08.12.1983
Sameinað þing: 30. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherrar þrír. Í gærkvöldi hafði hæstv. fjmrh., þegar blekkingarvefur hans um skattalækkunarfrumvarpið var tættur hér í sundur í þingsalnum, það eitt fram að færra sér til varnar að varaþm. ættu nú ekki mikið að vera að tala um skattamál.

Hæstv. iðnrh. kom svo hér fyrr í dag, og sagði — að vísu úr sæti sínu hér áðan að hann hefði nú meint þetta í gríni og ég get svo sem alveg tekið það gott og gilt, — að varaþm. ættu ekki að vera að blanda sér í dagsetningaflækjur hans hér í ræðustólnum. (Iðnrh.: Ég sagði það aldrei.) Nei, en það var efnislega það. (Iðnrh.: Ég sagði að þú ættir ekki að vera aðalmanni til skammar.) Það sagðirðu ekki heldur. Þú hefur kannske hugsað það.

Svo kemur núna hæstv. forsrh. sem á sérkennilegan hátt þorir aldrei í umr. hér í þinginu við þann sem hér stendur í ræðustólnum. Hann skýtur sér alltaf undan því að svara þeim rökum og beitir til þess tvennum rökum, annars vegar að hann hafi verið feginn þegar ég fór úr Framsfl. og hins vegar nú að ég sé varaþm. (Forsrh.: Nei.) Jú, það sagði hæstv. ráðh. hér áðan.

Þetta læt ég mér allt í léttu rúmi liggja, herra forseti. En þegar hæstv. forseti, sem ég hef hins vegar þekkt í hv. Ed. þegar við vorum saman þar og stjórnarliðið kaus þá til forsetastóls í Ed. þótt hann væri stjórnarandstæðingur, ætlar nú að fara að beita forsetavaldi sínu til þess að koma í veg fyrir það að ég geti flutt ræðu mína hér í þessu máli, þá finnst mér nú satt að segja –(Iðnrh.: Stungin tólg?) Já, ég held að ég verði að taka undir að svo sé. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans frjóa orðfæri í þessu máli.

Herra forseti. Það er engin ástæða til að halda þessum umr. áfram fyrr en 1984 nema ein. Hún er sú að að öllum líkindum mun ég ekki vera viðstaddur þá. (Forsrh.: Það vildi ég vona.) Hæstv. forsrh. segist vona það, það mælir hann nú ekki af heilum hug.

Og þess vegna, herra forseti, tel ég óhjákvæmilegt í samræmi við þær venjur sem hér hafa tíðkast í þinginu, — og er m.a. beitt hér í Sþ. þegar varaþm. eru að fara út af þingi til að mæla fyrir ýmsum till. sem þeir hafa flutt, — að hæstv. forseti beiti sér fyrir því. Ég treysti því að hann reyni að koma því til leiðar hér á næstu dögum, að þessi umr. geti farið fram áður en þetta árið er úti, enda er nú ekki nema rétt fyrsti þriðjungur desembermánaðar að líða og enn þá eftir æðimargir dagar sem þing hefur venjulega starfað fram að jólum. (Forseti hringir.) Ætli það sé ekki tæpur hálfur mánuður eftir, herra forseti? (Forseti: Vill hv. þm. stytta aths. sínar um þingsköp?) — Já, herra forseti verður að þola það þó að þetta taki nokkuð langan tíma vegna þess að það var ærið óvenjulegur úrskurður sem forseti var að gefa hér áðan. Það eru ekki létt spor fyrir mig að þurfa að fara hér upp í ræðustólinn til þess að gera aths. við fundarstjórn jafn ágæts forseta, sem ég hef í áraraðir reynt að einhverri bestu fundarstjórn sem ég kynntist hér í þinginu á sínum tíma. Og þess vegna, herra forseti, mælist ég til þess að athugað verði í rólegheitum í samvinnu forseta þingsins og formanna þingflokkanna hvort ekki gefist tækifæri til þess að halda þessari umr. áfram en ekki sé einhliða tilkynnt hér úr ræðustól nú áður en desembermánuður er miður að þessi umr. muni ekki fara fram fyrr en árið 1984, því að afleiðingar þeirrar ákvörðunar geta eingöngu verið einar.