20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er ekki að furða þótt rætt sé um hátt raforkuverð, sem reyndar er að sliga almenning í landinu, og mig grunar að það séu margar ástæður fyrir því að raforkuverðið er svo hátt og það megi rekja að einhverju leyti, jafnvel öllu leyti eða mestu leyti, til þess hve yfirstjórnin er dýr og hversu illa hefur verið farið með fé og ráðist í vafasamar framkvæmdir.

Það mætti spyrja: Er orsakanna einkum að leita til seinni tíma framkvæmda Landsvirkjunar, þ.e. á eftir Búrfellsvirkjun, og óvenjumikils rekstrarkostnaðar? Og það mætti spyrja: Að teknu tilliti til orkuverðs vegna lekans úr Sigöldulóni og minna vatns en reiknað var með í upphafi, hlutdeildar Sigöldu í kostnaði við Þórisvatnsmiðlun og raunverulegs rekstrarkostnaðar virkjunarinnar, þar með taldar þéttingartilraunir á lekanum, hvað er þá raunverulegt orkuverð við stöðvarvegg Sigölduvirkjunar í dag? Er þetta orkuverð í einhverju samræmi við það sem gert var ráð fyrir í upphafi, er áætlanir voru gerðar fyrir virkjunina?

Það má spyrja líka: Hver var stofnkostnaður Hrauneyjafossvirkjunar á orkueiningu í hlutfalli við Búrfellsvirkjun? Hvert er orkuverð við stöðvarvegg að teknu tilliti til hlutdeildar í Þórisvatnsmiðlun og minna vatns en reiknað var með í upphafi? Og spyrja má líka: Var þriðja vélin þá fjárhagslega tímabær? Ef svo er, hver er áætlaður nýtingartími þeirrar vélar næstu tvö til þrjú ár?

Er eðlilegt að arðreikna Sultartangastíflu eins og um orkuver sé að ræða með tilliti til þess að hún er túrbínulaus? Er þetta fjárhagslega tímabær framkvæmd að teknu tilliti til Hrauneyjafossvirkjunar, sem svo stutt er síðan kom í gagnið, og frekari vatnsöflunar Kvíslaveitna, sem nú er einnig unnið að?

Það má spyrja: Hversu stór er byrðin af þessari framkvæmd í verði til almennings? Hver er áætlaður stofnkostnaður Suðurlínu ásamt aðveitustöðvum? Og það má spyrja: Verða enn frekari byggðalínuframkvæmdir á næstu 2–3 árum? Enn fremur má spyrja: Ef hálendislína, 220 kw, til Akureyrar eða Fljótsdals kæmi inn innan 6–8 ára verður þá þörf fyrir Suðurlínu?

Hver er rekstrarkostnaður Landsvirkjunar fyrir utan vexti og afborganir lána og hversu hátt hlutfall er hann af heildarorkusölu? Og menn spyrja almennt: Er verðhækkunarskriðu Landsvirkjunar umfram almennt verðlag lokið eða má búast við því að hækkanir verði svipaðar áfram endalaust? Og enn fremur mætti í þessari athugun gera samanburð á því: Hvað þarf verkamaður á Íslandi að vinna mörgum klst. meira en verkamaður í Noregi fyrir sömu orkueiningum?

Mig grunar að orkumálin hafi verið látin vaða á súðum, vaðið hafi verið í of miklar óarðbærar framkvæmdir — framkvæmdir sem hafa kostað fólkið í landinu ótrúlegar byrðar.

Raforkuverðið er afar mismunandi. Ég vil benda á að t.d. þurfa Suðurnesjabúar að greiða 17% hærra fyrir sína orku en fólk í Reykjavík og Hafnarfirði. Og ekki er að furða þó menn spyrji hvers vegna. Hvers vegna þarf þessi munur að vera svona mikill?