefur nú verið mælt með því á aðatsafnaðarfundi Ofanleitissóknar og héraðsfundi Kjalarnesprófastsdæmis að það verði lagt niður, með fyrirvara um að bætt verði við einum presti í svokölluðu farprestastarfi skv. 6. gr. laga um skipun prestakalla. Með því yrði jafnframt tryggt að gegnt yrði afleysingastörfum fyrir Vestmannaeyjaprest. Af augljósum landfræðilegum ástæðum eru vandkvæði á að forfallaþjónustu sé gegnt í Vestmannaeyjum með sama hætti og í öðrum prestaköllum. Jafnframt er ljóst að þörf er fyrir aukna starfskrafta við forfallaþjónustu á öðrum stöðum þar sem einn prestur hefur hvergi nærri annað þeim verkefnum.

Tekið skal fram að sóknarpresturinn í Vestmannaeyjum er þessari ráðstöfun samþykkur og kirkjuþing óskar eindregið eftir að þetta verði lögfest. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.