08.12.1983
Neðri deild: 22. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Áður en ég geri grein fyrir frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins á þskj. 158 vil ég í örstuttu máli gera grein fyrir nokkrum staðreyndum vegna aðgerða núv. ríkisstj. í húsnæðismálum það sem af er þessu ári.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. 28. maí s.l. voru eftirfarandi aðgerðir ákveðnar:

1. að veittur verði frestur á hluta af greiðslum vaxta og afborgana verðtryggðra lána. Skal þeim greiðslum, sem frestað er, bætt við höfuðstól lánsins og lánstíminn lengdur þannig að greiðslubyrði á hverjum tíma aukist ekki af þeim sökum. Þessi aðgerð nái til lána Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, lífeyrissjóða, banka og sparisjóða.

2. Gerður verði heildarsamningur við lánastofnanir um skuldbreytingarlán fyrir þá sem stofnað hafa til skulda vegna byggingar eða kaupa á eigin húsnæði í fyrsta sinn undanfarin 2–3 ár.

Enn fremur var ákveðið í stjórnarsáttmála að endurskoða lög um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Þann 27. maí s.l. voru síðan gefin út brbl. nr. 57 um frestun greiðslu afborgana og verðbóta íbúðarlána banka og sparisjóða er gjaldfalla á tólf mánuðum, tímabilinu 1. maí 1983 til 30. apríl 1984. Frestun þessi gilti fyrir 25% af framangreindum greiðslum sem bætist við höfuðstól lánsins og kemur til greiðslu að loknum lánstíma.

Samkv. upplýsingum veðdeildar Landsbanka Íslands höfðu 1. des. s.l. 2.600 aðilar notfært sér þessa aðgerð og fjárhæðin var rúmar fimm millj. kr. Upplýsingar hafa ekki borist frá sparisjóðum, lífeyrissjóðum né öðrum bönkum. Samkvæmt þessu er ljóst að mjög margir hafa notfært sér þessa aðgerð.

Samningar náðust við Samband ísl. viðskiptabanka og Samband Ísl. sparisjóða um skuldbreytingu skulda húsbyggjenda og íbúðarkaupenda. Samkomulagið byggðist í aðalatriðum á reglum er bankarnir komu sér saman um:

a. að umsækjandi hafi fengið lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á árinu 1981, 1982 eða 1983 eða verið lánshæfur á þessum árum skv. núgildandi reglum stofnunarinnar.

b. að umsækjandi eigi aðeins eina íbúð eða íbúðarhús sem hann hafi byggt eða keypt í fyrsta sinn eftir 1. jan. 1981 til eigin afnota.

c. að umsækjandi hafi fengið lán hjá banka eða sparisjóði til íbúðarkaupa eða byggingar til skemmri tíma en fjögurra ára sem eigi að greiðast upp á næstu þremur árum eða fyrr. Undanskilin skulu skammtímalán, veitt vegna væntanlegra húsnæðislána, lífeyrissjóðslána eða annarra tímasettra greiðslna. Lánstími er 8 ár eða skemmri tími skv. ósk lántakanda. Lánin áttu að vera bundin lánskjaravísitölu með 2.5–3% vöxtum og veitt gegn fasteignaveði. Ríkisstj. setti síðan brbl. um að þessi skuldbreytingarlán yrðu undanþegin stimpilgjaldi og enn fremur felldu bankarnir niður lántökugjald.

Aðalreglan í samkomulagi viðskiptabanka og sparisjóða var sú að þær almennu reglur skyldu gilda um afgreiðslu skuldbreytingar hjá lánastofnunum að séu lánin að mestu leyti hjá einni lánastofnun taki hún að sér alla skuldbreytinguna og greiði lán hjá öðrum bönkum og sparisjóðum án sérstakrar skuldajöfnunar. Dreifist lánin hins vegar tiltölulega jafnt á milli lánastofnana skiptist skuldbreytingar á milli þeirra í sömu hlutföllum, en þó ekki á milli fleiri en þriggja stofnana. Með samráði á milli hlutaðeigandi stofnana sé forðast að viðskiptamanni sé vísað frá einni stofnun til annarrar án úrlausnar.

Ýmis fleiri ákvæði voru í þessu samkomulagi við bankastofnanir og þó því sé ekki að neita að maður varð fyrir vissum vonbrigðum yfir nokkurri tregðu, er fram kom hjá ýmsum bankastofnunum, til þess að gera þessa skuldbreytingu auðveldari fyrir skuldara tókst þó að leysa mörg slík vandamál er upp komu. Skv. upplýsingum er ég hefi nýjastar frá bankaeftirlitinu höfðu 1. des. s.l. rúmlega þúsund lán verið afgreidd sem skuldbreytingarlán í bönkum og sparisjóðum og upphæðin — eða fjárhæðin — hljóðaði upp á rúmlega 110 millj. kr. Þó höfðu ekki borist upplýsingar frá nokkrum sparisjóðum. Fyrir liggur að þessar sömu bankastofnanir hefðu að auki gert fjölda breytinga á skuldabréfalánum lántakendum til hagsbóta. Auk þessa eru svo aðgerðir margra lífeyrissjóða sem ekki eru upplýsingar um. Það er því augljóst að þessi aðgerð ríkisstj. hefur orðið árangursrík til að létta greiðslubyrði og lánamál húsbyggjenda og er ástæða til að þakka viðskiptabönkum og sparisjóðum fyrir þessa ágætu fyrirgreiðslu.

Í þessu sambandi er rétt að geta til samanburðar að skuldbreytingarlán, sem var samið um árið 1981, námu aðeins 24 millj. skv. yfirliti sem ég hef fengið frá bankaeftirlitinu sem stuðst er við í skýrslu viðskiptabanka og sparisjóða frá árinu 1981 þannig að þarna er mjög mikill munur á.

Þann 22. sept. s.l. samþykkti ríkisstj. tillögu félmrh. að veita húsbyggjendum, er fengu frumlán til nýbygginga og lán til kaupa á eldra húsnæði á árunum 1982 og 1983 úr Byggingarsjóði ríkisins, viðbótarlán allt að 50% af upphaflegu láni. Þetta gilti einnig fyrir þá sem fengu fyrsta hluta láns 1981 en annan og þriðja hluta 1982. Húsnæðismálastjórn auglýsti síðan þessar reglur og umsóknarfrestur rann út 1. des. s.l. Afgreiðsla þessara lána hófst 21. nóv. s.l. Skv. upplýsingum Húsnæðisstofnunarinnar 5.12 s.l. er fjöldi þessara umsókna 4 600 en lántakendur, sem hefðu rétt til slíkra lána skv. þessum reglum, eru um 6 500 talsins. Húsnæðisstofnunin var búin að afgreiða til Veðdeildar Landsbankans 2 600 gildar umsóknir á þessum sama tíma og Veðdeildin var þegar búin að afgreiða rúmlega 900 lán 5. des. s.l. og reiknað er með að Veðdeildin afgreiði rúmlega 100–150 viðbótarlán á hverjum degi. G-lánin í þessum viðbótarlánum eru að jafnaði 37 þús. kr. og F-lánin að jafnaði — eða meðaltalið — um 80 þús. Ekki liggur enn fyrir hversu há heildarupphæð þessara viðbótarlána verður en reikna má með að heildarupphæðin verði um 254-300 millj. kr.

Í gangi er sala sérstakra verðtryggðra verðbréfa sem ætlað er upp í þessi viðbótarlán, að öðru leyti sér fjmrn. um fjármögnun þessarar útborgunar en gengið verður frá sérstökum lánasamningi þegar heildarfjárhæðin liggur fyrir.

Eins og sést á ofansögðu er hér um að ræða miklar aðgerðir ríkisstj. til að leysa fjárhagsvanda húsbyggjenda í landinu, ekki síst fyrir þá sem voru í byggingarframkvæmdum og lántökum á mesta verðbólgutímabili sem yfir hefur gengið frá árinu 1981–1983. Ríkisstj. hefur því vissulega staðið vel að þessu verki. Ég vænti þess að Veðdeild Landsbankans gangi rösklega fram við afgreiðslu þessara lána svo takast megi að afgreiða stærstan hluta þeirra fyrir jól eða alla vega fyrir næstu áramót.

Ríkisstj. hefur, það sem af er þessu ári, tekist að tryggja fjármögnun útlánaáætlunar húsnæðismálastjórnar fyrir yfirstandandi ár. En útlánaáætlunin hljóðaði upp á 605 millj. kr. útlán frá Byggingarsjóði ríkisins og 420 millj. frá Byggingarsjóði verkamanna. Um er að ræða að ljóst er að þessi lán verða öll að mestu afgreidd fyrir jólahátíð n.k.

Með bréfi dags. 10. júní s.l. skipaði félmrh. nefnd til þess að endurskoða l. nr. 51 frá 9. júní 1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í nefnd þessa voru skipaðir: Jóhann Einvarðsson, fyrrv. alþm., formaður, Gunnar s. Björnsson, trésmíðameistari, Halldór Blöndal alþm., Páll R. Magnússon húsasmiður og Þórður Ólafsson lögfræðingur. Hilmar Þórisson, skrifstofustjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, var ritari nefndarinnar.

Í skipunarbréfi nefndarinnar er tekið fram að hún skuli: „eftir því sem við á, fella inn í frv. sitt frv. það til l. um breyt. á l. nr. 51/1980, sem lagt var fram á Alþingi hinn 6. des. 1982, en hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi.“

Ég vil geta þess hér að meginatriði þess frv., eins og var gengið frá því í hv. Ed., eru svo til óbreytt í þessu frv. sem hér er lagt fram og rökstuðningur því með þeim breytingum vitaskuld sá sami.

Þá átti nefndin að „athuga sérstaklega á hvern hátt unnt væri, að auka fjármagn til byggingarsjóðanna m.a. með tilliti til þeirrar ákvörðunar ríkisstj., að koma á næsta ári lánshlutfalli af staðalíbúð upp í 50% af byggingarkostnaði fyrir þá, sem byggja eða kaupa í fyrsta skipti. Lánshlutfallið skyldi síðan fara hækkandi á næstu árum þar til 80% marki yrði náð.

Jafnframt skyldi nefndin athuga möguleika á lengingu lánstímans.“

Ég vil geta þess að nefndin hefur unnið mjög mikið starf og er ástæða til að þakka henni sérstaklega fyrir ágætt starf að þessum málum s.l. sumar og haust. Hallgrímur Snorrason, hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun, og Sigurður B. Stefánsson hagfræðingur aðstoðuðu nefndina við ýmsa útreikninga varðandi stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og munu allar skýrslur þar að lútandi verða til staðar fyrir félmn. þingsins þegar þær taka frv. til meðferðar nú næstu daga.

Enn fremur hafa Skúli Sigurðsson, fyrrv. skrifstofustjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins, og Sigurður Snævarr, hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun, verið ráðgefandi varðandi V. kafla frv. um kaup á íbúðum sem byggðar hafa verið á félagslegum grundvelli skv. eldri lögum. Þá hafa þeir einnig komið þar við sögu Guðmundur Gunnarsson, forstöðumaður Tæknideildar Húsnæðisstofnunar og Helgi V. Guðmundsson lögfræðingur hennar, en þeir sitja báðir í matsnefnd félagslegra íbúða skv. núgildandi lögum. Ríkarður Steinbergsson verkfræðingur og Guðmundur Snorrason viðskiptafræðingur hafa einnig unnið með nefndinni í sambandi við þennan kafla laganna.

Nefndin tók síðan mið af þeirri samþykkt er ríkisstj. gerði á fundi sínum 22. sept. s.l. varðandi húsnæðismál. Þá var samþykkt tillaga félmrh. um eftirfarandi breytingar á útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins frá og með 1. jan. 1984:

„1. Öll lán hækki um 50%.

2. Nýbyggingarlán til þeirra, sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn, skulu greidd í tveimur hlutum, þ.e. fyrri hlutinn mánuði eftir fokheldisstig og seinni hlutinn sex mánuðum frá útborgun fyrri hlutans. Útborgun lána til annarra skal vera óbreytt frá því sem nú er.

3. Nýbyggingalán lengist úr 26 árum í allt að 31 ár. 4. Lán til kaupa á eldra húsnæði lengist úr 16 árum í allt að 21 ár.

5. Öll lán verði afborgunarlaus fyrstu tvö árin.

6. Gjalddögum húsnæðislána verði fjölgað í 4 á ári.“ Þá er það yfirlýst markmið ríkisstj. að húsnæðislánakerfið verði eflt svo á næstu árum að lánin geti numið allt að 80% byggingarkostnaðar eða kaupverðs íbúðar hjá þeim sem eru að eignast íbúð í fyrsta skipti. Með hliðsjón af fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs taldi nefndin ekki efni til þess að leggja til að á næsta ári yrði gengið lengra en samþykkt ríkisstj. frá 22. sept. s.l. gerir ráð fyrir um lánveitingar úr honum.

Í þessu sambandi leggur nefndin áherslu á að óraunhæft er að miða við lán Byggingarsjóðs eins þegar lánshlutfall er metið. Verulegur hluti af lánum lífeyrissjóða rennur til öflunar húsnæðis. Þá minnir nefndin á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er lögð áhersla á „fjölbreyttari sparnaðarform fyrir almenning, t.d. samningsbundinn sparnað, tengdan rétti til húsnæðislána.“ Eftir þessum þrem leiðum verður að afla fjár til húsnæðislánakerfisins til þess að ná því marki að lánin fari upp í 80% á næstu árum.

Þær tillögur frv. um breytingar á gildandi lögum, sem einkum skipta máli fyrir fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins næstu árin, varða tekjuöflun hans og eru þær tvíþættar. Annars vegar er lagt til að bundið verði í lögum að sjóðurinn njóti framlags á fjárlögum ár hvert er verði ekki lægra en 40% af áættuðum útlánum á fjárlagaárinu. Hins vegar eru gerðar tillögur um lengingu lánstíma en það getur haft áhrif á tekjur sjóðsins af veittum lánum næstu árin.

Ég vil geta þess hér að skv. þeim útreikningi, sem umræddir aðilar frá Þjóðhagsstofnun hafa lagt fram og mun verða til hliðsjónar í félmn., er gert ráð fyrir að þessi 40%, miðað við þá áætlun sem fyrir liggur í fjárlögum og lánsfjáráætlun, eigi að skila ríkissjóði á næsta ári 467 millj. kr. En eins og hv. þm. vita þá er í fjárlagafrv. 200 millj. beint framlag í fjárlögum og sérstök fjáröflun, 200 millj., í lánsfjáráætluninni þannig að nokkuð vantar á að þessu marki sé náð miðað við þessa grein í lögunum, en að því verður að sjálfsögðu unnið. (SvG: Vill ráðh. skýra það nánar þetta með 200 millj.?)

Ég skal verða við ósk hv. þm. um það. Það er gert ráð fyrir því að það verði gefin út áfram sérstök verðbréf í gegnum Seðlabankann en enn fremur eru hafnar sérstakar viðræður við Seðlabankann og viðskiptabankana um aðra fjáröflunarleið í gegnum bankakerfið til þess að ná þessu marki. Og ég hef enga ástæðu til þess á þessu augnabliki að efast um að það muni nást samkomulag um þetta.

Hin mikla hækkun raunvaxta, sem varð með upptöku verðtryggingar lána árið 1974, breytingar verðtryggingarhlutfallsins 1975 og einkum þó 1978 og hækkun nafnvaxta á þessu tímabili, hlaut að laga stöðu sjóðsins, Byggingarsjóðsins, til muna en áður hafði sjóðurinn búið við neikvæðan vaxtamun á veittum lánum og teknum lánum. Verðlækkun 1979 veikti stöðu Byggingarsjóðs og skapaði neikvæðan vaxtamun á ný. Fram til ársins 1973 var Atvinnuleysistryggingasjóður helsti lánveitandi Byggingarsjóðs en frá og með árinu 1974 hefur hann tekið meiri hluta lána sinna hjá lífeyrissjóðum og lántökur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hafa minnkað úr því að vera fimmtungur af ráðstöfunarfé 1971 í 10% s.l. tvö ár.

Önnur skýring á samdrætti eiginfjártekna nettó er hin mikla aukning á lántökum Byggingarsjóðs frá og með árinu 1979 sem afleiðing af skerðingu ríkissjóðsframlagsins. Tekin voru lán sem stóðu undir fjórðungi af ráðstöfunarfé árin 1977 og 1978, þriðjungi lána 1979, 40% 1980, 63% 1981 og 51% 1982. Árlegar lántökur sjóðsins jukust alls um 140% að raungildi frá árinu 1978 til ársins 1981 en urðu síðan 40% minni að raungildi 1982 en árið áður. Árið 1983 er áætlað að lántökur verði 5% minni að raungildi en árið 1982 ef ekki er tekið tillit til þeirra sérstöku og afturvirku hækkana útlána sem eru nú í gangi.

Til þess að ljúka þeirri lýsingu á fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins, sem hér hefur verið gefin, er rétt að geta fjáröflunar af skyldusparnaði. Skyldusparnaður nettó, þ.e. innkomið skyldusparnaðarfé að frádregnum greiddum afborgunum, vöxtum og verðbótum, hefur verið afar breytilegur frá einu ári til annars. S.l. sex ár hefur hann yfirleitt numið 8–13% af ráðstöfunarfé. Árið 1982 nam skyldusparnaður, nettó, 29 millj. kr. eða 8% af ráðstöfunarfé en er áætlaður lækka mjög mikið á árinu 1983.

Sem fyrr segir er í frv. gert ráð fyrir að í lögunum verði framlag ríkissjóðs ákveðið að lágmarki 40% af áættuðum útlánum ár hvert. Þetta hlutfall er lægra en það var yfirleitt á áttunda áratugnum en mun hærra en það hefur verið á árunum 1980–1983. Ljóst er að sú aukning á framlagi ríkissjóðs, sem í þessu felst, miðað við s.l. fjögur ár, hefur mjög hagstæð áhrif á stöðu Byggingarsjóðs. Á hinn bóginn benda þær tölur um fjármögnun sjóðsins, sem hér hafa verið raktar, til þess að framvindan árið 1980–1983 hafi verið sjóðnum afar óhagstæð og er líklegt að þess muni gæta um alllangan tíma. Því er óvíst að það framlag, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi sjóðnum til að lágmarki, sé nægilegt til þess að koma sjóðnum á réttan kjöl á ný. Til þess kann að þurfa meira fé enda hlýtur viðreisn sjóðsins að vera eitt meginmarkmið fyrir ákvarðanir um þau skilyrði sem sjóðnum verða búin næstu árin. Til lengri tíma litið ætti það að vera keppikefli að sjóðurinn byggist upp og verði þess smám saman megnugur að standa undir auknum lánveitingum til húsnæðisöflunar almennings.

Og ég vil geta þess að hv. þdm. eða þeir nm., sem starfa í félmn., munu geta fengið í hendur áætlun um fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins þar sem miðað er við að 80%-markinu verði náð á 15 árum, þó miðað við staðalóúð eins og hún er sett upp í dag, miðað við það að ríkissjóður leggi árlega 40% fram.

Í frv. þessu eru gerðar þrenns konar tillögur sem varða lánskjör. Í fyrsta lagi er lagt til að vextir veittra lána verði ákvarðaðir af ríkisstj. en ekki fastbundnir í lögum eins og nú er og jafnframt verði vextir af skuldabréfum breytilegir. Í öðru lagi verði lánstími lengdur úr 26 árum í 31 ár hvað varðar nýbyggingarlán en úr 16 árum í 21 ár hvað varðar flest önnur lán. Í þriðja lagi er lagt til að lán verði afborgunarlaus í tvö ár í stað eins árs áður.

Í tveimur síðari liðunum, sem hér um ræðir, felst að lánskjör verði rýmkuð fyrir lántakendur en það hefur í för með sér skerðingu á árlegum tekjum sjóðsins af eigin fé. Sem dæmi má taka ársgreiðslu af 620 þús. kr. nýbyggingarláni en það er núverandi lánsfjárhæð skv. öðrum staðli húsnæðismálastjórnar að viðbættri 50% hækkun sem ríkisstj. hefur ákveðið að taki gildi frá næstu áramótum. Ársgreiðsla af því láni nemur skv. gildandi l. um 31 750 kr. en lækkaði í um 28 400 kr. eða um 10% við það að lánstími væri lengdur um fimm ár en vextir héldust óbreyttir. Munurinn er mestur á öðru ári hvers láns eftir tillögum frv. um tveggja ára afborgunarlaust tímabil þegar í stað venjulegrar ársgreiðslu koma 12 400 kr. vextir. Væru vextir hins vegar hækkaðir í 3% á ári, svo dæmi sé tekið, næmi vaxtagreiðsla af þessu láni 18 600 kr. fyrstu tvö árin en eftir það yrði ársgreiðsla af láninu um 32 300 kr. Ýmis rök hníga að því að lengja þennan tíma eftir lánveitingu sem lán eru afborgunarlaus, svo og því að æskilegt sé að dreifa afborgunum yfir langt tímabil. Á hinn bóginn má sú rýmkun lánskjara, sem felst í tillögum frv. um þetta efni, ekki verða til þess að rýra tekjur Byggingarsjóðs óhóflega og tefja þannig fyrir nauðsynlegri uppbyggingu hans. Því kann að vera nauðsynlegt að hækka vexti af lánum sjóðsins, a.m.k. um sinn, á meðan á þeirri uppbyggingu stendur. Áhersla skal á það lögð að í þeirri könnun á fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins, sem lokið verður við á næstunni, og ég vil skjóta því inn að hún er nú þegar tilbúin, verður m.a. fjallað um áhrif þeirra tillagna um breytingar á lánskjörum svo og um áhrif mishárra vaxta á fjárhag Byggingarsjóðs.

Ég vil nú, herra forseti, fara nokkrum orðum um frv. sjálft eins og það liggur hér fyrir.

1. gr. þess er óbreytt frá gildandi l., svo má einnig segja um 2. gr. frv., að öðru leyti en því að felld er niður síðasta mgr., 3. mgr., í núgildandi l., sem var orðin óþörf og er raunar óþarft að hafa í lagasetningu.

Um 4. gr. vil ég segja það að í gildandi lögum eru engin ákvæði um kjör endurskoðenda. Þess vegna taldi nefndin eðlilegt að Alþingi kjósi tvo endurskoðendur til að gegna því starfi og er það í samræmi við kjör endurskoðenda annarra ríkisstofnana þar sem Alþingi kýs yfirstjórn þeirra.

Í III. kafla frv. er fjallað um Byggingarsjóð ríkisins og er hann byggður upp á sama hátt og III. kafli gildandi laga. Í frv., eins og það er lagt hér fyrir, eru þó teknar upp millifyrirsagnir til að afmarka einstakar greinar frv. sem fjalla um tiltekna lánaflokka. Er þetta gert til þess að auðvelda lestur þess og gera lagafyrirmælin skýrari.

Um 9. gr.

Í gildandi lögum eru tekjustofnar Byggingarsjóðs tilgreindir í 1.–5. tl. 9. gr. Í 2. tl. er kveðið á um árlegt framlag til sjóðsins úr ríkissjóði af launaskatti, byggingarsjóðsgjöldum og tekju- og eignarskatti og aðflutningsgjöldum. Í þessu frv. eru ákvæðin um þessa mörkuðu tekjustofna felld niður en árlegt framlag ríkissjóðs miðað við ákveðið hlutfall af samþykktri útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins fyrir viðkomandi ár. Í frv. er þetta hlutfall, eins og ég áður sagði, ákveðið eigi lægra en 40%.

Aðrir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins eru óbreyttir frá gildandi l.

Um 11. gr. frv. er það að segja að í gildandi l. eru taldir upp lánaflokkar Byggingarsjóðs í 9 liðum. Í frv. eru gerðar þrjár breytingar við gildandi ákvæði.

Skv. 3. tl. gildandi laga er lánað til byggingar íbúða fyrir aldraða. Í þessu frv. verða þessar íbúðir skilgreindar sem leiguíbúðir aldraðra. Ef um söluíbúðir er að ræða er lánað skv. 1. tl. Í 6. tl. frv. er fellt niður orðið „viðbótarlán“ í sama tl. gildandi laga. Er þetta gert þar sem einstaklingar með sérþarfir fá lán skv. þessum lánaflokki til endurbóta á gömlu húsnæði þótt ekki sé um kaup eða byggingu að ræða. Ef um slíkt er að ræða þá er heimilt að lán skv. þessum tl. komi til viðbótar lánum skv. 1. og 2. tl. þessarar greinar.

Þetta er ákaflega mikilvægt fyrir þessa aðila að þessi breyting er gerð.

Um 13. gr.

Í gildandi l. er tekið fram að óheimilt sé að veita viðbótarlán ef högum umsækjenda er þannig háttað — eins og stendur í núgildandi lögum: að umsækjandi eigi íbúð sem ekki er fyrirhugað að selja, umsækjandi hafi brotið gegn ákvæðum byggingarlaga eða byggingarreglugerðar og umsækjandi byggi fleiri en eina íbúð.

Í frv. er gert ráð fyrir því að greiða fyrir byggingu leiguíbúða og eru því 1. og 3. tl. 2. mgr. 13. gr. gildandi laga felldir brott. Hins vegar þykir rétt að setja þau skilyrði fyrir lánum til bygginga leiguíbúða að standi lántakandi ekki við skuldbindingar sínar um að leigja viðkomandi íbúð eða íbúðir fellur lánið í gjalddaga.

Og þá er einnig í þessari gr. gerð sú breyting að lánstími þessara lána er lengdur úr 26 árum í allt að 31 ár.

Um 14. gr.

Þar er lagt til að sú mikilvæga breyting verði gerð að lán, sem veitt eru skv. þessari grein að viðbættum uppfærðum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins, nemi aldrei hærri fjárhæð en nýbyggingarlán er á hverjum tíma. Skv. gildandi lögum er ekkert þak á heildarfjárhæð G-lána sem mega hvíla á einni íbúð og eru dæmi þess skv. upplýsingum Húsnæðisstofnunar að slík lán uppfærð nemi hærri fjárhæð en nýbyggingarlán. Slíkt þykir ekki eðlilegt og því er girt fyrir það með þessari breytingu í frv. Þá er lánstími þessara lána lengdur úr 16 árum í allt að 21 ár.

Um 15. gr. Grein þessi er 17. gr. gildandi laga með breytingum og nýmælum. Skv. frv. er ekki gerður greinarmunur á þeim sem geta fengið þessi lán en í gildandi lögum eru lánin veitt til sveitarfélaga, stofnana á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtaka.

Skv. frv. er gert ráð fyrir því að lánað sé til bygginga leiguíbúða handa öldruðum eftir þessari gr. Ef um er að ræða söluíbúðir, ætlaðar öldruðum, verður lánað til bygginga þeirra eftir 1. tl. 11. gr. frv. eins og verið hefur.

Þá er í gr. það nýmæli að greitt er fyrir því að fá aukið fé til bygginga aldraðra. Þetta er í fyrsta lagi gert með því að heimila hlutareign þeirra sem fá íbúðirnar til afnota og í öðru lagi með því að heimila sölu á skuldabréfum til þeirra sem þarfnast vistunar á stofnun og hafa nokkur fjárráð.

Þegar rætt er um hlutareign er átt við eignarform sem lítið er þekkt hér á landi en vel þekkt á hinum Norðurlöndunum. Þegar sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir byggja íbúðir, þar sem veitt er margvísleg þjónusta, geta þeir selt einstaklingum, er þess æskja, tiltekinn eignarhluta í íbúð sem þeir fá til afnota gegn hóflegu gjaldi. Eignarhluta sinn fær kaupandi endurgreiddan ef hann flytur úr íbúðinni, auk þess sem hann endurgreiðist við andlát íbúðarhafa samkvæmt sérstökum samningi.

Sama gildir um skuldabréf sem aldrað fólk kaupir í dvalarheimilum þar sem það fær vistrými og félagslegt öryggi. Margt aldrað fólk á nokkra fjármuni eða jafnvel íbúð sem það vill selja og kaupa sér öryggi og þjónustu með þessum hætti. Rétt þykir að reyna þessa leið hér á landi til þess að flýta fyrir uppbyggingu íbúða og vistheimila aldraðra. Þetta er mjög mikilvægt fyrir aldrað fólk og ég hef orðið var við að margir aðilar komnir yfir miðjan aldur hafa gífurlega mikinn áhuga á að fá möguleika til að nýta þetta ákvæði þessa frv.

16. gr. er efnislega samhljóða 18. gr. gildandi l. með þeirri breytingu að óheimilt verður að selja leiguíbúðir sem byggðar eru skv. greininni á meðan á þeim hvílir lán úr Byggingarsjóði ríkisins.

Um 18. gr.

Í gildandi lögum eru lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu íbúðarhúsnæði bundin við einstaklinga og sveitarfélög. Í frv. er ekki gerður greinarmunur á því hvaða aðilar geta fengið slík lán.

Einnig eru settar hér fyllri reglur en áður um lán til endurbóta á notuðu húsnæði og viðbyggingar þegar þetta tvennt fer saman.

Í gildandi lögum má ekki veita lán skv. 4. tl. 11. gr. út á sömu íbúð oftar en á 10 ára fresti. Í frv. er gert ráð fyrir að þetta ákvæði verði aðeins bundið við lán til endurbóta, ekki til viðbygginga.

Í gildandi lögum — í sambandi við 19. gr. — eru þessi lán að jafnaði veitt gegn 2. veðrétti en heimilt er að miða við tiltekið hlutfall af fasteignamati viðkomandi íbúðar. Í frv. er jafnframt heimilað að miða við tiltekið hlutfall af brunabótamati íbúðarinnar.

Þá er lánstími þessara lána lengdur úr 16 árum í allt að 21 ár.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi við 18. gr. og 19. gr. að ákaflega mikilvægt er að þarna opnist möguleikar til að létta aðilum að endurbæta eldra húsnæði, en þess er víða mikil þörf og grípur raunar einnig inn á orkusparandi aðgerðir.

Um 21. gr.

Með greininni er felld niður krafa um bakábyrgð sveitarfélaga. Þetta er eðlilegt þar sem 1. veðréttur í viðkomandi íbúð á í öllum tilfellum að nægja. Einnig eru felld niður ákvæði um vextina og svo er einnig með fleiri greinar sem ég mun ekki endilega lesa hér upp. En ákvæðið um vextina sem er nú í gildandi lögum er alls staðar fellt niður.

Um 24. gr. frv. vil ég segja að í gildandi lögum mega þessi lán nema allt að 80% af viðbótarkostnaði eða endurbótakostnaði. Nefndin taldi eðlilegt að sett yrði hámark hér um, eins og gert er þegar um er að ræða lán til endurbóta skv. 4. og 5. tl. 11. gr.

Í gildandi lögum eru þessi lán veitt gegn 2. veðrétti. Nú verður heimilt að taka lakari veðrétti en að ákveðnu hámarki.

Hér er gert ráð fyrir að lengja lánstímann í allt að 16 ár, en skv. gildandi lögum er hann bundinn við 11 ár. Í frv. er gert ráð fyrir því að heimilt verði að fresta afborgunum af lánum lántaka sem orðinn er 70 ára eða er fatlaður sé fjárhag hans þannig varið að sýnt þyki að hann fái ekki staðið undir afborgunum af láninu. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og kemur heim við þær óskir sem fram hafa komið t.d. frá Öryrkjabandalagi og fleiri slíkum aðilum.

25. gr. fellur undir kaflann um orkusparandi aðgerðir í húsnæðismálum. Í gildandi lögum er aðeins heimilt að veita einstaklingum þessi lán. Í frv. er ekki gerður greinarmunur á því hvaða aðilar geta fengið slík lán.

Í gildandi lögum mega þessi lán nema allt að 75% af endurbótakostnaði. Hér er gert ráð fyrir því að þessi lán geti numið allt að 80% af endurbótakostnaði en þó aldrei hærri fjárhæð en 50% af nýbyggingarláni.

Í gildandi lögum eru þessi lán veitt gegn 1. eða 2. veðrétti. Nú verður heimilt að taka lakari veðrétti en að ákveðnu hámarki.

Einnig er ákveðið í frv. að lengja lánstímann í allt að 16 ár, en skv. gildandi lögum er hann bundinn við 11 ár. Í þessu sambandi vil ég geta þess að þessar greinar tvær spanna yfir ákaflega þýðingarmikið mál sem mikið er til umr. í þjóðfélaginu í dag í sambandi við orkusparnað og hátt orkuverð í landinu. Gerðar hafa verið ýmsar áætlanir um orkusparandi aðgerðir í húsnæðismálum. Ég vil geta þess í sambandi við þetta mál að í gangi er á vegum iðnrn. og hefur verið í nokkuð langan tíma viss athugun á þessum málum og m.a. hefur verið gert mikið átak í þessu á vegum sambands sveitarfélaga á Vesturlandi. Í sambandi við þetta mál skrifaði ég stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins 9. nóv. s.l. svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

„Í umr. um hið háa orkuverð til húshitunar hér á landi utan hitaveitusvæða hefur komið fram að hægt væri að draga verulega úr þeim kostnaði með orkusparandi aðgerðum á íbúðarhúsnæði.

Í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins er gert ráð fyrir lánum til orkusparandi breytinga á húsnæði. Tiltölulega lítið hefur verið sótt í þennan lánaflokk. Að mati ráðuneytisins er mjög aðkallandi að stuðla að breytingum á íbúðarhúsnæði til orkusparnaðar, enda er það tilgangur með framangreindu ákvæði laga.

Ráðuneytið óskar eftir því að stjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins feli tæknideild að gangast fyrir úttekt á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum utan hitaveitusvæða í þeim tilgangi að fá yfirlit um ástand húsnæðis og á grundvelli slíkrar úttektar verði gerðar till. og/eða áætlanir í þeim tilgangi að auðvelda húseigendum að hefja skipulegar framkvæmdir til orkusparandi breytinga á íbúðarhúsnæði þar sem þessa er þörf. Nauðsynlegt er að leita samvinnu og samstarfs við iðnrn., Samtök sveitarfélaga, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða og Fasteignamat ríkisins, en allir þessir aðilar ráða yfir möguleikum til að hraða slíkri úttekt og gera hana marktækari.“

Húsnæðismálastjórn hefur þegar samþykkt þessi tilmæli og þegar hafa verið settar ákveðnar aðgerðir í gang á vegum Húsnæðisstofnunar, tæknideildar stofnunarinnar, sem spanna yfir þetta verkefni og ég vænti mikils af því í samvinnu við tiltekna aðila að af þessu verði jákvæður árangur.

30. gr. frv.

Með þessari grein frv. er lagt til að ákvörðun um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði ekki bundin í lögum eins og nú er, heldur verði þeir ákveðnir af ríkisstj. að fenginni till. húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabanka Íslands. Í öðru lagi er lagt til að gjalddagar lána verði ekki bundnir við tiltekna daga ársins eins og nú er skv. gildandi lögum. Jafnframt verði lán skv. 1.– 7. tl. 11. gr. afborgunarlaus fyrstu tvö árin. Í gildandi lögum eru þau afborgunarlaus fyrsta árið.

Hér er um mjög veigamikla breytingu að ræða sem oft hefur verið deilt um. Ég tel að þetta sé nauðsyn þar sem ljóst er að byggja þarf upp Byggingarsjóð ríkisins og það getur verið eðlilegt að hafa þarna ekki bundnar hendur í lögum, að haga þessum ákvæðum eftir því sem þörf er á hverjum tíma.

IV. kafli þessara laga. Samkvæmt gildandi lögum lánar Byggingarsjóður verkamanna sveitarfélögum til byggingar leiguíbúða. Hér verður einnig gert ráð fyrir að lánað verði til félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem byggja leiguíbúðir handa félagsmönnum sínum eða öðrum sem þurfa á leiguhúsnæði að halda. Er þar m.a. höfð í huga mikil þörf námsfólks á leiguhúsnæði, en lítið hefur verið byggt af leiguíbúðum hér á landi um margra ára skeið. Á öllum þéttbýlisstöðum er ætíð brýn þörf fyrir fleiri eða færri leiguíbúðir og er því hér opnuð leið til þess að lána til slíkra bygginga.

Hér er lagt til að lánstími verði 31 ár og að lánsupphæð verði allt að 80%.

Ég geri ráð fyrir að þessi kafli laganna verði talsvert mikið til umr. og hann hefur þegar verið mikið til umr. í sambandi við bæði hugmyndir námsmanna um að leysa þeirra húsnæðismál og einnig í sambandi við nýjar hugmyndir að því er varðar húsnæðissamvinnufélög sem mjög hafa verið til umr. í þjóðfélaginu að undanförnu.

Ég met mikils hinn almenna áhuga fólks á þessum nýju formum, eins og húsnæðissamvinnufélögum, en ég tel ástæðu til þess vegna þess sem á undan er gengið að vara við of mikilli bjartsýni um að á skjótvirkan hátt verði hægt að leysa húsnæðismál eftir þessum formum. Lánamarkaðir hér á landi eru miklu erfiðari og þrengri en t.d. á Norðurlöndum og ég tel nauðsyn bera til að þeir sem standa fyrir þessum samtökum — sem ég met mikils eins og ég sagði áður og tel að hér sé bryddað upp á nýjungum, sem þurfi að sinna og taka til meðferðar — skoði þetta vel og vandlega áður en gefnar eru of ákveðnar yfirlýsingar um hvernig þetta verður framkvæmt hér á landi.

Mér finnst of mikið hafa verið gert að því að láta ekki koma fram í þessu sambandi hvernig hægt er að hugsa sér að standa undir 95% af fjármagni sem gert er ráð fyrir að augljóslega þurfi til að koma þegar gert er ráð fyrir að viðkomandi félagar leggi fram búseturéttartillag sem væri um 5%. Einnig þarf að átta sig á hvernig þetta kæmi út miðað við vaxtakjör og annað sem liggur ekki enn fyrir hvernig verður. En ég vil fagna þessum mikla áhuga og vonast til að með raunhæfum aðgerðum verði hægt að standa vel að þessu máli hér á landi eins og gert hefur verið víða í nágrannalöndum okkar með miklum myndarskap.

Í sambandi við 34. gr. þessa frv. þá er í 37. gr. í gildandi lögum kveðið á um fjáröflun til Byggingarsjóðs verkamanna. Framlag íbúðarkaupenda í heildarverði íbúða kemur aldrei inn sem tekjur sjóðsins. Þess vegna er sú breyting gerð í sambandi við 37. gr. að felldur er niður úr greininni e-liður 34. gr. með framlagi sveitarfélaga sem nema 10% af því fjárframlagi. Það er í sambandi við framlag viðkomandi íbúðareiganda sem á að leggja fram í þessum núgildandi lögum 10%. Þetta er fellt niður enda er ekki þörf á að það sé inni þar sem það kemur aldrei inn í tekjur Byggingarsjóðs verkamanna.

Um 37. gr.

Skv. gildandi lögum eiga stjórnir verkamannabústaða á hverjum stað skilyrðislaust að gangast fyrir könnun í upphafi kjörtímabilsins á byggingaþörf fyrir verkamannabústaði í sveitarfélaginu. Þessi binding í upphafi kjörtímabilsins þótti óþarflega afmörkuð og því er hér lagt til í 37. gr. að rýmka þessa kvöð nokkuð án þess að úr gildi hennar sé dregið.

Um 39. gr. í þessu frv.

Í gildandi lögum eru engin ákvæði um hvernig með skuli fara ef bílskúr eða bílskýli eru byggð samhliða íbúðum. Því eru nú sett skýr ákvæði um að óheimilt sé að lána til byggingar bílskúra eða bílskýla enda er lánshlutfall til íbúða í verkamannabústöðum það hátt að ekki er talið fært að láta málin ná til kostnaðarauka við bílskúra eða bílskýli. Sama gildir við endursölu á íbúðum í verkamannabústöðum, en þó er nauðsynlegt að tryggja að bílskúr eða bílskýli sem byggð hafa verið fylgi íbúðinni við sölu. Skal það metið sérstaklega og getur seljandi ekki vænst þess að fá þá eign sína staðgreidda eins og íbúðina sjálfa.

Um 45. gr.: Í gildandi lögum kemur ekki fram hvenær á byggingartíma skal auglýsa eftir umsóknum um íbúð. Með ákvæðum í greininni er að því stefnt að stjórn verkamannabústaða úthluti íbúðum þegar á byrjunarstigi framkvæmda til þess að kaupendum íbúðanna gefist lengri tími til þess að greiða framlag sitt til byggingarinnar.

Um 46. gr.: Í gildandi lögum er kveðið á um að greiðsla íbúðarkaupanda skuli fara fram í tveimur hlutum. Með þeirri breytingu, sem hér er gerð, er þetta rýmkað í samræmi við ákvæði 45. gr. um lengingu greiðslutíma. Einnig er sett nýtt ákvæði um hvernig endurgreiðslu skuli háttað ef réttur til íbúðar fellur niður.

Um 48. gr.: Í gildandi lögum eru tvö ákvæði um veðsetningu. Í fyrsta lagi er óheimilt að veðsetja íbúð fyrstu 15 árin fyrir öðrum lánum en úr Byggingarsjóði verkamanna. Í öðru lagi er ákvæði um 75% hámark eftir 15 ára eignartíma. Skv. þessu frv. verður nú heimilt að veðsetja íbúð í verkamannabústað fyrir öðrum lánum. Þar sem sjóðurinn tekur 1. veðrétt taldi nefndin, endurskoðunarnefndin, það vera mál viðkomandi lánastofnunar hvort hún lánar gegn 2. veðrétti eða lakari. Jafnframt verður hér fellt niður ákvæði um 75% hámarkið.

Hér er einnig lagt til að tekin verði upp strangari viðurlög ef íbúð í verkamannabústöðum verður leigð án samþykktar stjórnar verkamannabústaða.

Í gildandi lögum er heimilt að lána allt að 90% af kostnaðarverði staðalíbúðar. Í frv. er gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði 80% en rétt þykir að hafa heimild til þess að veita 90% lán ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi að mati húsnæðismálastjórnar. Þá er í gildandi lögum ákvæði um fast framlag kaupanda íbúðar. Einnig er ákvæði um fasta vexti af lánum sjóðsins. Í lögunum er ekkert ákvæði um lántökugjald eins og í Byggingarsjóði ríkisins. Hér verður lagt til að eftirfarandi breytingar verði á gerðar:

Ákvæðið um að binda framlag kaupanda íbúðar við 10% af kostnaðarverði er fellt niður. Það getur oft verið meira þó heimilt sé að lána allt að 80% af kostnaðarverði íbúða.

Fellt er niður ákvæðið um að binda vaxtaprósentu sjóðsins í lögum en í staðinn er sett sambærilegt ákvæði og um Byggingarsjóð ríkisins.

Taka skal lántökugjald og aðra þóknun af lánum sjóðsins eins og gert er af lánum Byggingarsjóðs ríkisins.

Fellt er niður ákvæði um að binda gjalddaga lána við ákveðna daga.

Ég vil geta þess að nokkur gagnrýni hefur komið fram þegar í sambandi við þá breytingu sem hér er lögð til. Sumpart er það af misskilningi. Eins og hér kemur fram er gert ráð fyrir að veita 90% lán ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi að mati húsnæðismálastjórnar. En í því frv. sem fjallaði um breytingu á húsnæðislögum en ekki varð útrætt á síðasta Alþingi voru í 18. gr. lögð til nýmæli sem gengu að hluta til inn á það sama, að jafna nokkuð út þetta ákvæði laganna um 90% lán. En þar stóð í 18. gr. að sú breyting yrði gerð á 51. gr. núgildandi laga að Byggingarsjóður verkamanna skyldi að jafnaði taka 1. veðrétt í íbúð fyrir þeim lánum sem hann veitir.

Nú á kaupandi að íbúð í verkamannabústað rétt á láni í lífeyrissjóði og er þá heimilt að lífeyrissjóðurinn taki 1. veðrétt fyrir sínu láni, en Byggingarsjóður verkamanna 2. veðrétt, enda lækki lán Byggingarsjóðs verkamanna sem því nemur.

Þetta var til umfjöllunar á síðasta þingi og fór í gegnum meðferð Ed. og var þar ekki gerð nein athugasemd við þetta nýja ákvæði sem fyrrverandi félmrh. lagði fram. Nefndin hafði nokkrar umr. um þetta atriði og hafði vissulega til athugunar að skylda þá sem eiga rétt á lífeyrissjóðsláni, þá sem ættu rétt á að fara inn í verkamannabústaði, til að taka slíkt lán og skerða þannig framlag Byggingarsjóðs verkamanna sem því næmi. En þá hefðu lántakendur mismunandi lánskjör og þess vegna var sú leið ekki valin.

Ég hef orðið var við að þetta mál hefur valdið nokkrum umr. og jafnvel mótmælum frá verkalýðshreyfingunni, en ég vil segja það strax og tel eðlilegt að fram komi að ég tel mjög nauðsynlegt að þetta ákvæði í þessu nýja frv. sé skoðað vandlega, hvort eigi að velja þá leið sem lögð var til í því frv. sem ég áður nefndi og ekki var útrætt hér, eins og var í 18. gr. þess, þannig að lífeyrissjóðslán viðkomandi aðila sem færi inn í verkamannabústaði yrði dregið frá framlagi Byggingarsjóðs verkamanna. Ég vil ekki loka fyrir að reynt sé að ná samkomulagi um þetta vegna þess að ég tel ákaflega mikilvægt að samtök launþega í landinu séu sátt við þessi ákvæði laganna, ekki síst ef það getur stuðlað að því að meira fjármagn frá lífeyrissjóðum verkalýðshreyfingarinnar sé til staðar til að efla Byggingarsjóð verkamanna. Ég legg áherslu á að félagsmálanefndir þingsins skoði þetta ákvæði sérstaklega þar sem Alþingi virtist sammála um að breyta þessu ákvæði eftir því frv. sem fyrrv. félmrh. lagði hér fram á síðasta þingi.

Um 50. gr.

Í gildandi lögum eru skýlaus ákvæði um kaupskyldu sveitarfélaga fyrstu 30 árin eftir afsal. Einnig er íbúðareiganda óheimilt að selja íbúð á frjálsum markaði hversu lengi sem hann hefur átt viðkomandi íbúð nema því aðeins að sveitarfélagið hafi áður hafnað forkaupsrétti.

Hér er lögð til mikilvæg breyting, að kaupskylda sveitarfélaga á íbúðum, sem byggðar eru skv. lögum nr. 51/1980, sé stytt úr 30 árum í 15 ár, en jafnframt haldist forkaupsréttur næstu 15 ár. Sveitarfélögin hafa lagt mikla áherslu á þessa breytingu. Jafnframt er lagt til að heimilt sé að selja íbúð í verkamannabústað á frjálsum markaði hafi hún verið í eign sama eiganda í 30 ár samfellt.

Hér er um að ræða mjög mikla breytingu sem þegar hefur komið fram skv. ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur. Vissulega er umdeilt hvort hér er rétt að staðið, en ég tel samt að rétt sé að láta reyna á hvort Alþingi er sammála þessu ákvæði. Það hefur bæði kosti og ókosti, en í mörgum tilfellum er ákaflega bagalegt að ekki hefur verið hægt að beita þessu ákvæði á undanförnum árum.

Um 51. gr. frv.

Í meðferð mála skv. gildandi lögum hafa komið upp ýmsar spurningar og vafaatriði. Með þeim breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði er leitast við að gera ákvæðið um verðlagningu íbúða fyllra. Með breytingunum er verið að tryggja að þeir sem selja íbúðir í verkamannabústöðum fái verðbætur á það fé sem þeir lögðu í þær en engan söluhagnað. Hliðsjón er höfð af gildandi reglum um endursölu íbúða, en tekið tillit til þeirra breytinga sem leiða af fullri verðtryggingu lána.

Síðari málsgr. gr. er nýmæli sem tekur tillit til aðstæðna sem til verða þegar íbúðarverð fylgir ekki öðrum verðlagsbreytingum. Þær aðstæður koma jafnan upp þegar erfiðleikar eru í atvinnulífi í einstökum byggðarlögum og fólki fækkar af þeim sökum. Í slíkum tilvikum er heimilað að taka aukaafskrift af íbúðum og jafnframt skal þá afskrifa í sama hlutfalli lán Byggingarsjóðs verkamanna.

Um þetta atriði hafa verið mjög miklar deilur og oft þurft að úrskurða um þann skilning sem hefur verið lagður í sambandi við mat við sölu íbúða og var nauðsynlegt að kveða hér sterkar á í sambandi við þetta ákvæði.

Sú breyting sem er gerð í sambandi við 54. gr. gildandi laga er vegna breytinga á 33. gr. frv. og því nýja hlutverki Byggingarsjóðs verkamanna að veita lán til félagasamtaka og stofnana sem byggja leiguíbúðir skv. e-lið 33. gr., en sú gr. er svohljóðandi: „C-liður 33. gr. um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðarbyggingar, leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra sem ekki hafa aðstöðu til að eignast eigið húsnæði við hæfi.“

Þegar rætt er um félagasamtök og stofnanir sem framkvæmdaaðila við byggingu leiguíbúða eru hafðar í huga sjálfseignarstofnanir svo sem Félagsstofnun stúdenta og aðrar sambærilegar stofnanir, samtök leigjenda, verkalýðsfélög og fleiri hagsmunaaðilar sem myndað gætu samtök til þess að byggja leiguíbúðir til afnota fyrir félagsmenn eða til leigu á almennum markaði. Þurfa þá slíkir aðilar að leggja fram fjármagn sem nemur mismun á veittum lánum Byggingarsjóðs verkamanna og heildarbyggingarkostnaði viðkomandi framkvæmda.

Hér er vissulega um mikið nýmæli að ræða og eins og ég sagði áðan grípur þetta inn á þær hugmyndir sem þegar eru í gangi í sambandi við húsnæðissamvinnufélög og þörfina fyrir að auka möguleika fyrir námsmenn að koma sér upp húsnæði.

Um 58. gr.

Í gildandi lögum er ákvæði um að lána skuli 80% af kostnaðarverði staðalóúða. Einnig er aðeins heimilt að veita sveitarstjórnum lán til byggingar leiguíbúða.

Hér verður lagt til að lánshlutfall verði allt að 80% af byggingarkostnaði, en ekki 80% af byggingarkostnaði staðalióúða, þar sem slík kostnaðarviðmiðun getur farið yfir raunverulegan byggingarkostnað þegar bornar eru saman ólíkar húsgerðir eins og mörg dæmi hafa sannað. Jafnframt nái þessi lán til fleiri aðila skv. ákvæðum 33. gr. frv. eins og ég áður lýsti.

Þá er tekið upp það nýmæli að heimila byggingaraðilum að selja leigutaka hlutaeign í þeirri íbúð sem hann fær til afnota með tilteknum kvöðum um afnotarétt og endurgreiðslu.

Þá er með þessari grein orðið við óskum um að lengja lánstíma þeirra lána sem veitt eru til leiguíbúða úr 15 árum skv. gildandi lögum í allt að 31 ár, en vextir verða ákveðnir af stjórnvöldum með sama hætti og af öðrum lánum byggingarsjóðanna.

Þetta er þýðingarmikil grein sem grípur inn á það sama og ég var að lýsa áðan í sambandi við ýmsar nýjungar sem menn hafa hugsað sér að reyna hér á landi um að stofna til húsnæðis með leigurétti eða búseturétti eins og margir kalla.

Um 59. gr.

Skv. gildandi lögum geta aðeins sveitarfélög úthlutað leiguíbúðum. Með tilkomu c-liðar í 33. gr. frv., sem ég hef áður greint frá, eru sett skýr ákvæði um ráðstöfun þeirra íbúða sem eftir þeim lið verða byggðar. Þannig að þeir aðilar sem byggja skv. þeim lið úthluta sjálfir þeim leiguíbúðum. Ástæða er því til að undirstrika nauðsyn á setningu reglugerðar vegna ráðstöfunar og ákvörðunar á húsaleigu leiguíbúða sem að sjálfsögðu er mjög mikilvægt atriði og er þegar í undirbúningi.

Herra forseti, ég er e.t.v. of langorður um frv. í heild, en hér er um mikilvægt mál að ræða og ég vildi aðeins þess vegna leggja meiri vinnu í að skýra frv., og það hlýtur að teljast nauðsynlegt. Fimmta kafla frv. sem er ákaflega mikilvægur — hef ég aðeins lauslega komið inn á, þ.e.a.s. forkaupsrétt sveitarfélaga á íbúðum byggðum samkvæmt lögum fyrir gildistöku gildandi laga. Hér er um mjög þýðingarmikinn kafla að ræða sem hefur verið lögð mikil vinna í og ég sé ekki ástæðu til að fara nánar ofan í hann.

Einnig vil ég taka fram í sambandi við VI. kafla laganna, um tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunarinnar, að það kom mjög til umræðu að gera róttækar breytingar á tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar. Margir hafa verið ósammála um þá starfsemi, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að taka þennan kafla sérstaklega fyrir nú, heldur láta hann fylgja þeirri endurskoðun sem ákveðið er að hefja á skipulagi Húsnæðisstofnunarinnar í heild sem ég hef í huga að hefjist fljótlega í upphafi næsta árs.

Um VII. kafla laganna um skyldusparnað ungs fólks til íbúðarbygginga væri hægt að ræða mikið miðað við það sem fram hefur komið um þann lið. Engar efnisbreytingar eru í þessum kafla, en nokkuð hert ákvæði um innheimtu á skyldusparnaði og þá lagt til að beita sömu ákvæðum og við innheimtu launaskatts og jafnframt felld niður útgáfa sérstakra sparimerkja og ætti það að auðvelda allt eftirlit með þessum kafla. En eins og fram kemur með upplýsingatöflum sem fylgja frv. varðandi hreyfingu á skyldusparnaði árið 1979 til 1983 kemur í ljós að búast má við að ef tekið er tillit til rekstrarkostnaðar gæti skyldusparnaður orðið neikvæður árið 1983 og er það vissulega umhugsunarefni.

Í VIII. kafla laganna er lagt til að taka nýjan kafla inn í lögin sem ber yfirskriftina Byggingarsamvinnufélög. Ekki er ástæða fyrir mig að fara sérstaklega ofan í þennan kafla, hann var í því frv. sem var til meðferðar á síðasta Alþingi og ég sé ekki ástæðu til að fara ofan í hann að neinu ráði þar sem hann kemur svo til óbreyttur inn í því frv. sem hér er lagt til. En byggingarsamvinnufélögin eru að margra mati mjög þýðingarmikill þáttur í okkar húsnæðiskerfi og hafa sannað á undanförnum árum að þau hafa komið mörgum að miklum notum og er áreiðanlega form sem ber frekar að efla en hitt. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi kafli sé kominn inn í heildarlöggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Segja má í sambandi við frv. eins og það er lagt fram hér að byggingarsamvinnufélögum sé gert auðveldara að sameinast en samkv. gildandi lögum án þess að dregið sé úr möguleikum almennra félagsmanna til að hafa áhrif á ákvörðunartökuna. Engin ákvæði eru í gildandi lögum um sameiningu, en áhugi á sameiningu byggingarfélaga hefur verið vaxandi á undanförnum árum.

Þá eru settar vissar takmarkanir á sölu íbúða sem byggðar hafa verið af byggingarsamvinnufélagi og er gert ráð fyrir að byggingarsamvinnufélögin hafi forgangsrétt að íbúðum fyrstu fimm árin frá lóðaúthlutun. Einnig er gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnun sé stjórnum byggingarsamvinnufélaga til aðstoðar og leiðbeiningar við byggingarframkvæmdir og skal hún gegna eftirlitshlutverki í því sambandi. M.a. skal Húsnæðisstofnun hafa aðgang að bókhaldi þeirra og er byggingarsamvinnufélögum gert skylt að senda stofnuninni ársreikninga.

Herra forseti, ég hef nú í stuttu máti farið yfir helstu breytingar í sambandi við þetta frv. frá gildandi lögum. Það hefði e.t.v. verið ástæða til að fara enn þá nánar í ýmsa kafla en ég sleppti því viljandi vegna þess að, eins og ég tók fram í upphafi, meginefni þess frv. sem var til umfjöllunar á síðasta þingi um breytingar á Húsnæðisstofnun ríkisins, er fellt inn í þetta frv. Nokkrar breytingar eru gerðar og fengu þær mjög mikla og góða umfjöllun í meðförum þingsins.

Ég vil aðeins koma inn á að ég tel umfjöllun um húsnæðismál ekki lokið með þessu frv. sem hér er. Halda þarf áfram að endurskoða þessi mál og fjalla um þau. Mitt mat er að það þurfi að auka þátttöku bankakerfisins á Íslandi í húsnæðismálunum. Ég vil aðeins endursegja það sem fram kom við þá endurskoðun sem fram fór hér á árinu 1982 um Húsnæðisstofnunina sem ég átti þátt í. Þar var í till. um

húsnæðismál og stefnumörkun sem þáv. nefnd var sammála um og núv. n. var einnig sammála um, að ríkisstjórnin beiti sér fyrir samkomulagi við viðskiptabanka og sparisjóði um samræmda þátttöku í fjármögnun húsnæðismála. Í því skyni verði stofnaðir nýir húsnæðisreikningar við viðskiptabanka og sparisjóði þar sem innlán í vissan árafjölda veiti rétt til viðbótarlána við lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Upphæð lána ákvarðist af reglu sem taki mið af innlánstíma. Jafnframt verði kannað hvort unnt sé að beita skattfríðindum til að örva slíkan sparnað. Viðskiptabankarnir taki að sér að veita framkvæmdalán í byggingariðnaði, framkvæmdalán á byggingartímanum sem Byggingarsjóður ríkisins endurgreiði þegar íbúðirnar eru lánshæfar skv. reglum sjóðsins.

Þetta ákvæði er í þessu frv. og er ákaflega mikilvægt og ég vil geta þess í sambandi við þetta atriði að ríkisstj. fól viðskrh. og félmrh. að beita sér fyrir viðræðum milli Seðlabanka Íslands og innlánsstofnana um þessa sérstöku sparireikninga, tengdum rétti til lántöku til íbúðabygginga gegn vissum ívilnunum vegna þessa sparnaðar, og í öðru lagi að viðskiptabankarnir taki við því verkefni sem Byggingarsjóður ríkisins hefur haft til að veita framkvæmdalán til byggingarverktaka á byggingartímanum. Hér er um að ræða skammtímalán sem greiðist upp með lánum til íbúðarkaupenda um fokheldisstig og er eðlilegt að bankakerfið láni slík skammtímalán fremur en byggingarsjóður sem er fjárfestingalánasjóður og lánar til langs tíma. Gert er ráð fyrir að fjárhæð á næsta ári í þessu skyni verði um 120 millj. kr. og ég vil segja frá því hér að þessar umr. eru löngu hafnar og gefa þegar til kynna að orðið geti um að ræða árangur af því.

Ég vil einnig geta þess að þegar er hafin athugun á því að gera úttekt og langtímaáætlun á íbúðarþörf næstu ára. Einnig er í ráði að setja af stað sérstakan starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna íslenskan fasteignamarkað og nauðsynlegar breytingar sem kynni að vera hægt að koma á í þeim málum. M.a. með því að koma á því formi að það væri hægt að lækka útborgunarhlutfall sem er á fasteignamarkaðinum.

Ég vil að lokum segja í sambandi við lífeyrissjóðakerfið að ég fagna því alveg sérstaklega að síðustu daga hefur náðst samkomulag við lífeyrissjóðina í landinu um fjármögnun húsnæðislána á næsta ári. skv. því eru lífeyrissjóðirnir fúsir til að láta 40% af ráðstöfunarfé sínu á næsta ári án þess að til þurfi að koma lögþvingun að einu eða neinu leyti. Þetta er ákaflega mikilvægt og kemur til með að hjálpa okkur til að byggja það samstarf sem þarf að vera við lífeyrissjóðina til að byggja upp kerfi eða útvega fjármagn í húsnæðiskerfið almennt.

Ég tel ekki ástæðu að fara meira í þessi mál, ég vonast til að gott samstarf náist um að koma þessu frv. í gegnum Alþingi. Ég sagði áðan og vil endurtaka það að Þjóðhagsstofnun og þeir aðilar sem ég nefndi hafa þegar í höndum alla útreikninga og upplýsingar um bæði fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins á næstu árum og ýmis töluleg gögn. Þeir eru fúsir til að verða til leiðbeiningar um þessi mál. Og ég vil beina því til félmn. Nd. sem fær málið til meðferðar að leitað verði eftir því formlega strax hvort ekki er hægt að fá félmn. Ed. til að vinna með félmn. Nd. og hafður verði sá háttur á að í staðinn fyrir að senda út skriflega óskir um umsagnir þá verði farið þá leið sem oft hefur verið farin hér á Alþingi, að fá aðila til viðtals við n. til að flýta fyrir þessum störfum.

Ég vil svo, herra forseti, að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.