20.10.1983
Sameinað þing: 6. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

2. mál, könnun á raforkuverði á Íslandi

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég vil í fyrsta lagi þakka fyrir þær ágætu undirtektir, sem þessi tillaga hefur hlotið hjá þeim þm. sem hafa kvatt sér hljóðs, og vona ég að það muni tryggja henni greiðan gang í gegnum þingið til samþykktar.

Það hefur verið gerð við það athugasemd að í okkar till. og grg. skuli ekki vikið að stórnotendum raforku hér og þeirra hlut. Auðvitað eru það mál sem hljóta að koma til nákvæmrar skoðunar í þessu sambandi. Það fer ekkert hjá því. Og orkuverðið til ÍSALs — allt stendur það nú til bóta samkvæmt upplýsingum hæstv. iðnrh. og við skulum vissulega vona að svo verði.

En hinu mega menn ekki heldur gleyma, að Búrfellsvirkjun, sú hin fyrsta, hefði aldrei verið byggð í þeirri mynd sem hún var byggð ef ekki hefði til komið orkusölusamningurinn. Það er staðreynd sem menn verða að hafa í huga og verða að ganga út frá þegar um þessi mál er rætt.

En ég þakka sem sagt fyrir þær ágætu viðtökur sem þessi till. hefur hér hlotið.