08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er auðvitað misjafn smekkur manna, einnig á því hvað telja megi svikabrigsl í orðræðum. Ágætt er það, og skal vera afskiptalaust af minni hálfu, ef þeir koma sér saman um það, hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., að ekkert slíkt hafi falist í orðum hins fyrrnefnda á fundi þann 24. nóv. s.l. hér á hinu háa Alþingi, en minn smekkur er ekki á sömu vísu. Hér segir hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þarna sá álhringurinn að hann átti möguleika á að hafa áhrif á tiltekna einstaklinga hér á Íslandi. Og það var ekki of mikið sagt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan. Íslenska víglínan var holgrafin um skeið vegna þess að það var ekki um það að ræða að þeir menn sem áttu að standa á vaktinni fyrir íslenska hagsmuni stæðu sig þar sem skyldi.“

Það voru hæstv. núv. forsrh. og hans félagar sem holgrófu íslensku víglínuna til þess að erlendir aðilar, í þessu falli auðhringurinn, gætu sótt fram og unnið sér lönd.

Hér segir svo síðar, og þyrftu menn að fara að rifja upp fyrir sér Íslandssöguna í því tilefni, og þeir sem hér eru hafa væntanlega allir lært sín gömlu fræði þótt nú sé nýjabrum uppi um hvernig hún skuli lesin. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 1140 og vitna ég til ræðu hv. 3. þm. Reykv. Svavars Gestssonar:

„Það var athyglisvert sem fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, hvernig hann sýndi fram á það þegar Alusuisse var að gera sér menn handgengna hér á Íslandi með mjög svipuðum hætti og Noregskonungur gerði fyrr á öldum.“

Hvernig skilja þeir, sem lærðu sína Íslandssögu, þessi orð? Síðar fannst á þessu nafn sem nú er alþjóðlegt. Það var þegar Hitler gerði mann nokkurn að nafni Quisling sér handgenginn á Noregsströndum árið 1940, svo að við tökum dæmi hið skemmsta frá okkur. Það hefur hver fyrir sig sinn smekk í þessu, hvað kallast eiga svikabrigsl eða landráðabrigsl, en þetta er nú minn smekkur. — Svo heldur áfram tilvitnuninni:

„Það kom fram að haldnir voru leynifundir með Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra og Steingrími Hermannssyni núv. hæstv. forsrh. til að fjalla um stöðuna í þessu máli á bak við þáv. iðnrh.“ Manninn sem fór með forustuna í þessu máli og bar höfuðábyrgð á því.

Þeir stunduðu baktjaldamakk, hæstv. núv. forsrh. og seðlabankastjóri, við erlendu aðilana í þessu máli. Ég veit ekkert hvað þetta heitir á máli hv. 3. þm. Reykv., en ég veit hvað ég nefni það og við það held ég í málafærslu minni. — Síðan segir svo áfram, herra forseti:

„Þessar upplýsingar sýna okkur auðvitað að Alusuisse treysti því að þurfa aldrei að gera samninga við íslensku ríkisstjórnina vegna þess að Alusuisse átti sína menn, sína flokka og sín blöð á Íslandi. Þetta er grundvallaratriði“, segir svo, „sem þingheimur þarf að gera sér grein fyrir. Og það var ekki auðveli við þessar aðstæður að knýja fram hækkanir á raforkuverði, þegar þeir sem síst skyldi voru í svikaförum gegn þeim iðnrh. sem með málið fór fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar.“

Ég endurtek hamingjuóskir mínar til hv. aðila þessa máls, að þeim þyki sem ekkert sé í orðavali, en hef svo engu við þetta frekar að bæta. En eins og svalan sagði þegar hún bauð Trítli ánamaðkinn og hann vildi ekki: „Það er hver fyrir sinn smekk“, og át hann sjálf.

Hér er það margendurtekið af hv. þm. Alþb. að núverandi stjórnarliðar séu að verja hið lága raforkuverð og þykist nú hafa himin höndum tekið og nefni til þess að gagnast nú álhringnum dæmi um slíkt. Því hefur verið margyfirlýst af minni hálfu að við höfum náð mjög skammt og allsendis ófullnægjandi fram í orkuverði í samningunum við auðhringinn. Við höfum hins vegar nefnt þröskuldana, sem hafa orðið á vegi okkar, eins og þann aðallega að nýlega hefur norska ríkið samið við Alusuisse um sölu á raforku á 9.9 mill til 1. júlí 1987. Við höfum marglýst því yfir að við höfum náð alltof skammt. Við höfum hins vegar nefnt dæmi um hið háa orkuverð sem til að mynda hefur orðið til þess að fjölmörg álframleiðslufyrirtæki í Japan hafa farið á höfuðið. Þetta eru líka staðreyndir. Við höfum ótal dæmi um mjög mismunandi orkuverð við álframleiðslu. Og það er hreinn útúrsnúningur að halda því fram að við séum með þessum dæmum að sýna fram á að við höfum náð einhverjum hrósverðum árangri. Við losuðum málið hins vegar úr sjálfheldu — sjálfheldunni sem Alþb. og þess fulltrúi voru búin að koma málinu í. Við náðum fram samkomulagi um að endurskoða aðalsamninginn, sem ekki hafði áður verið neitt ákvæði um, og það var meginatriði. Við eigum mestallt verkið eftir í samningunum við þennan harðsnúna auðhring. Og þá kemur til Teits og Siggu og því verður Alþingi látið fylgjast með frá tíma til tíma. Um það þurfið þið ekkert að efast. — Og vík ég þá að þeim fullyrðingum að ég hafi stungið skýrslu Coopers & Lybrand undir stól, sem hér barst á júnídögum.

Hvers vegna skyldi ég hafa gert það? Ég fullyrði, og bið nú hv. 5. þm. Austurl. að hlusta á mig, að hann er það kunnugur í þessum málum og raunar fleiri að hann hefði getað samið báðar skýrslurnar fyrir fram, álit Coopers & Lybrand eins og það kom á uppgjörsaðferðum Alusuisse og ÍSALs og svar Alusuisse. Hvernig stóðu þessi mál, svo að ég reki það aðeins örstutt? Ég var spurður um þetta líklega 11. eða 12. júní. Ég man þessar dagsetningar af því að ég var að koma af öðrum löndum, kom 10. júní og var spurður um þessa endurskoðunarskýrslu af blaðamanni Þjóðviljans. Ég tjáði honum, sem rétt var, að hún hefði ekki borist í mínar hendur. Hún barst í mínar hendur 14. júlí. (Gripið fram í.) Það er hægt að fletta þessu hér upp. (Gripið fram í.)

Hvað eru varaþm. að gapa hér? Vill ekki hæstv. forseti setja ofan í við þá? (ÓRG: Ég hef kjörbréf líka.) Þeir þurfa að kunna sig. Aðalmenn munu fyrirverða sig þegar þeir frétta um þessa framkomu. (Forseti: Ég bið þm. að hafa ekki samtal á fundinum þó ég viti að hæstv. iðnrh. sé maður til þess að svara.) Ég get flett því upp hvenær þetta fór fram, því að það er bókað hér í þskj. og verður engu um það breytt. (Gripið fram í: Ráðh. var að enda við að segja að hann viti þetta mjög vel.) Ég man dagsetninguna nákvæmlega og mun ég nú vitna til þess. — Ég bið forseta að hafa þolinmæði með mér meðan ég finn þessu stað. (Gripið fram í: Það bíður allur þingheimur í eftirvæntingu.) Því get ég trúað og er það vel því að málið er auðvitað mikils vert.

Það var hinn 15. maí sem fyrirrennari minn hæstv. fól Coopers & Lybrand endurskoðunina, svo að sú dagsetning sé bókuð. Það var með bréfi 30. ágúst sem þetta var tilkynnt, enda var miðað við 1. sept. samkv. endurskoðunarákvæðunum. Mér barst þetta í hendur 14. sept. Þetta vita þeir sem fylgst hafa með málinu, en varamenn standa náttúrlega og gapa og gleypa vind út af einföldum atriðum eins og þessu. (Gripið fram í.) Og er þetta hér með leiðrétt. — Síðan fékk Alusuisse, sem lög gera ráð fyrir, frest til að skila andsvörum. Þetta hefur líka fyrirrennari minn gert og andsvör bárust á sínum tíma, og eins og ég segi: innihald þess gátu allir sem þekktu málið gert sér í hugarlund og sagt fyrir um.

Um hvað stóð þessi deila? Um hvað hefur deilan staðið nú? Hefur hún kannske staðið um fyrsta árásarefnið, um hækkun í hafi? Vilja ekki Alþb.-forkólfarnir skýra frá því hvað orðið hefur um þá ásökun? Aðaldeilan stendur um skattgjald og uppgjörsmáta Alusuisse. Hvernig gera menn sér nú í hugarlund að Alusuisse mundi gera upp fyrirtæki sitt, ÍSAL, fyrir árið 1982? Okkur hefur verið stefnt fyrir gerðardóm í New York vegna þessa máls. Coopers & Lybrand hafa gagnrýnt uppgjör ÍSAL á liðnum árum fyrir aðallega þrennt, fyrir of lágt álverð, fyrir of há aðföng á súráli og anóðum og fyrir of hraðar afskriftir hreinsivirkja. Þetta eru gagnrýniatriðin. Áttu menn kannske von á því núna að Alusuisse mundi breyta uppgjörsaðferðum sínum þann veg meðan málið er í dómi og gerð að Coopers & Lybrand hefði ekkert við það að athuga? Að sjálfsögðu datt þetta engum í lifandi hug. Auðvitað héldu þeir fast við sínar kenningar og sínar ákvarðanir um þetta efni og þetta gátu allir sagt fyrir, sem þekktu málið. Ég segi: Sem betur fer breytti Coopers & Lybrand ekki afstöðu sinni og áliti á þessum uppgjörsaðferðum. Hvernig hefði tiltekist og farið fyrir okkur í dómnefndinni, sem hefur með þessi skattaákvæði að gera, ef Coopers & Lybrand hefðu allt í einu fallist á uppgjörsaðferðir Alusuisse ? Að sjálfsögðu gerðu Coopers & Lybrand það ekki, heldur héldu fast við sína fyrri afstöðu, eins og kemur fram í minnisblaði sem mér barst um þetta, útdrætti úr skýrslunni. Þá segir svo, með leyfi hæstv. forseta, um söluverð áls frá ÍSAL:

„Niðurstaða Coopers & Lybrand er því sú, að söluverð á áli frá ÍSAL hafi verið of lágt sem nemur samtals 2 millj. 682 þús. Bandaríkjadölum fyrir árið 1982.“

Það eru sömu forsendur og áður um meðalverð á áli milli óskyldra aðila og þar er munurinn 3.2% á mati Coopers & Lybrand frá því sem ÍSAL heldur sig við í sínum uppgjörsmáta.

Þá er það í öðru lagi verð á aðföngum til ÍSALs eða súrálið. Þar segir svo:

„Niðurstaða Coopers & Lybrand er því sú, að súrál hefur verið verðlagt of hátt sem nemur samtals 1 millj. 331 þús. Bandaríkjadölum fyrir árið 1982.“

Það er nákvæmlega sama afstaða og hafði komið fram á árunum þar á undan um þessi uppgjörsmái. Og svo að lokum, sem mestu munar: Alusuisse hefur haldið því fram, að það hafi leyfi til að afskrifa hreinsivirkin það hratt að þau yrðu afskrifuð að fullu jafnt öðrum eignum sem eru í Straumsvík. En hreinsivirkin voru byggð miklu síðar, þannig að hér er um hraðari afskrift að tefla. Coopers & Lybrand halda því fram, að Alusuisse beri að afskrifa hreinsivirkin með sama hraða og upprunalegu eignirnar. Hér munar því fyrir árið 1982 um 9 millj. 99. þús. Bandaríkjadollara, þar sem Coopers & Lybrand álíta að Alusuisse afskrifi hreinsivirkin of hratt. Þar af leiðir, að þar sem Alusuisse álítur og bókfærir tap sitt vegna reksturs álversins í Straumsvík rúmlega 31 millj. dollara, þá álíta Coopers & Lybrand að hæfileg bókhaldsaðferð sé að telja það rúmar 18 millj. Bandaríkjadala. En þeir enda sína skýrslu á því, að þessar ofangreindu leiðréttingar á ársreikningi ÍSALs fyrir árið 1982 hafi ekki áhrif á skattgreiðslu fyrirtækisins fyrir það ár. Þetta er af þessu máli að segja.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv., áleit að lausnin væri í þessu máli að fylkja sér um stefnu Alþb. Við höfum hlustað á langar ræður hv. 5. þm. Austurl., fyrrv. iðnrh. Hann er þeirrar skoðunar að við hefðum átt að halda áfram að reka mál okkar fyrir gerðardómnum í New York. Hann harmar það einna mest að við skulum hafa losað um þau mál og fundið skjótvirkari aðferð til þess að ná niðurstöðu, sem þó verður vafalaust ekki vefengt að hún muni skila réttlátri niðurstöðu þegar litið er til þess hverjir skipa þá dómnefnd. Þetta hefði m.a. leitt til þess að ekkert samkomulag var líklegt næstu tvö árin a.m.k. og við hefðum staðið undir ærnum kostnaði þess vegna. Það er að fylkja sér um stefnu Alþb. auðvitað, stefna þessu áfram í þá sjálfheldu sem þessi mál voru í. En núv. ríkisstj. er ekki þeirrar skoðunar. Hún mun til hins ýtrasta reyna að sækja fram til bærilegra samninga. Það er of snemmt að spá eða segja fyrir um hvernig til muni takast. Þetta eru erfiðir samningar og við erfiðan aðila að fást, sem er Swiss Aluminium. Ég veit ekki hvort einhver hefur átt von á því að þeir mundu taka með einhverjum vinskaparhöndum á móti okkur í samningsgerð um þetta áliðjuver. Ég veit ekki hvort menn álíta að við höfum fyrri reynslu sem bendir í þá átt. Auðvitað reyna þessir menn að komast eins langt og þeir frekast geta í þessu sambandi. Það verða menn að gera sér ljóst. Þess vegna þurfum við auðvitað á öllu okkar að halda og, eins og ég segi, það er langt frá því að við séum komnir á leiðarenda. En við höfum þó náð því marki að við höfum losað okkur úr sjálfheldunni þannig að möguleikar hafi opnast á því að ná samningum og að við náum þeim kjörum sem við getum við unað. Það var ekki fyrir hendi áður. Og það er það sem ég tel ótrúlegt afreksverk að ná því svo skjótlega fram sem raun ber vitni um að losa okkur úr þeirri römmu sjálfheldu sem Alþb. var af ráðnum hug búið að flækja okkur í. Það taldi að vísu að það væri að vinna íslenskum hagsmunum vel. Það er hinn grófi misskilningur.