09.12.1983
Neðri deild: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. er farinn úr salnum og er væntanlega farinn upp til þess að hlusta á orð mín, hvernig þau féllu í sambandi við það að ég fengi engu um þessa hluti ráðið, því að ég tók fram að ég væri þar ekki einn í leik heldur þyrfti að njóta atfylgisins á Alþingi til að ná þessum hagsmunamálum fram, þegar hann spurði hvort ég mundi ekki „sjá svo um“ eins og það var orðað.

En ég hef alveg spánýja skýrslu í höndum, sem mér hefur ekki enn gefist kostur á að grandgæfa, frá tveimur verkfræðingum sem hafa unnið í ár að athugun á einangrun húsa, einangrunarþörf og þeim möguleikum sem gefast til orkusparnaðar. Og það sýnir sig að það eru kannske þeir kostir sem gæfu skjótastan árangur í þessu skyni og kæmu enda þeim best sem örðugast eiga. Og er það í samræmi við það sem kom fram hjá hv. 4. landsk. þm.

Ég vil aðeins nefna hérna sem dæmi að reiknuð hefur verið út hitunarþörf 135 fermetra einbýlishúss í Reykjavík af verkfræðingi sem nýlega hefur lokið prófi við tækniháskólann í Lundi, mjög nákvæmir útreikningar með aðstoð nákvæms tölvuforrits. Og þar kemur þetta fram um fimm stig mismunandi einangrunar fyrir hús í Reykjavík að orkuþörf til upphitunar í þeirri stærð af einbýlishúsi nemur ef einangrunin er léleg 55 þús. kw-stundum rúmum. En skv. íslenskri byggingarreglugerð gera þeir ráð fyrir að orkuþörfin sé 34 500 kw-stundir. Menn skyldu nú halda að reglugerð hér væri nú eins ströng um einangrun og í Svíþjóð. Að fyrra bragði hefði manni nú kannske flogið það í hug, en það er fjarri því. Orkuþörfin fyrir þessa stærð af íbúð hefði skv. sænskri byggingarreglugerð ekki numið nema 26 800 kw-stundum. Ef fullkomin einangrun yrði framkvæmd á slíku húsi er orkuþörfin til upphitunar slíks húss í Reykjavík aðeins 17 500 kw-stundir eða tæplega1/3 af því sem léleg einangrun krefst nú. Af þessu sjá menn hvaða gífurlegu hagsmunir eru hér í boði. Og eins og nefnt hefur verið og vísað til nýrrar skýrslu Orkustofnunar er hér áreiðanlega um geysilega athyglisvert mál að tefla sem ég mun beita mér mjög harkalega fyrir að nái einhverjum framgangi hið allra fyrsta.