12.12.1983
Efri deild: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Austurl. Þetta mál er manni enn þá svo ókunnugt að þess er alls ekki kostur að ræða um það af því viti sem þó í kolli manns býr. Þar kemur náttúrlega helst til að alls ekki hefur unnist tími til að kynna sér það. En þetta er eðlilega með stærri eða meiri háttar málum sem þing afgreiðir og fjöldi atriða sem gott væri að athuga betur áður en álit er látið í ljós um þau. Ég get í fljótheitum, við að lesa það á borðinu hjá mér núna, nefnt í II. kafla t.d. 15., 16. og 18. gr., sem hv. 2. þm. Austurl. hefur nú komið inn á að vissu leyti, og líka 22. og 23. gr., sem snerta mál sem ætla mætti að væri Íslendingum á þessum síðustu og verstu dögum mjög mikils virði að gera stórátak í. Við lestur yfirlits um lánsfjárþörf opinberra aðila vakna spurningar um einstök atriði eins og flugstöð í Keflavík, sem talað er um 88.8 millj. kr. lán til, en á borðum okkar liggur annað frv. um lán til þessarar sömu byggingar að því er ég fæ best séð. Væri kannske nauðsynlegra að taka lán, ef um slíka lántöku er að ræða, til einhverra annarra hluta sem í augnablikinu væru hugsanlega mikilvægari?

Ég veit ekki hvað er þinglegt í þvílíkum málefnum, en ég vildi a.m.k. mega mælast til þess við hæstv. forseta að þessari umr. lyki ekki með þeim hætti að þm. hefðu alls ekki haft tíma eða aðstöðu til að skoða málið. Ég veit ekki hvaða form er haft á slíku, hvort umr. er þá frestað eða hvernig það yrði meðhöndlað, en að okkur gæfist nægilegur frestur til að kynna okkur þetta, svo að við getum fjallað um það af einhverri þekkingu.