08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. forseta að það er æskilegt að ljúka þessari umr. fyrr en seinna og ég held satt að segja að svona þjark eins og kom fram í ræðu síðasta hv. þm. sé ekki málstað Íslendinga til góðs í þeim málaferlum sem nú fara fram. En ég sé mér hins vegar annað ófært en að svara nokkru því sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv.

Ég vil hins vegar taka það fram að ef eitthvað af því, sem ég segi hér, má skilja sem svar við ræðu hv. varaþm. Ólafs Ragnars Grímssonar er það tilviljun ein því ég fann ekkert í hans ræðu sem svaravert er. Satt að segja finnst mér undarlegt að þegar formaður Alþb. stendur upp og talar í mikilvægum málum og talsmenn Alþb. þarf þessi hv. þm. að standa upp og endurtaka svo að segja allt saman aftur á miklu, miklu lakari hátt.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði nokkuð um upphaf þessa álmáls innan Framsfl. og það er rétt að ég var í samninganefnd og reyndar lengi. Og ég minnist þess t.d. að sá mæti maður Magnús Kjartansson kallaði mig á sína skrifstofu á sínum tíma þegar hann var iðnrh. og bað mig að taka sæti í nefnd sem semja ætti við erlent stórfyrirtæki um slíkan iðnað hér á landi. Og ég varð ekki var við það í orðum þess ágæta manns að hann vantreysti mér til þess. Það er alveg rétt að það voru skiptar skoðanir innan Framsfl. þegar þetta mál kom þar fyrir á sjöunda áratugnum. Ég var alls ekki sáttur við ýmis ákvæði í þessum samningi. T.d. var fullt samstarf um það innan Framsfl. að það væri vægast sagt vafasamt að fyrirtækið félli ekki undir íslenska lögsögu. Og það var ekki síst það mál sem þeir mætu menn, Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhannesson, fluttu hér á Alþingi.

Ég var líka ósáttur við ákvæðið um skattana og taldi ætíð að þar ætti að vera eins konar aðstöðugjald en ekki væri eðlilegt að byggja á skattframtali þessa alþjóðlega hrings. Því að mér var ljóst þá og er ljóst enn að það verður aldrei gert svo að fullnægjandi sé. Margir menn mér fróðari og þeim, sem hér hafa talað um þessi mál, hafa staðfest það að það er nánast útilokað að eltast við slíkt. Þess vegna er langtum æskilegra að hafa ákveðið framleiðslu- og aðstöðugjald og skipta sér þá ekki af öðrum þáttum í skattframtölum. Og þannig get ég nefnt fleiri atriði sem skoðanir voru skiptar um á þessum tíma.

En Framsfl. hefur markað sína stefnu mjög ljóst í þessum stóriðjumálum og um hana er algjör samstaða innan flokksins. Við leggjum áherslu á m.a. virka stjórn eða virk áhrif okkar Íslendinga á starfsemi slíkra stóriðjufyrirtækja hér á landi og það verður vitanlega að gerast á allt annan máta en gert hefur verið í samningunum við Alusuisse. Ég vil ekki vera að teygja tímann við að rekja fleiri þætti sem komið hafa fram í okkar samþykkt.

Hv. þm. telur sérstaklega að fundur sá, sem haldinn var 25. mars 1982, hafi orkað tvímælis svo ég verð að fara nokkrum orðum um aðdraganda þess máls. Ég sagði áðan að sumir hefðu legið mér á hálsi fyrir það að vera of auðtrúa og telja að hv. fyrrv. iðnrh. gengi ekkert nema gott eitt til sinnar málsóknar á hendur Alusuisse. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að hann hafi viljað af einlægni leita eftir breytingu á samningum og betri kjörum fyrir okkur Íslendinga. Ég verð hins vegar að segja að þeir, sem um það efuðust, höfðu dálítið til síns máls. Þegar ákæran á hendur Alusuisse var lögð fram í ríkisstj. í des. 1980 var lögð á það rík áhersla að strika út orð um sviksamlegt athæfi sem síðar urðu ákaflega mikil deiluefni. En það var ekki gert. Og þetta kom þannig út að Alusuisse fékk tækifæri til þess að skjóta sér á bak við þetta — ekki mánuðum saman heldur á annað ár. Og við ræddum þetta oft og ég lýsti þeirri skoðun minni að það hefði verið ákaflega vafasamt að ákæra fyrirtækið um sviksamlegt athæfi án þess að dómur gengi í þessu máli eins og reyndar miklu lögfróðari menn en við báðir bentu á á fundunum í desember 1980. Og þetta gaf Alusuisse tækifæri til að komast undan raunverulegum samningaviðræðum um lengri tíma.

Viðleitni var mjög beint í þá átt að reyna að laga þetta á milli hæstv. þáv. iðnrh. og Alusuisse og reyna að koma því til leiðar að þessir aðilar settust í raun og veru að samningaborðinu. Það má segja að næstum því í tvö ár hafi í raun og veru verið deilt um það hvernig samningaborðið ætti að vera í laginu. Og ég minnist þess að við þáv. hæstv. dómsmrh. sátum lengi með hæstv. þáv. iðnrh. við að semja tillögur í þessu máli og við náðum samstöðu um það. Svo ég tel að það hafi verið rík samstaða um þessi mál, án þess að ég fari að rekja það nánar hér, mestallan þann tíma sem fyrrv. hæstv. iðnrh. fjallaði um málið.

Í mars var því um það að ræða að reyna að fá menn til að setjast niður og semja. Og þá komu fram hugmyndir frá Alusuisse sem ég endurtek hér að voru að mínu mati töluvert spor í áttina — með nokkrum breytingum. Að sjálfsögðu hlutu að koma frá okkur á móti tillögum Alusuisse kröfur um það sem við vildum taka til meðferðar. Og þetta veit hæstv. fyrrv. iðnrh. mætavel. Vitanlega var aldrei um það deilt að sú krafa, sem kæmi númer eitt frá okkur, væri hækkun raforkuverðsins. Hún var okkar höfuðkrafa allan tímann — og um hana fullkomin eining. Spurningin var sú hvort það væri hægt að breyta því sem Svisslendingarnir óskuðu eftir og bæta við okkar tillögur og fá þannig viðræðugrundvöll. Þarna — sem sé 25. mars 1982 — var um það að ræða að fá aðila til að setjast niður og falla frá þessum ásökunum um sviksamlegt athæfi o. s. frv.

Ég hef áður rakið það sem á milli bar í nóvember 1982 þegar mér þótti koma fram hugmyndir sem stætt væri á að líta á og semja um á vissum grundvelli. Ég verð að segja að ég skil ákaflega vel efasemdir ýmissa manna um hellindi til samninga þegar birtust úrslitakostir frá fyrrv. hæstv. iðnrh. 21. des. 1982. Um það fóru ýmsir mætir menn þeim orðum að þar væru boðnir þeir kostir sem enginn aðili gæti gengið að áður en til samninga er sest. Og menn verða náttúrlega að athuga það að þegar tveir aðilar semja þá mega þessir aðilar ekki vera fullir af fordómum hvor í garð annars. Það voru báðir þessir aðilar, bæði fyrrv. hæstv. iðnrh. og fulltrúar Alusuisse, fullir af fordómum hvor í garð annars, svo það var kannske ekki von til þess að langt næðist.

En ég verð svo að segja það að því miður hafa komið fram ýmsar upplýsingar sem ég hef orðið ákaflega undrandi að sjá. T.d. hefur komið fram skýrsla frá ráðgjafarfyrirtæki sem lagði fram upplýsingar fyrir hönd fyrrv. iðnrh. um raforkuverð í heiminum sem segir allt annað nú en það sagði áður. Og mig rak í rogastans þegar ég sá þá skýrslu. Þeir segja beinlínis í inngangi þeirrar skýrslu að þeim hafi bara verið falið annað verkefni áður, sem sé ákveðið að þeir ættu að draga fram hæstu raforkuverðin en ekki hin almennu raforkuverð. Þegar menn hér áfellast núv. hæstv. iðnrh. fyrir að nefna að raforka muni vera á lægra verði á ýmsum stöðum en áður var talið vil ég vekja athygli á því að vitanlega hlutu slíkar upplýsingar allar að koma fram í alþjóðlegum gerðardómi. Því hefði aldrei verið leynt þar.

Og ég verð að segja það að ég hef sannfærst mjög um — eftir að sjá þetta og fjölmargt annað sem ekki er rétt að ræða núna, ég legg áherslu á það, ekki rétt að ræða núna — að það var vægast sagt vafasamt að ráðast í einhliða hækkun raforkuverðs og ætla að vinna það mál fyrir alþjóðlegum gerðardómi. Ég held að það hafi verið vægast sagt vafasamt. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Það mætti flytja um þetta langt mál en ég vil verða við þeirri ósk forseta að stytta umr. um þetta mál og tel það reyndar vera hagsmunum okkar fyrir bestu.