09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að fá að segja örfá orð utan dagskrár og beina máli mínu til hæstv. iðnaðar- og orkuráðh. út af mjög mikilvægu máli, að mínu mati og marga fleiri. Það er ekki síður mikilvægt en ýmis önnur þau mál sem fengið hafa rúman tíma í utandagskrárumr. að undanförnu. Ég skal ekki níðast á góðvild hæstv. forseta varðandi þetta, veit að þingið er önnum kafið.

Miklar umr. hafa átt sér stað um orkujöfnunarmál og þá sér í lagi jöfnun húshitunarkostnaðar. Bæði fyrrv. hæstv. ríkisstj. og núv. hafa sett á laggirnar nefndir til að gera tillögur um jöfnun húshitunarkostnaðarins. Í fjárlögum er venjulega ætlað til þessa þáttar nokkurt fjármagn, en eigi að síður er staðreyndin sú, þrátt fyrir fögur fyrirheit og gefnar yfirlýsingar, og staðan sú í þessu máli, a.m.k. í mínu kjördæmi og reyndar víðar, að helmingur dagvinnutekna fer til þess þáttar eins í heimilishaldinu að hita upp íbúðarhúsnæðið, þ.e. fjóra tíma á degi hverjum þarf fólk á þessum svæðum að vinna til að standa undir þessum þætti einum í heimilishaldinu. Auðvitað getur slíkt ekki gengið lengur og er raunar búið að ganga alltof lengi og hefur orðið þess valdandi og verður enn frekar þess valdandi að miklir búferlaflutningar eiga sér stað á þau svæði sem gefa miklu meiri möguleika til að láta lítinn hluta af tekjuöfluninni duga til þessa þáttar heimilishaldsins.

Ég minni líka á í þessu sambandi að Alþýðusamband Vestfjarða gerði á s.l. ári sérstaka kröfu á hendur ríkisvaldinu um að þessi þáttur yrði lagfærður, sem væri þá miklu raunhæfari kjarabót launafólki til handa á þessum svæðum en krónutöluhækkanir í kaupi, er teknar væru til baka jafnóðum — og raunar er búið að taka þær áður en þær koma til útborgunar.

Ég tel nauðsynlegt að fá um það vitneskju áður en fjárlagaafgreiðsla fer fram hér á hv. Alþingi, með hvaða hætti hæstv. ríkisstj. ætlar sér að taka á þessu máli í ljósi staðreynda sem fyrir liggja og ekki síður í ljósi gefinna fyrirheita, gefinna kosningaloforða í síðustu alþingiskosningum í apríl s.l. Það var ljóst, og ekki bara í þeim kosningum, að núverandi stjórnarliðar gáfu fögur fyrirheit um hvað gera skyldi í þessu mikilvæga máli kæmust þeir til valda. Ég skal ekki rifja það neitt frekar upp nú, nema þá að gefnu tilefni síðar, en ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnaðar- og orkuráðh. nokkurra spurninga að þessu lútandi.

Mér er tjáð að það muni ekki ætlunin að taka neitt sérstakt tillit til þessa mikilvæga þáttar að því er varðar afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984. Það er því nauðsynlegt að fá um það vitneskju, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst gera í þessum málum. Mig langar því til að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

1. Hefur nefnd sú sem skipuð var af núv. hæstv. iðnrh. til tillögugerðar um jöfnun á húshitunarkostnaði lokið störfum? Ég hef af afspurn frétt að hún hafi lokið störfum, en ég veit ekki hvort hún hafi skilað formlega af sér til hæstv. ríkisstj. Um það er spurt.

2. Sé svo, getur hæstv. ráðh. greint frá niðurstöðum og tillögum þeirrar nefndar sem hér um ræðir, þ.e. hvað hún leggur til að gert verði til að jafna þann gífurlega kostnað sem hér er um að ræða og lækka hann?

3. Verður tekið tillit til tillagna nefndarinnar um jöfnun húshitunarkostnaðar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984? Það er nauðsynlegt að fá um það vitneskju hvort uppi eru hugmyndir af hálfu hæstv. ríkisstj. um að taka tillit til niðurstöðu eða tillagna þessarar nefndar liggi þær tillögur fyrir nú þegar, áður en fjárlög verða afgreidd.

4. Mun ekki hæstv. iðnrh. sjá svo um að öllu orkujöfnunargjaldinu, sem gefur um 420 millj. að áætlað er á árinu 1984 samkv. fjárlagafrv., verði skilað til þess þáttar sem það var raunverulega ætlað til í upphafi, þ.e. til jöfnunar á húshitunarkostnaði? Ég spyr vegna þess að bæði hæstv. núv. iðnrh. og ýmsir aðrir í núverandi stjórnarliði gagnrýndu réttilega fyrrv. hæstv. ríkisstj. fyrir það hvernig hún hélt á þessum þætti mála, þ.e. að taka verulegan hluta af orkujöfnunargjaldinu ófrjálsri hendi til annarra þátta í ríkisrekstrinum. Ég treysti því að hæstv. iðnrh. hafi ekki skipt um skoðun að því er þetta áhrærir og ég treysti því að hann sjái um að þessum peningum, 420 millj. ca. að áætlað er á árinu 1984, verði skilað beint til að lækka þennan kostnað, því að verði það gert er það verulegt skref í átt til lækkunar hitunarkostnaðar hjá almenningi sem við þessar aðstæður býr.