09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Vestf. um hina stjórnskipuðu nefnd, orkuverðsnefnd sem svo hefur verið kölluð, vil ég upplýsa að í næstu viku, hafði raunar verið gert ráð fyrir á mánudaginn kemur, verður skilafundur með mér haldinn. Af því getur að vísu ekki orðið á mánudag, en í næstu viku verður skilafundur haldinn þar sem þessi nefnd skilar af sér störfum. Hún hefur unnið rösklega, haldið 25 fundi um málið og notið aðstoðar sérfræðings. Hún hefur sett saman drög að frv. með grg. og öðrum upplýsingum sem til hafa fallið, en þar til ég hef kynnt mér þetta mál get ég ekki setið fyrir svörum um það og því verður það að vera nægjanlegt svar við 2. lið hinnar beinu fsp. frá hv. þm. Varðandi fsp. hans um hvort tillit hafi verið tekið til tillagna nefndarinnar um jöfnun húshitunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984, þá leiðir af sjálfu sér að hún hefur ekki haft enn þá neinar tillögur uppi sem gagngert hafa verið lagðar fram um þetta efni, þannig að hún á ekki tillögur fyrirliggjandi enn sem komið er.

Kem ég þá að 4. lið fsp. hv. þm., sem ég geri ráð fyrir að hafi verið aðalhvatinn að hans umr. utan dagskrár nú. (KP: Meðal annars.) Eftir því sem ég verð að svara fyrri þremur liðum fsp., þá virðist mér að þessi sé sá sem núna getur a. m. k. orðið til einhverrar umr. af þeim ástæðum, sem ég tilgreindi, að orkuverðsnefndin hefur ekki skilað af sér störfum og ekki hægt að ræða innihald hennar tillagna.

Hins vegar vil ég benda hv. 3. þm. Vestf. á að honum mun vera fullkunnugt um að formaður þeirrar nefndar er hv. 4. þm. Vestf. Öllum er kunnugt um afstöðu hans til orkuverðsjöfnunar. Hann hefur verið aðalmálsvari Sjálfstfl. í þeim efnum um árabil og hefur ekki farið dult með skoðanir sínar, þannig að þegar af þeirri ástæðu getur hv. þm. vafalaust rennt grun í meginniðurstöður í tillögum hinnar svokölluðu orkuverðsnefndar.

En 4. liður spurningar hv. þm. var um hvort iðnrh. mundi ekki sjá svo um að öllu orkujöfnunargjaldinu, sem áætlað væri 420 millj. kr. fyrir árið 1984, yrði ráðstafað til jöfnunar húshitunar. Nú er það svo, að iðnrh. einn hefur ekki völd til þess að sjá svo um að eitt eða neitt verði gert nema hann njóti til þess nægilegs athyglis hins háa Alþingis. Hann hefur átt tillögur til fjárlagagerðar um að 11/2 söluskattsstig, sem upphaflega var lagt á í þessu skyni, hyrfi allt til þessara þarfa. En eins og menn sjá af fjárlagafrv. eru aðeins 230 millj. kr. teknar frá í þessu skyni. Getum við raunar bætt við 61.5 millj. kr., sem eru á liðnum olíustyrkir, þannig að telja verður að þarna séu tillögur uppi um 291.5 millj. kr. til þessara þarfa.

Á hinn bóginn hef ég fengið upplýsingar um að menn álíti ekki að þetta gjald muni nema 420 millj. kr. fyrir árið 1984. 11/2 söluskattsstig muni e.t.v. fremur nema 470 millj. kr. á næsta ári. Þó eru þessar upplýsingar ekki staðfestar, en þetta eru nýjustu fréttir sem ég af þessu hef.

Við myndun ríkisstj. var reynt að standa við þau fyrirheit sem gefin voru. Á fjárlögum fyrir árið 1983 voru 35 millj. til jöfnunar húshitunarkostnaðar plús 2!) millj. til olíustyrks, samtals 64 millj. kr. En við höfum haldið því fram í umr. hér á hinu háa Alþingi og einnig í kosningabaráttunni að til þessa ættu að hverfa 214 millj. kr. eða raunar 216 millj. kr., ef standa ætti við þau ákvæði sem við álítum hafa lagaígildi, um að verja skuli 21/2 söluskattsstigi í þessu skyni á ári. Við stjórnarmyndunina voru teknar til hliðar 150 millj. kr. í viðbót til að jafna húshitun og jafna orkuverðið. Þar af leiðandi voru til ráðstöfunar, ég hygg að ég muni þá tölu rétt, 216.1 millj. því að eitthvað mun hafa verið á öðrum smáliðum í þessa skyni á fjárl., — smáliðum, eldri ráðstafanir sem gerðar höfðu verið í orkuverðsjöfnunarskyni, — þannig að í fyrstu atrennu var enginn vafi á því að núv. ríkisstj. stóð við hin gefnu fyrirheit, til að mynda Sjálfstfl., í þessu efni.

Á sínum tíma leitaði þáv. ríkisstj. til stjórnarandstöðunnar í Sjálfstfl. um samþykki við að á söluskattsstofn yrði lagt 11/2% í viðbót til þess að auka jöfnun húshitunar og orkuverðs í landinu. Við litum þann veg á og höfum alla tíð, málsvarar Sjálfstfl., túlkað þetta gjald sem svo, að það væri bundið við að því yrði ráðstafað til jöfnunar húshitunarkostnaðar eða orkuverðs í landinu hið minnsta. Á þetta vildi fyrrv. ríkisstj. ekki fallast. Í lögunum var fram tekið að þetta skyldi allt renna óskipt til ríkissjóðs og með vísun til greinargerða og umr. sem urðu þegar þessi lög voru sett árið 1980, þá var því haldið fram af fyrirrennara mínum og fyrirsvarsmönnum fyrrv. ríkisstj. að við hefðum alrangt fyrir okkur. Þetta ætti að ákvarðast á fjárlögum hverju sinni án tillits til þess hvað hið margumtalaða 1.5 söluskattsstig mundi gefa af sér á hverju ári. Ég verð að segja það, að ég á örðugt með að sætta mig við ef önnur túlkun en þessi verður ofan á, ef mínir menn, núv. stjórnarsinnar, bregða á það ráð að fallast á túlkun fyrrv. ríkisstj. í þessu efni. Ég verð að játa að það muni valda mér miklum vonbrigðum. Það er von að menn hafi áhyggjur af þessu sem er að sliga mörg heimill á köldu svæðunum, blátt áfram að segja, og mesta hætta sem ég hef lengi séð að muni valda búseturöskun meiri og sneggri og alvarlegri en við höfum e.t.v. lengi staðið frammi fyrir.

En það var rangt orðað og kannske ekki vísvitandi af hv. fyrirspyrjanda, hv. 3. þm. Vestf., að ekki væri ætlunin að taka tillit til þessarar orkuverðsstefnu, jöfnunar húshitunarkostnaðarins, í fjárlagafrv. Eins og ég rakti eru þó tæpar 300 millj. kr. í þessu skyni á fjárlögum og ég vil nú meina að bæði nú í ár og fyrir næsta ár sé vitanlega til mikilla bóta fjármagn sem veitt hefur verið til styrkingar dreifikerfanna í sveitunum. Það er enginn vafi að ýmislegt fleira en beinlínis er á liðum vegna þessara þarfa má líta á sem styrkveitingar og aðstoð í þessu efni. En út í þá sálma fer ég ekkert frekar.

Á hinn bóginn álít ég að umr. um orkujöfnunargjaldið til húshitunar eigi ekki heima utan dagskrár í dag, heldur við 2. umr. fjárlaga sem mér er tjáð að fari fram á þriðjudaginn kemur. Nú þegar þrengist um tíma okkar sem raun ber vitni um fyrir jól, þá er alveg nauðsynlegt að skipulag sé sem best á umr. og þær séu teknar fyrir eftir eðli þeirra. Ég vildi alls ekki skorast undan því að sitja fyrir svörum og auðvitað ræð ég engu um framhaldið, en hér er um hreint fjárlagadæmi að tefla, sem ég vildi aðeins benda á, ef menn gætu fellt sig við það, að á heima undir umr. um fjárlögin, og þá mun ég vissulega ekki draga af mér, bæði að sitja fyrir svörum eða á annan hátt að taka þátt í þeirri umr.

Þessu vildi ég aðeins varpa fram, en ég hef ekkert á móti því að menn noti tímann, ef hann er til ráðstöfunar hér, því að ég þykist enda vita að út af þessu mikilvæga atriði sé mönnum þungt niðri fyrir.