08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Svo hagar til að hér hefur staðið yfir á öllum fundi Sþ. í dag framhaldsumr. um skýrslu iðnrh. til Alusuisse, umr. sem ég hafði gert ráð fyrir að væri svo til til lykta leidd hér áður, og hafði hagað mínum málflutningi í málinu með tilliti til þess. En af hálfu hæstv. iðnrh. var þess óskað, eftir að málið hafði verið rætt á tveimur fundum, að því yrði frestað. Síðan kom hér hæstv. forsrh. og gaf tilefni til framhaldsumr. um þetta mál. Ég hef ekki tækifæri til þess að ræða þetta hér efnislega á þessum fundi þar sem ég hef notað minn rétt til umr. Hér hafa hins vegar komið fram mörg atriði sem óhjákvæmilegt er að svarað verði og ég mun nota fyrstu hentugleika þegar þetta mál ber á góma til þess að taka á þeim þáttum, m.a. sumu af því sem fram kom hér áðan í máli hæstv. forsrh., fyrir utan svo ýmislegt sem vansagt gæti verið við hæstv. iðnrh., en þar munu nú tækifæri gefast mörg til skoðanaskipta.

Ég ætla hér ekki að fara að ræða málið efnislega, en ég hefi hér margar aths. að gera og kannske kemur hér fram frv., sem tengist bráðabirgðasamningnum sem gerður var af ríkisstj. 23. sept., sem hæstv. iðnrh. boðaði hér í umr. um daginn að mundi koma inn í þingið innan fárra daga, þar sem leitað væri heimildar fyrir ríkisstj. til þess að leyfa Alusuisse að selja 50% af hlutabréfum sínum í Íslenska álfélaginu hf. og sem samningurinn gerði ráð fyrir að lagt yrði fyrir þingið í okt., en er ekki farið að koma fram enn þá. E.t.v. kemur það fram og þá er greinilega þinglegt tækifæri til frekari umr. um þetta mál. Ég áskil mér einnig rétt til að taka hér málið upp utan dagskrár ef ég met að tilefni sé til að óska eftir slíku.