08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. forsrh. gat um þá var þessari umr. frestað af umhyggju hæstv. iðnrh. fyrir forsrh. Þannig var að við vorum að ræða hér um skýrslu iðnrh. um bráðabirgðasamning við Alusuisse og hv. 5. þm. Austurl. hafði rakið það mjög ítarlega hvernig þeir forráðamenn auðhringsins höfðu lagt sig fram um að tryggja að ákveðnir aðilar á Íslandi, m.a. þeir sem sátu þá með Alþb. í ríkisstj., hefðu sem mestan skilning á málefnum Alusuisse og hagsmunum þess, að ekki sé fastar að orði kveðið. Í ræðu, sem ég flutti við þessa umr., fór ég einnig yfir þessi mál og ræða mín og ræða hv. 5. þm. Austurl. eru birtar í Alþingistíðindum í 7. hefti í dálki 110–140 og þar geta menn lesið hvað það er sem við höfðum þar að segja og hæstv. forsrh. hefur nú einnig kynnt sér þann texta og hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar hafi ekki verið um landráðabrigsl að ræða eins og hæstv. iðnrh., yfirmaður Rafmagnsveitna ríkisins með meiru, kallaði það í ræðu á Alþingi þann 24. nóv. s.l. En hæstv. iðnrh. komst svo að orði með leyfi hæstv. forseta:

„Mig langar að víkja því til hæstv. forseta hvort honum þykir ekki ástæða til að fresta þessari umr. og ljúka henni ekki nú, með beinni vísun til þeirra svikabrigsla og landráðabrigsla, sem hæstv. forsrh. hefur nú legið undir í fjarveru hans af hálfu hv. síðasta ræðumanns.“

Síðasti ræðumaður, sem þarna er vitnað til, var sá sem hér stendur, en ég hafði farið nokkuð yfir þessi mál í ræðu minni og vitnaði ég þar í rauninni eingöngu til þess sem hv. 5. þm. Austurl. hafði sagt um þessi mál. Ég held, herra forseti, úr því að talið er óhjákvæmilegt að taka þetta mál fyrir hér á þessum fundi, þá gefi hv. sameinað Alþingi sér tíma til að ræða það ögn nánar. Ég hef ekki séð hvaða þingleg brýn nauðsyn væri til þess að ræða þessa skýrslu einmitt nú þegar mjög liggur á að við komum málum áleiðis hér á hv. Alþingi, þegar hver nýr forgangslistinn af öðrum lítur dagsins ljós frá hæstv. ríkisstj. um mál, sem þarf að afgreiða hér fyrir jól. Hér er ekki um að ræða mál sem þarfnast formlegrar afgreiðslu. Hér er aðeins um að ræða skýrslu iðnrh. um bráðabirgðasamning við Alusuisse, skýrslu sem ekki verður vísað til nefndar og er því hér aðeins til umr.

Ég held að úr því að stjórnarliðið kýs hins vegar að taka þetta mál hér upp núna á nýjan leik þá sé nauðsynlegt að nota það tækifæri til að rifja upp í málinu fáeinar staðreyndir. Meðan hv. 5. þm. Austurl. fór með iðnrn. voru gerðar rækilegar rannsóknir á hvernig þessi stóri auðhringur hafði tryggt sér gróða af viðskiptum við Ísland með yfirverði á aðföngum fyrir utan þann hagnað sem auðhringurinn hefur af því smánarlega lága raforkuverði sem hér er um að ræða.

Hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson hélt þannig á málum að óhjákvæmilegt varð fyrir þá aðila, sem stóðu með okkur í stjórnarsamstarfi á síðasta kjörtímabili, að taka undir það nauðugir viljugir, að nauðsynlegt væri að fara í málatilbúnað á hendur auðhringnum þar sem reynt yrði að tryggja hækkun raforkuverðs. Það var auðvitað ekkert létt fyrir þá menn sem töldu að raforkuverðið hefði í raun og veru verið hið ágætasta frá upphafi. Það var ekkert létt fyrir þá að þurfa í bandalagi við Alþb. að knýja á um hækkun á þessu raforkuverði. En það fór svo að þeir neyddust til þess vegna þess að staðreyndirnar voru borðleggjandi og málatilbúnaður hófst á hendur hinum alþjóðlega auðhring.

Þegar svo var komið sögu reyndi hringurinn hins vegar ýmislegt til þess að tryggja stöðu sína hér á landi. Hann var í hættu með sína hagsmuni, taldi að óhjákvæmilegt væri að grípa til sérstakra ráðstafana til að valda sig í landinu. Og hann hóf til þess skipulegar tilraunir að tryggja sér sína menn, sín blöð og sína flokka á Íslandi. Alkunna er hvernig þessi auðhringur hefur á seinni árum og dótturfyrirtæki hans komið sér fyrir innan atvinnurekendasamtakanna, þar sem nú er svo komið að formaður Verslunarráðs Íslands er forstjóri ÍSALs. Þannig hefur þetta fyrirtæki lykilstöðu innan atvinnurekendasamtakanna á Íslandi, úrslitastöðu á gang mála á hverjum tíma á þeim bæ.

Það var einnig mjög athyglisvert í tíð síðustu ríkisstj. að fylgjast með því hvernig tilkynningar frá Alusuisse um gang samningaviðræðna birtust iðulega í Morgunblaðinu áður en þáv. hæstv. iðnrh. fékk þau plögg í hendur. Þannig hafði auðhringurinn tryggt sér sín blöð.

Um skeið virtist staðan hins vegar vera þannig að innan þeirrar ríkisstj., sem þá sat, væri möguleiki til þess að halda á málinu með þeim hætti að þar væri afgerandi samstaða. En svo gerðist það að einn þeirra manna, sem var í átviðræðunefnd fyrir hönd þáv. iðnrh., braust út, hélst ekki lengur við, hljóp í útvarp, sjónvarp og blöð og hér inn á hv. Alþingi með hástemmdar yfirlýsingar um að hann kærði sig ekki lengur um að taka þátt í þeirri þjóðarsamstöðu, sem Alþb. beitti sér fyrir í þessu máli í þáv. hæstv. ríkisstj. Þar með var víglínan holgrafin, þar með var víglínan sundurtætt af þeim sem síst skyldi. Það er kannske til marks um hvernig hæstv. núv. iðnrh. skilur hlutina að hann skuli telja það landráðabrigsl þegar staðreyndir mála eru raktar. Ég var aðeins að rekja hér staðreyndir mála eins og þær komu fyrir og koma fyrir í þessu efni.

Í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar var hins vegar einnig á það bent að forráðamenn auðhringsins höfðu hvað eftir annað efnt til leynifunda með ýmsum ráðamönnum hér á landi á bak við iðnrn., jafnvel með þáv. hæstv. sjútvrh. án þess að þáverandi iðnrh. væri þar kallaður til. Og Hjörleifur Guttormsson hv. þm. greindi frá því sérstaklega að í viðræðum sem fram fóru í tengslum við viðræður í lok mars 1982 þá hefði aðalsamningamaður auðhringsins hitt að máli 3 íslenska ráðherra. Þar hefði samningamaður auðhringsins lagt fram tillögur þeirra um það hvernig mætti leysa þessi mál, og þáv. hæstv. sjútvrh. hefði sagt sem svo að hann tæki vel í þessar hugmyndir, sem þarna væri um að ræða frá 25. mars 1982. Það þyrfti í raun og veru að breyta þeim lítils háttar, lagfæra þær aðeins. Ég komst þannig að orði í ræðu minni um þetta mál að hæstv. þáv. sjútvrh. og núv. forsrh. hefði tekið þessum tillögum með svipuðum hætti og hugmyndum á innanflokksfundi í Framsfl. og leiðrétt þær á hnjám sér eins og skólastíl og sagt sem svo: Þetta eru ekki svo vondar hugmyndir. Þó var hvergi minnst á hækkun raforkuverðs í þessum hugmyndum. Það var þetta sem ég var að gagnrýna og nota til að sýna fram á hvaða vígstaða það var sem var búin þáv. iðnrh. þegar hann var að slást við auðhringinn og reyna að pína fram hækkanir á raforkuverði þegar bandamaður okkar, núv. hæstv. forsrh., umgekkst hlutina með þeirri léttúð sem ég þarna rakti.

Auðvitað er alveg ljóst að Alusuisse treysti því að eiga hér á Íslandi menn og flokka og blöð, þannig að auðhringurinn þyrfti í raun og veru aldrei að koma til móts við hina íslensku hagsmuni og hinar íslensku kröfur í þessum málum. Hann treysti því að staðan væri þannig. Það var í rauninni eðlilegt að hann yrði ókvæða við þegar kröfugerð var hafin af fyrrv. ríkisstj. undir forystu Hjörleifs Guttormssonar þáv. hæstv. iðnrh. vegna þess að auðhringurinn treysti því að hann gæti ráðið þessum hlutum og haft þá í hendi sér um aldur og ævi.

Umr. um Alusuisse er hins vegar ekki bara umr. um rafmagn og kw-stundir og verð á kw-stundum. Umr. um Alusuisse og framkomu auðhringsins hér á landi er umr. um grundvallaratriði í íslenskum stjórnmálum. Það er umr. um það hvernig við eigum að tryggja efnahagslega og atvinnulega hagsmuni Íslendinga andspænis ásókn erlendra stórþjóða í þær auðlindir sem við óneitanlega höfum hér upp á að bjóða í landinu og í kringum landið. Í þeim efnum er fróðlegt að rifja upp hvernig erlendar stórþjóðir tryggðu sér aðgang að landhelgi okkar um árabil, gerðu nauðungarsamning við Breta og Vestur-Þjóðverja árið 1961 um að ekki mætti færa landhelgina út úr 12 sjómílum. Einnig væri fróðlegt í þessu sambandi að rekja hvernig sú umr. fór fram hér á hv. Alþingi og hvernig þeir stukku upp alltaf forverar hæstv. núv. iðnrh. og sögðu: Landráð, landráð, þegar bent var á staðreyndir í málinu. Það mátti ekki. Það mátti ekki fletta ofan af þeim, vinnubrögðum þeirra og viðræðum við hina erlendu aðila. Það mátti ekki segja satt. Það átti að reyna að hefta þá, sem flettu ofan af þeim, með því að vísa til þess að þeir væru sjálfir að fremja glæp gegn landi og þjóð þó að þeir, sem töluðu máli þjóðarinnar, væru aðeins að gera þá skyldu sem á að vera helgust hverjum þeim manni sem tekur sæti í þessari stofnun.

Hér er auðvitað um að ræða það grundvallaratriði hvernig er háttað samskiptum Íslendinga við útlendinga á hverjum tíma. Í ræðu sinni um þetta mál sagði hv. 11. þm. Reykv.:

„Þau viðskipti sem fela í sér sölu á íslenskum verðmætum úr landi á gjafverði og frekari áform þar um eru í rauninni ekkert annað en að selja landið í erlenda fjötra og af því höfum við Íslendingar miður góða reynslu í 1100 ára sögu okkar.“

Það er þetta meginatriði sem hér er verið að takast á um. Vilja menn hneppa land og þjóð í þá sömu fjötra og menn börðust gegn um aldir í 7 alda nýlendusögu íslensku þjóðarinnar? Vilja menn á ný snúa við og ganga inn í þau björg sem erlend auðfyrirtæki og stórþjóðir geta búið þessari þjóð? Þess vegna er auðvitað hér verið að tala um grundvallaratriði. Þess vegna er ekkert skrýtið þó að það komi við tilfinningar manna þegar við þessum málum er hreyft. Það er ekkert undarlegt. En hitt hlýtur einnig að vera leyfilegt og eðlilegt að við sem ræðum um slík mál hér á Alþingi hljótum að hafa leyfi til þess að segja það, að okkur blöskrar þegar erlendur auðhringur eins og Alusuisse virðist geta gert sér menn handgengna með þeim hætti sem varð hér á síðustu árum. Okkur sýnist að þessi auðhringur sé núna að verða í óskastöðu því miður. Þeir menn sem tala hér fyrir íslenskum málstað virðast ekki í ýkjamiklu baráttuskapi. Þeir eru í rauninni alltaf að réttlæta það að raforkuverðið skuli vera svona lágt. Þeir eru eins og sendimenn, eins og landafjandar, með leyfi hæstv. forseta, út um allar jarðir að leita að dæmum um hvar sé hægt að finna lægra verð. Og því lægra sem það er þeim mun ánægðari virðast þeir vera vegna þess að þá geta þeir sýnt fram á að málflutningur Alþb. sé ekki heill og eðlilegur í þessu máli.

Það er undarlegt að halda þannig á máli í baráttu við andstæðing að leggja sig í lima við að tína fram þau rök sem koma honum yfirleitt sem best í málunum. Það er sérkennilegur baráttumóður sem svellur þeim mönnum í brjósti sem þannig haga málum sínum. Auðvitað kom það okkur á óvart, og auðvitað var okkur og er skylt að segja frá því, þegar Alusuisse lagði fram sínar tillögur seint í mars 1982 þar sem ekki var minnst einu aukateknu orði á hækkun raforkuverðs. Þegar það mál er rætt við þáv. hæstv. sjútvrh., forsrh. og iðnrh., þá tekur formaður stærsta stjórnarflokksins málunum þannig að þetta sé í rauninni plagg sem megi gjarnan skoða þó að það sé hvergi minnst á það grundvallaratriði sem hann var hér sjálfur áðan að segja, að skipti auðvitað sköpum í þessu máli.

Alþb. hefur á undanförnum árum alveg frá árinu 1966 að álsamningurinn var fyrst hér til umr. lagt mjög þunga áhelstu á að verðið á raforku til auðhringsins væri alltof lágt, langt undir kostnaðarverði. Ég man eftir því að hafa lesið það í þingtíðindum og hafa heyrt það sitjandi hér uppi á pöllunum sem þingfréttaritari að ýmsir talsmenn þáv. stjórnarandstöðu Framsfl. tóku mjög undir þetta með hið alltof lága raforkuverð. Man ég að framarlega var þar í flokki núv. hæstv. iðnrh. sem situr hér mér á vinstri hönd. Núv. hæstv. forseti Nd., Ingvar Gíslason, var þá talsmaður minni hl. iðnn. og hann lagði á það mjög mikla áherslu í ræðum sínum að hér væri um hinn mesta smánarsamning að ræða. Og þeir framsóknarmenn undir forystu Eysteins Jónssonar tóku mjög undir það og gengu hart fram í því máli að samningurinn við Alusuisse væri til marks um vanmetakennd, um minnimáttarkennd gagnvart stórum og erfiðum verkefnum.

Það mun hins vegar hafa verið svo að í Framsfl. á þessum tíma hafi ekki verið alger eining um þessa afstöðu þáv. formanns Framsfl. og núv. hæstv. forseta Nd. Það mun hafa verið svo að um það hafi verið deilt í Framsfl. hvort hann ætti að snúast gegn álsamningnum á sínum tíma. Og það skyldi ekki hafa verið núv. hæstv. forsrh. sem einn framsóknarmanna í miðstjórn þess flokks — eða framkvæmdastjórn eða hvað það nú var — hafi verið óánægður með þá afstöðu sem Framsfl. svo að lokum tók í málinu. Og það skyldi þó ekki hafa verið að það hafi spurst víðar en hér um land hvaða afstöðu núv. hæstv. forsrh. hefði í þessu máli. Þess vegna er þetta mál fyrir hann erfiðara og viðkvæmara en sennilega fyrir alla aðra forystumenn Framsfl. og það var athyglisvert að það var enginn flokksbróðir hans hér á Alþingi sem stóð upp og heimtaði að hann fengi að bera af sér landráðabrigsl eftir ræðu mína. Það var ekki svo. Það var þm. Sjálfstfl. af Austurlandi, hæstv. iðnrh., sem bað um hlé fyrir lagsbróður sinn, hæstv. forsrh. Það var enginn framsóknarmaður sem fann hjá sér þörf til að rjúka upp í þennan stól og heimta hlé á umr. af þessari ástæðu. Það var ekki svo, það var iðnrh. sem það gerði. Það segir kannske sína sögu þegar allt kemur til alls um þá stöðu sem þessi mál eru í.

Ég tel að núv. ríkisstj. hafi haldið illa á álmálinu. Hún hafi haldið þannig á því að hún hafi sett íslensku þjóðina í stóraukinn vanda og staða okkar í samningum núna á næstu mánuðum er lakari en hún hefði þurft að vera ef menn hefðu sameinast um þá tillögu, sem Alþb. gerði á síðasta kjörtímabili, að hækka einhliða raforkuverðið með löggjöf vegna þess að samningaleiðin hafði verið reynd til þrautar.

Talsmenn þáv. stjórnarandstöðu fullyrtu að það væri létt verk að ná raforkuverðshækkun strax. Það væri ekki gaufið í Hjörleifi Guttormssyni sem tæki við þar sem væri hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson. Það væri nú eitthvað annað. Það væri nú eitthvert annað ástand þar á bæ en áður hefði verið og þetta kæmi svo að segja alveg strax. En hæstv. núv. iðnrh. var ekki búinn að sitja lengi þegar hann fór að setja á ræður um að málið væri erfitt og þeir væru þungir í taumi þessir samningamenn Alusuisse. Auðvitað kom það í ljós líka að staða hæstv. núv. iðnrh. var þeim mun verri í málinu sem hann hafði gengið harðar fram gegn fyrrv. iðnrh. Sverrir Hermannsson, hæstv. iðnrh., veikir stöðu sína sem samningamaður fyrir Íslands hönd í álmálinu vegna þess hvað hann hefur snúist hart og öndvert gegn þeim sjónarmiðum sem voru sett fram undir forystu Alþb. í síðustu hæstv. ríkisstj. Ég vona hins vegar að þrátt fyrir það að núv. ríkisstj., forsrh. og iðnrh. hafi haldið illa á þessum málum þá gefist þjóðinni engu að síður möguleiki á því að tryggja hagsmuni sína í þessum efnum þannig að við fáum hér viðunandi raforkuverð og þannig að tryggt verði í framtíðinni að viðskipti auðhringsins við Íslendinga verði ekki með þeim hætti sem verið hefur.

Á síðasta fundi Sþ. þegar um þetta var rætt 22. nóv. greindi hæstv. iðnrh. frá niðurstöðum Coopers & Lybrand um yfirverð á súráli o.fl. og það kom í ljós að yfirverðið hafi verið 400 millj. ísl. króna á einu ári, 400 millj. ísl. kr. sem höfðu verið teknar út úr reikningunum áður en faktúrurnar voru gefnar upp til hinna íslensku aðila og ertent stórfyrirtæki þurfi til þess að finna út hvernig með hlutina hafði verið farið. Ég tel að þessi yfirlýsing og skýrsla hæstv. iðnrh. sem fékkst með eftirgangsmunum frá hv. 5. þm. Austurl. og þessi niðurstaða Coopers & Lybrand sýni kannske betur en allt annað að núv. iðnrh. verður í þessu efni að vera á verði. Hann verður að gæta þess að samþm. hans, t.d. úr Sjálfstfl., hagi málflutningi sínum ekki þannig hér í þinginu að þeir séu ævinlega fyrst og fremst í því að tína rök fyrir auðhringinn í þessu máli en ekki fyrir hina íslensku hagsmuni.

Ég er sannfærður um að eina leiðin til að tryggja samstöðu og árangur á Íslandi í senn í þessu máli er að fylkja sér um þá stefnu sem Alþb. hefur beitt sér fyrir í þessu efni og ég vona að núv. hæstv. iðnrh. sjái að sér áður en öll nótt er úti og stigi skref, sem dugi, til þess að hann átti sig á því að sú stefna, sem getur tryggt árangur, er sú stefna sem Alþb. hafði forustu um á síðasta kjörtímabili.